26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3483)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Bjarni Bjarnason:

Það liggur ekki á að ljúka umr. strax, úr því að hv. þm. vilja meðhöndla þetta mál eins og gert hefir verið hér, og ýmsir þm. munu muna það seinna, að það getur komið sér vel að draga eina till. út úr stóru máli. Þegar við þm. Árn. fluttum till. á þskj. 61, gerðum við það í góðri trú á, að það yrði samþ., af því að málið er í fyrsta lagi mikið nauðsynjamál, og í öðru lagi er það vel undirbúið.

Við þetta mál komu fram margar brtt., og af því að okkur þótti ólíklegt, að hægt væri að sætta alla flm. brtt. við það, að einstakar till. fengjust samþ., gengum við ekki eftir því, að málið væri tekið á dagskrá, heldur vildum við bíða allsherjarlausnar á því. En fyrir fáum dögum er tekin ein af brtt. út úr og lögð fram, en forseti tekur hana strax á dagskrá, án þess að hafa tekið á dagskrá þáltill. á þskj. 61. Ég get sakað mig um að hafa ekki gengið eftir því, og ég geri ráð fyrir, að þeir menn úti á landi, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við þáltill., uni því illa, hve slælega hefir verið staðið í ístaðinu fyrir þá. Svo mikið kapp er í mönnum, að málið fékkst ekki sent n. í gær.

Ég vil a. m. k. taka þetta dæmi til aðvörunar í framtíðinni. En hér er svo stórt mál á ferðinni, sem felur í sér svo miklar byrðar fyrir ríkið, að við flm. hugsuðum okkur, að réttast væri að láta það bíða til næsta þings, en að málið yrði þá í heild tekið fyrir, og ef frv. um raforkuveitur ríkisins gæti orðið að l., yrðu þær veitur svo lagðar smám saman.

Hv. 7. landsk. ámælir mér og meðflm. mínum fyrir að hafa leyft okkur að óska þess, að þessu máli væri vísað til fjvn., og telur hann það tilraun til að eyða málinu. Í næstu setningu segir hann svo, að að sjálfsögðu hefði fjvn. mælt með því nú eins og 1936. Þannig var nú samræmið þar.

Ein höfuðástæðan fyrir þessu máli er, að þingið hefir áður veitt slíka heimild. Það er ekki þýðingarlaust, en samt er leitað nýrrar ábyrgðarheimildar, af því að hin er úr gildi fallin. Ég man ekki til, að árið 1936 lægi fyrir ósk um ríkisábyrgð fyrir annarri veitu en þessari, en nú er auk till. á þskj. 61 kominn fram fjöldi brtt. um heimildir fyrir ýms önnur héruð. Talsmenn þessarar till. halda því fram, að einmitt nú geti Ólafsfjarðarhreppur fengið lán til nýs orkuvers. En þó að málinu hefði verið frestað, hygg ég ekki, að sá lánardrottinn, sem um er að ræða, mundi kippa að sér hendinni. Þessi ástæða er því tylliástæða. Ennfremur hefir það verið borið fram, að mótorinn, sem rafstöðin í Ólafsfirði hefir, væri ónýtur. En það er algengt, að slík tæki bili, og þá verður að gera við þau. Ég geri ekki heldur ráð fyrir, að þetta verk yrði framkvæmt í vor hvort sem er, og að til þess mundi þurfa allt sumarið að minnsta kosti, svo að hvernig sem færi, mundi þurfa að gera við mótorinn.

Mér finnst mjög einkennilegt, að hv. þm. skuli vera svo ákafir um að afgreiða þetta mál, þar sem ein tillaga er þarna tekin út úr stóru máli, sem á sama rétt á afgreiðslu og þessi eina till. Þetta segi ég ekki vegna þess, að ég er þm. fyrir kjördæmi á Suðurlandi, en rafveitan er fyrir pláss á Norðurlandi, heldur finnst mér eðlilegast, að slík mál fái heildarafgreiðslu, sem gildi fyrir framtíðina. Hitt er alrangt og óviðeigandi, að gera einu slíku máli hærra undir höfði en öðrum. Ennfremur er það að segja um þessar framkvæmdir, að sumar eru þannig undirbúnar, að gerð hefir verið um þær kostnaðaráætlun, en aðrar ekki. Það hefir ekkert komið fram um, að þetta mál sé sérlega vel undirbúið, þó að þm. virðist svo ákafir um að láta það ná fram að ganga. Ég vildi óska, að þetta verði ekki fordæmi um það, að önnur mál eigi að ganga fram án rannsókna eða tilrauna til þess að skýra, hvernig slík fyrirtæki mundu bera sig.

Ég vil ennfremur endurtaka það, að slík meðferð á málum hjá hæstv. forseta, að taka þetta mál aldrei á dagskrá fyrr en búið er að draga út úr því einn lítinn þátt, sé einnig mjög óviðeigandi. En það kennir mönnum þá að vera betur á verði, — ég vil ekki segja gagnvart hlutdrægni, heldur vera á verði gagnvart því, að ekki sé beitt misrétti. Vitanlega er það fyllsta misrétti gagnvart þeim, sem flutt hafa þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til að ganga í ábyrgð fyrir rafveitur. Ég er enn ekki vonlaus um, að þetta mál fái þá afgreiðslu, sem við, sem stöndum að beiðnum um heimild fyrir ríkisstj. til ábyrgðar, viljum, svo að við verðum ekki alveg flatir fyrir réttlátum ámælum kjósenda okkar, eins og við í raun og veru erum, ef þessi þáltill. næði fram að ganga. Ef svo verður, þá er ekki hægt að verja sig fyrir þeim ámælum, sem við vitanlega fáum í því sambandi. Það er ekki réttlátt, að þessi þáltill. um ríkisábyrgð fyrir Ólafsfjarðarkauptún nái ein fram að ganga, en hinar liggi allar óafgreiddar.