14.03.1939
Neðri deild: 19. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

31. mál, eignarnám lands í Ölfusi til nýbýla

*Flm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég skal fyrst upplýsa það vegna ummæla hv. 2. þm. Árn. áðan, að ef það reyndist svo, eins og mér virtist hann helzt álíta, að ekki mundi verða fært að reisa nema 2–3 býli á þessu svæði til viðbótar þeim, sem nú eru þarna, þá mundi ég alls ekki telja rétt að leggja út á þessa braut, því að þá mundi vera um svo lítið að ræða. En ég hefi nú aðra skoðun á þessu, nefnilega. að þarna sé um svo mikið land og ræktunarmöguleika að ræða, að nóg pláss sé þar fyrir miklu meira en þá býlatölu. En sem sagt: Þetta er atriði, sem þarf að rannsaka betur. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að nokkuð fer þetta eftir búskap þeim, sem rekinn verður í þessari sveit framvegis, hvort verður snúið sér að mjólkurframleiðslu eða mikið lagt upp úr sauðfjárrækt. En sveit þessi liggur á þeim stað, sem liggur bezt við mjólkurframleiðslu á Suðurlandsundirlendinu. Það virðist því sjálfsagt, að þarna verði stefnt fyrst og fremst að mjólkurframleiðslu. Því að það er frá mínu sjónarmiði öfugt að vera að reisa mjólkurbú í þeim héruðum, sem hafa kannske verri skilyrði til mjólkurframleiðslu heldur en þau, sem þegar hafa fengið mjólkurbúin, en vera svo að hafa sauðfjárrækt, kannske í mjög stórum stíl, rétt við vegginn á mjólkurbúunum, sem komin eru, meðan við erum í vandræðum með að koma út kjöti úr þeim byggðum landsins, sem ekkert hafa við að styðjast annað en sauðfjárrækt. Frá mínu sjónarmiði horfir þetta svo, að í þessum sveitum þarna fyrir austan hljóti mjólkurframleiðslan að verða aðalatriðið. Hitt er annað mál, að margt mælir með því, að einhver sauðfjárrækt verði höfð þar samhliða.

Ég veit ekki, hversu mikið land muni vera ónotað á þessum jörðum, sem lönd eiga á svæðinu, sem frv. tekur til, og því væri hægt að taka frá þessum jörðum. Hv. 2. þm. Árn. segir, að landverð þessara jarða sé „ekki nema“ 5–6 þús. — kr. hverrar fyrir sig, eða um það. Ég vil segja, að flestar þær jarðir, sem hafa svo mikið landverð hér á landi, hafi alveg feikimikið land til umráða.

Mér þykir alltaf, þegar ég fer um veginn gegnum Ölfusið, sárgrætilegt að sjá það, að þetta land, sem hér er um að ræða, sem er eitthvert fallegasta landið, sem til er á Suðurlandi, skuli liggja alveg ónotað, og það í sveit, sem skapazt hafa fyrir beztu skilyrði til atvinnurekstrar af sveitum landsins í sambandi við mjólkurframleiðslu. Þarna liggja sama sem ónotaðir mörg hundruð ha. af ágætu ræktunarlandi.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það, sem vakir fyrir okkur flm. þessa frv. með þessari eingarnámsheimild, er fyrst og fremst, að málið verði rannsakað gaumgæfilega. Hv. þm. Dal. taldi það illa farið, að rannsókn hefði ekki þegar verið gerð um þetta áður en frv. var flutt. En við flm. frv. töldum það ekki rétt að kosta fyrst til rannsókna á því, hvar ætti að koma samvinnubyggð fyrir og hve mikið land skyldi taka frá hverri jörð fyrir sig til þessara nýbýla, nema þingvilji væri fyrir því að taka þetta eignarnámi, ef sú rannsókn leiddi í ljós, að heppilegt væri að taka þarna land til ræktunar í því augnamiði, því að sú rannsókn hlýtur að kosta nokkuð mikið. En það hefir náttúrlega þegar farið fram bráðabirgðarannsókn á þessu. Við vitum, að það er gott að ræsa fram landið og hve góður jarðvegurinn er og hvernig landið liggur við samgöngum. Hitt er ekki vitað, hve mikið land má fá þarna samfellt frá þessum jörðum með því þó að ganga ekki svo nærri þeim, að þær geti ekki verið sjálfstæð býli framvegis. Að vísu virtist mér hv. 3. landsk. halda því fram, að vel geti komið til mála að taka eitthvað af þeim býlum, sem þarna eru, eignarnámi, og steypa þeim saman og gera framtíðarskipulagningu fyrir framleiðsluna þar. Ég skal segja það sem mitt álit, að ég tel þennan stað mjög vel fallinn til slíkrar samsteypu. En bæði er það, að eitthvað af verðmætum mundi með því móti fara til lítils eða einskis á býlunum, sem fyrir eru, og líka yrði slík ráðstöfun harðari fyrir þá, sem þarna eru nú eða eiga þessar jarðir. Af þeim ástæðum var það líka, að við flm. sáum okkur ekki fært að fara fram á, að svo yrði gert.

Þá voru það vissar spurningar, sem hv. þm. Dal. beindi til okkar flm. frv., svo sem hvort ríkið mundi ekki annarstaðar eiga nægilegt land, sem nota mætti í þeim tilgangi, sem hér er um að ræða, svo að ekki þyrfti að taka þetta landeignarnámi. Ríkið hefir þegar látið ræsa fram stærsta landið, sem það á á Flóaáveitusvæðinu. En hin önnur lönd þess þar eru svo smá hvergi fyrir sig, að ekki er hægt að reisa þar nema eitt einstakt býli á hverjum stað, og hvergi samvinnubyggð þess vegna hægt að hafa þar; slíkt getur alls ekki komið til mála. Hitt kann vel að vera, sem hv. 2. þm. Árn. benti á, að hægt væri e. t. v. að fá aðra staði, sennilega í Árnessýslu — þó að hann nefndi það nú ekki — sem ekki síður væru til þessarar ræktunar fallnir eða betri. Þetta getur vel verið rétt, og kann ég honum þakkir fyrir þessa ábendingu. Má þá athuga, hvort rétt þykir að taka land víðar eignarnámi til slíkra hluta en á þessum stað.

Það mun vera réttmæt aths. hjá hv. þm. Dal., að það þarf að vera ákveðnara ákvæði um stærð landsins, sem um er að ræða, en gert er í frv. Ég býst við, að þetta verði athugað í n. og gerð upptalning á jörðum þeim, sem þarna koma til greina. Ég sé, að það getur ekki gengið að hafa frv. í því formi, sem það er í nú.