24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

119. mál, eftirlit með sveitarfélögum

*Ísleifur Högnason:

Enda þótt alllöng og ýtarleg grg. fylgi þessu frv., vildi ég gjarnan fá frekari skýringu á sumu, sem í því stendur. Hæstv. félmrh. hefir raunar minnzt á eitt atriði í ræðu sinni, sem ég vildi fá svar við, og kem ég að því síðar. Upphaf 2. gr. frv. hljóðar þannig: „Félagsmálaráðh. hefir yfirstjórn allra sveitarmálefna í landinu.“ Grg., sem fylgir frv., fjallar aðeins um eftirlitið, og ber það að skilja svo, að sveitar- og bæjarstjórnir í landinu séu að öllu lyti háðar félagsmálaráðun., og ef það er, mætti upphaf 2. gr. gjarnan falla niður. Hingað til hafa sveitar- og bæjarstjórnir haft sjálfsforræði í sínum málum, en samkvæmt þessu virðist eiga að taka það sjálfsforræði af þeim.

Þá kem ég að 31. gr. þessa frv. Í henni eru ákvæði, sem áreiðanlega eru ekki til í gildandi ísl. l. Það segir svo: „Ráðh. getur ákveðið, að setja megi sveitarfélag undir eftirlit, ef það vanrækir fjárhagslegar skuldbindingar sínar, eða ef þess af öðrum sökum þykir þurfa vegna fjárhags sveitarfélagsins eða vegna hagsmuna þeirra, er kröfur eiga á hendur því.“ Mér þætti gaman að vita, hvaða sakir aðrar en fjárhagsöngþveiti gætu komið til greina til að setja mætti sveitar- eða bæjarfélag undir eftirlit. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um þetta, því að orðalagið er hér mjög loðið og óákveðið. Ég sé ekki betur en að sjálfsforræði bæjarfélaganna sé stefnt í voða, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Við 33.–34. gr. frv. hafa norsk l. verið höfð til fyrirmyndar, eins og oft er gert ráð fyrir viðvíkjandi þessu frv. Þó hefir hér verið talsvert vikið frá norskum l. um þetta efni, því að norsk l. mæla svo fyrir, að eftirlitsstjórnir sveitarfélaga séu þannig skipaðar, að konungur skipi einn mann, kröfuhafar einn, og bæjarstjórnin eða sveitarfélagið, sem undir eftirlit er sett. einn mann. En samkv. 34. gr. þessara l. er gert ráð fyrir, að eftirlitsmaður sveitarstjórnarmálefna, er félmrh. skipar, hafi eftirlitið á hendi, og félmrh. geti skipað honum til aðstoðar tvo menn, ef hann telur þess þurfa, svo sem ef um er að ræða stórt bæjar- eða hreppsfélag, eða meiri háttar vandkvæði eru á að leysa fjárhagsmál sveitarfélagsins.

Hvernig er hægt að rökstyðja það, að heppilegra sé, að félmrh. skipi eftirlitsmenn bæjarfélaga heldur en að bæði kröfuhafar og bæjarfélögin sjálf hafi rétt til að kjósa þá? Hvert er sótt fyrirmyndin fyrir því ákvæði, að ráðh. skipi þessa eftirlitsmenn, fyrst einn eftirlitsmann fyrir allt landið, og síðan tvo til aðstoðar í einstökum tilfellum, ef þörf þykir? Ég geri ráð fyrir, að fyrirmyndin fyrir þessu hafi ekki verið sótt til Norðurlanda, heldur beinlínis til fasistaríkjanna.

Þá kem ég að síðasta atriðinu, sem ég fékk upplýst að nokkru leyti með ræðu hæstv. félmrh. áðan. Samkv. 50. gr. frv. er kaupstað eða kauptúni, sem er undir eftirliti, heimilað að leggja vörugjald á vörur þær, sem fluttar eru til og frá kauptúninu. Hér er um nýmæli að ræða, og er þetta ein sú réttlátasta og eðlilegasta fjáröflunarleið samkv. yfirlýsingu hæstv. félmrh., en þó er það einkennilegt, að ekki skuli finnast eðlilegri leið, þar sem hann lýsti því yfir, að löggjöfin um vörugjald væri ekki ýkja réttlát, en þó yrði nú að grípa til hennar. Ég skil það vel, að hæstv. félmrh. reyni að rökstyðja þetta, en hvort allir þm. taka því með jafngóðum vilja sem hann, er annað mál. Ég átti sæti hér á Alþ. þegar lagaheimildin um vörugjald í Vestmannaeyjum var til umr., og þá mæltu þm. Alþfl. á móti þeirri lagaheimild, vegna þess að þetta væri óbeinn skattur, en ekki beinn, og samkv. stefnuskrá Alþfl. væri ekki rétt að láta þá fátæku borga jafnt og þá efnuðu, enda er engin slík heimild í norskum l. Hinsvegar er heimilað í Noregi, að bæta megi allt að 18% við útsvörin. Ennfremur gat ég ekki fundið í norskum 1. fyrirmyndina að því ákvæði, að eftirlitsstjórnum bæjarfélaga sé gefið óskorað vald til að leggja á útsvör eftir eigin geðþótta, og úrskurðarvald um það, hvenær gjalddagar útsvara skuli vera og hve margir. Hvert er sú fyrirmynd sótt? Hve lítið væri og orðið eftir af sjálfsforræði og valdi bæjarstjórnanna í þeim kaupstöðum, sem settir yrðu undir eftirlit samkv. þessum l. Þeir, sem ættu sæti í bæjarstjórn, væru ekkert nema þjónar eftirlitsmannsins. Allt sjálfstæði þeirra yrði þurrkað út, ef þetta frv. nær fram að ganga hér á Alþ.