10.11.1939
Neðri deild: 57. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (3173)

107. mál, útsvör

Ísleifur Högnason:

Tilgangur þessa frv. er augljós, eins og hv. þm. Barð. tók fram. Tilgangurinn er hvorki meira né minna en að afnema réttarbætur samvinnufélaga og l. um tekju- og eignarskatt. En afnám beinu skattanna hlýtur að hafa þá afleiðingu, að tekjurnar verða að fást með öðrum leiðum, eða með óbeinum sköttum frá þeim, sem sízt geta borgað þá, sem sé verkamönnum og fátækri alþýðu. Þessi mál hafa áður verið rædd mikið á Alþ. Það hefir verið aðalbaráttumál verkamanna og bænda, að koma því á, að beinir skattar væru auknir, en þeir óbeinu minnkaðir. Þá hafa þeir barizt fyrir umbótum á samvinnulögunum, en ekki afnámi þeirra.

Ég vildi í þessu sambandi benda þm. Framsfl. á það, að þetta gæti verið góð aðvörun fyrir þá um það, hvað fyrir íhaldinu vakir. Ef því líðst að halda áfram á sömu braut sem hingað til, að teyma á eftir sér bæði Framsfl. og Alþfl. í þjóðstjórninni, þá er enginn vafi á því, að það verða sjálfstæðismenn, sem leika á þessa „fulltrúa verkamanna og bænda“, eins og þeir kalla sig. Það væri mjög þarft fyrir þessa hv. þm. að líta í kringum sig, áður en lengra er haldið á þessari braut.

Ég skal svo að lokum lýsa því yfir, að ég mun ekki greiða þessu frv. atkv., ekki einu sinni til 2. umr. og nefndar.