25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3207)

115. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Ég tel, að hv. 4. þm. Reykv. eigi að taka málið upp á öðrum og breiðari grundvelli, að reyna að fá það lögfest, að ríkið styrki byggingarnar í bæjunum. Ef þingið vill fallast á að styrkja skólabyggingar í bæjum, eins og það hefir gert utan bæja, þá tel ég sanngjarnt, að bæirnir öðlist einnig húsaleigustyrk. Ég tel rangt að taka þennan lið út úr í sambandi við þetta litla frv., þar sem vantar grundvöllinn undir málið. Þingið hefir ekki fallizt á að veita bæjunum byggingarstyrk, því sennilega hafa bæjarfulltrúarnir á þingi leitað fyrir sér um það á sínum tíma, en það virðist ekki hafa verið vilji fyrir því.

Það hefir verið sagt, að kostnaðurinn við þetta væri mikill í Rvík. Ég vil nú bæta því við, að ég efast um, að Rvíkurbær þurfi að leigja svo mikið húsnæði fyrir leikfimikennslu barna. Það munu vera 4 leikfimisalir í barnaskólum í bænum, eða eins margir og barnaskólarnir eru, svo ég efast um, að Rvíkurbær sé hagsýnn í þessu efni. Einnig vegna þess, að ég efast um, að svo sé, þá hefi ég ekki ástæðu til að halda, að Rvíkurbær yrði hagsýnni í þessu efni, þó bærinn ætti von á styrk úr ríkissjóði. En aðalástæðan fyrir því, að ég er á móti brtt., er sú, að ekki er gert ráð fyrir því í l., að bæirnir fái byggingarstyrk, og þess vegna álít ég, að eigi að taka málið upp á öðrum grundvelli en þeim, að skjóta því inn í þetta frv.