14.04.1939
Neðri deild: 40. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

72. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Það er misskilningur hjá hv. þm. N.-Ísf., að orð mín áðan hafi verið í andstöðu við reynsluna. Það, sem ég upplýsti, var einmitt í samræmi við reynsluna hér á Suðurlandi. Það er alkunnugt, og hefi ég þá vitneskju m. a. frá einum deildarstjóra tryggingarstofnunarinnar, að slys verða ekki á sigmönnunum sjálfum — slíkt er undantekning —, heldur á lausagöngumönnum, mönnum, sem gera sér leik að því að stikla í björg án þess að binda sig. Það er því algerlega að ófyrirsynju að halda þessu ofurgjaldi á sigmönnunum.

Hv. þm. vildi upplýsa, að hann hefði átt mestan þátt í því að koma hreyfingu á þetta mál og breyta reglugerðinni. Það kann vel að vera, en ég stóð aðeins upp til þess að mótmæla því, sem hann vildi vera láta, að hann einn hefði fengizt við þetta. Áttu þetta kannske að vera sem andmæli gegn hv. 6. þm. Reykv., sem stundum tekur framhjá norður í Ísafirði?

Þá hélt hv. þm. því fram, að nokkur hundruð manna ættu hér hlut að máli, en sagði þó, að hann hefði haft tal af öllum hlutaðeigendum. Tel ég það muni ofmælt vera.