25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Frsm. (Emil Jónsson):

Umr. um þetta frv. hafa verið meiri að lengd og vöxtum en í eðli sinu. Aðfinnslur hæstv. forsrh. gengu aðallega í þá átt, að bannið við því, að verkstjórar séu ölvaðir að starfi, skuli skerpa svo, að það varði atvinnumissi, ef verkstjórar sjást nokkru sinni og nokkursstaðar undir áhrifum víns. Ég tók fram, að n. skyldi taka málið til meiri athugunar. En meðan ýmsum stéttum þjóðfélagsins er ekki bannað að vera ölvaðar við sín störf, er varla hægt að ganga hér eins langt og ráðh. vildi, þótt það væri æskilegt.

Hv. 3. landsk. (EE) óskaði eftir upplýsingum um það, hvað væri opinber vinna. Ég hélt að það væru allir sammála um, að það væri sú vinna, sem unnin er af hálfu ríkis, sveitar eða bæjarfélags, og önnur ekki.

Hv. þm. Borgf. kom með aðfinnslur, sem ég hefi áður svarað, aðallega um það, að 3. liður 3. gr. væri svo óljóst orðaður, að hann mætti misskilja. N. hefir lofað að taka þetta til athugunar, en þetta atriði kemur mér spánskt fyrir vegna þess, að 3. gr. er sú eina, sem við höfum notið aðstoðar lögfræðings við að semja.

Þá kemur hv. þm. V.-Húnv. og óskar þess, að frv. verði vísað til allshn. Ekki veit ég, hvort á að skilja það sem frh. af þeirri yfirlýsingu form. allshn., að hún væri svo störfum hlaðin, að hún gæti alls ekki komizt yfir allt, sem hún þyrfti að ljúka. Enda hefir verið spurzt fyrir um mál, sem til hennar hafa farið, hvenær vænta mætti afgreiðslu á þeim. Þessi yfirlýsing hv. formanns n. vegna kom fyrir svo skömmu, að hv. þm. (SkG) mætti hafa hana vel í huga. Þar sem iðnn. hefir flutt málið og það er a. m. k. eins skylt henni og allshn., er ekki nema eðlilegt að hlífast við að demba því á þá nefndina, sem er ofhlaðin störfum.