09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3160)

103. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Finnur Jónsson:

Það er ekki mikil ástæða til að fara að ræða ýtarlega um l. um gengisskráningu, er samþ. voru á fyrra hluta þessa þings. En í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Reykv. (EOl) get ég ekki komizt hjá að benda á það, til að mótmæla þeirri miklu réttarskerðingu, er hann taldi verklýðsfélögin hafa orðið fyrir með þessari löggjöf, að það eru aðrar stéttir landsmanna, sem hafa orðið fyrir enn meiri réttarskerðingu en verkamannastéttin, þar sem stranglega er bannað í gengisl. að hækka kaupgjald allra annara en verkamanna. Allir aðrir launþegar hafa þess vegna orðið fyrir miklu meiri réttarskerðingu heldur en verkamenn. Það er því dálítið skrítið, þegar hv. 5. þm. Reykv. reynir að knésetja þm. með stærilæti fyrir það, að þeim hafi ekki verið ljóst, hve mikil réttarskerðing var gerð sérstaklega gagnvart verkalýðsfélögunum með þessum l. Þeim var það vel ljóst, að þessi l. hlutu að hafa allmiklar réttarskerðingar í för með sér, en þær urðu miklu meiri á hendur öðrum launþegum en verkamönnum, og þær sömu fyrir bændur landsins, sem enga hækkun fengu á vörum sínum umfram kauphækkun verkamanna. Þeir verða nú að birgja sig upp til vetrarins með innkaupum á hækkaðri erlendri vöru fyrir afurðir sínar, sem ekki hafa hækkað neitt frá fyrra ári. Þeir, sem áttu að fá kauphækkun samkv. l. um gengisskráningu, voru verkamenn og láglaunafólk, sem hefir minni laun en 300 kr. á mánuði. En þessi aðferð var vitanlega viðhöfð vegna þess, að álitið var, að þeir þyldu síður réttarskerðingu en aðrir launþegar. Það má deila um það, hvað langt var rétt að fara í þessu efni, en með 1. eins og þau voru afgr. frá Alþ. var verkamönnum gefið tækifæri til að fá uppbót móti vaxandi dýrtíð, sem leiddi af gengislækkuninni, eg nokkur viðurkenning á því fólst í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði, að verkalýðsfélögin hefðu verið á móti gengislækkun og að vinnuveitendafélagið hefði einnig verið á móti henni, að því er hann sagði. En hvers vegna var Vinnuveitendafélagið andvígt gengislækkunarlögunum? Var það ekki óánægt með það, að ákveðin kauphækkun væri lögboðin hjá verkamönnum? Ég hjó eftir þessari viðurkenningu hjá hv. 3. þm. Reykv. og þótti vænt um, að hún skyldi koma úr þeirri átt ; hún slær alveg niður gífuryrði hv. 5. þm. Reykv. um þetta. Hann vildi halda því fram, að þingheimi væri ekki vel ljóst, hve mikið brot gengislækkunin væri á öllum mannréttindum. En eins og þeim hafi ekki verið ljóst, að það var skylda þeirra sem þm. að sjá allri þjóðarheildinni borgið. Þeim var það einnig ljóst, að yrði þjóðarheildinni ekki borgið, myndi ekki heldur verkamönnum í landinu verða það. Annars er nógu einkennilegt að heyra þm. Sósíalistafl. tala um réttarskerðingu á kjörum verkamanna sérstaklega. Það er kynlegt, að þessir þm. skuli ganga framhjá hagsmunum allra annara stétta, hagsmunum bænda, hagsmunum húseigenda o. s. frv., því að vitanlegt er, að gengislækkunarl. skerða hagsmuni allra þessara manna, og ekkert síður hagsmuni einnar stéttar en annarar. Vitanlega er ekki heldur lagt út í slíkt, nema almenningur sé þeirrar skoðunar, að þjóðarnauðsyn krefji.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði mikið um það, að verkalýðurinn ætti aðeins einn rétt til þess að lina þrældóm sinn, og það væru verklýðssamtökin. Það er ákaflega gott að heyra það í ræðu hans, en úr því að honum er það ljóst, væri einnig gott, að hann legði niður þann ósið, sem hann hefir haft, að reyna að rífa þau niður til grunna. Síðan hann gekk úr Alþfl. árið 1930 hefir allt starf hans, bæði leynt og ljóst, miðað að því að rífa niður félagssamtök verkalýðsins í landinu. Hann hefir varið allri orku sinni og öllu viti, bæði munnlega og skriflega, leynt og ljóst, til að reyna að rífa þau niður. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar hann er að fárast um, að Alþ. sé að svipta verkalýðinn möguleikum til að lina þrældóm sinn með tilstilli verkalýðssamtakanna. Það er viðurkennt af öllum, að Alþýðusamband Íslands er sverð og skjöldur verkamanna og sjómanna í landinu. En það er líka vitað, að hv. 5. þm. Reykv. hefir gert allt, sem hann hefir getað, til þess að gera starf Alþýðusambands Íslands að engu. Þessari baráttu hans og Kommfl. yfirleitt hefir verið beint gegn félagssamtökum verkamanna. Þess vegna er það vitanlegt, að þessi flokkur og þessir menn hafa engan rétt til að tala um frelsi verkalýðsins. Þeir eru sjálfir á móti því. Enginn hefir gert annað eins og þeir til að halda hinum félagsbundna verkalýð niðri. Og það er ekki nóg með það, að þessi flokkur beiti sér gegn félagssamtökum verkalýðsins, þeim samtökum, sem allir viðurkenna nú, að séu nauðsynleg og sjálfsögð, heldur reynir hann einnig út á við að grafa undan frelsi og sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar. Þessi flokkur og blöð hans hafa reynt að egna stórveldin til skiptis upp á móti okkur fyrir smávægilega hluti. Þar sem þessir menn og þessi flokkur reyna að eyðileggja félagssamtök verkalýðsins inn á við og reyna að grafa undan hlutleysi landsins með allskonar lygum, er þeir síma til erlendra blaða, eiga þeir alls engan rétt til að tala um frelsi landsmanna, hvorki inn á við né út á við. Ég geri ekki ráð fyrir, að hér á Alþ. verði miklu púðri eytt á þennan flokk, sem er sjálfum sér sundurþykkur og er nú að liðast sundur. — Ég taldi rétt að láta þessa getið að gefnu tilefni frá hv. 5. þm. Reykv.