09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (3237)

125. mál, rafveitulánasjóður

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Í n. varð ekki fullt samkomulag um þetta mál. Að sönnu erum við nm. allir á einu máli um, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir til þess, að raforkunet tengist út um landsbyggðina, og er þetta gamalt flokksmál míns flokks, og var þá ætlazt til, að ríkið tæki að sér nokkurn kostnað við rafveiturnar, bæði að því er snerti undirbúning verksins og á þann hátt, að það styrkti menn til að leggja taugar heim til sín. Nú eru hér á landi komnar þrjár nokkuð stórar rafveitur, Sogsvirkjunin. virkjun Laxárfossa á Akureyri og rafveitan á Ísafirði. Allar hafa þær kostað mikið fé, og hefir fjár til þeirra verið aflað erlendis. Þetta frv. gerir nú ráð fyrir, að aflað verði fjár til nýrra rafveitna með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra, sem fyrir eru í landinu. Ég tók það fram í n., að ég teldi þetta óeðlilegan teknagrundvöll og lagði til, að málið yrði sent bæjarstj. Reykjavíkur, Akureyrar og Ísafjarðar til umsagnar, þeim bæjarfélögum, sem ætlað er að borga í sjóð þennan stórfé, eða um 50 þús. kr. á ári. Þetta var fellt í n. og lagt á það kapp, enda þótt ekki sé venja að ganga framhjá hlutaðeigandi aðilum í svona málam. Nú gerðum við hv. þm. V.-Ísf. þann fyrirvara, að við myndum koma með brtt. við frv., og hafði ég þar aðallega í huga það atriði, er snertir tekjuöflunina. Til þessa hefir aðallega verið aflað fjár til þessara fyrirtækja með lántökum erlendis. Nú hefir farið svo illa, að þó að gengisbreyting hafi orðið erlendis, lækka lánin ekki, og er þetta atriði, sem líklegt myndi þykja, að kallaði á hjálp hins opinbera. En nú á í þess stað að hafa þessar skuldir að tekjustofni hins opinbera. Þetta er auðvitað alger hugsunarvilla.

Ég hefi hugsað nokkuð um, hvernig hægt muni að afla tekna fyrir slíkan sjóð, og hefi ég komizt að þeirri niðurstöðu, að heppilegast myndi að fela hæstv. stj. að láta rannsaka málið, finna hentuga tekjustofna og undirbúa málið að öðru leyti. Ég mun því í stað þess að leggja fram brtt. við þessa umr. bera fram rökstudda dagskrá um að fela stj. undirbúning málsins, en nái hún ekki samþykki, mun ég undirbúa brtt. við frv. fyrir 3. umr.