26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (3500)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Einar Olgeirsson:

Ég gat varla orða bundizt, þegar hv. þm. S.-Þ. fór að segja hv. þingheimi til syndanna með miður sæmilegum orðum og í sérstaklega mjög ósæmilegum tilgangi. Ég sá ekki betur en að það kæmi fram, sem suma menn hefir grunað, að vissir menn gangi með þá hugmynd, að þeir ættu að ráða á þinginu, hvað gera skyldi, og ekki aðeins á þinginu, heldur líka, hvað ríkisstj. gerði. Hv. þm. S.-Þ. lýsti yfir, eins og hann talaði fyrir hönd ríkisstj., að þó að þetta mál yrði samþ., þá mundi ríkisstj. ekki taka mark á því, og rétt áður var þó hæstv. fjmrh. (JakM) búinn að gefa yfirlýsingu um, að hann væri með því, að þessi ábyrgðarheimild yrði veitt. Það var eins og hv. þm. S.-Þ skoðaði sig eins og einskonar yfirráðherra, sem hefði getið stjórnina af sér.

Mér þykir mjög vænt um afstöðu hæstv. fjmrh. í þessu máli, sem mun koma til með að hafa mest um þetta að segja. Ég álít, að þetta ógurlega ofurkapp, sem komið er inn í þetta mál, og kom fram sérstaklega greinilega hjá hv. þm. S.-Þ., stafi í raun og veru alls ekki af því máli, sem hér liggur fyrir. Það var ekkert tilefni gefið í sambandi við þetta mál, sem komið gæti af stað þeim ólátum, sem farið hefir verið út í hér í umr. um þessa þáltill. um ábyrgðarheimild fyrir Ólafsfjörð, þar sem búið er áður á Alþ. (1936) að samþ. samskonar ábyrgðarheimild fyrir þetta sama hreppsfélag, heldur kemur þetta kapp hv. þm. af tilfinningalegum ástæðum, við það, að vissir hv. þm. hafa orðið fyrir vonbrigðum í dag, þar sem þeir hafa ekki fengið að ráða á Alþ. eins og þeir hafa viljað, og að þegar handjárnin losnuðu, þá finnst þeim eins og allt sé að fara norður og niður, og það sé því um að gera að reyna hið skjótasta að smeygja þeim á aftur.

Við þm. vorum sammála um að samþ. 110 þús. kr. ábyrgðarheimild fyrir Sauðárkrókshrepp. En þegar svo á að fara að endurtaka ábyrgðarheimild frá 1936, um að veita Ólafsfirði ríkisábyrgð fyrir um 50 þús. kr. láni, þá er alveg eins og landið sé að farast.

Svo er því lýst yfir af hv. þm. S.-Þ., að sú aðferð hafi verið höfð einhverntíma áður á hæstv. Alþ., að þau kjördæmi, sem ekki voru valdhöfunum sérstaklega þóknanleg, hafi verið ströffuð með neitunum um tilstyrk hins opinbera. Og það lítur út fyrir, að það ætti helzt að beita við Eyjafjarðarkjördæmi sérstaklega þess háttar ströffum framvegis. Ég álít þetta, að beita þess háttar ströffum, mjög óviðeigandi, og að yfirlýsing hv. þm. S.-Þ. gefi miður fagrar hugmyndir um það, hverskonar hrossakaup hafi átt sér stað fyrr á Alþ., en svo segir hann, að nú sé ekki um slíkt að ræða. Þessi hv. þm. sagði, að þessi siður, að straffa á þennan hátt, hefði verið hjá einhverjum valdhöfum hér á hæstv. Alþ., ef ekki hefði verið kosið eins og valdhöfunum þóknaðist. Svo talaði hann um skrípaleik, sem viðhafður sé hér á Alþ. í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir um ábyrgð fyrir Ólafsfjörð, og í sambandi við mál, sem afgr. var í dag, er snerti Siglufjörð. Ef hann ætlar að kalla þær till. skrípaleik, hvað kallar hann þá þá brtt., sem borin var fram hér áðan af nokkrum hv. þm., sem fór fram á ábyrgðarheimildir svo nam millj. kr. í sambandi við raforkuleiðslur frá Sogsvirkjuninni?

Svo leyfir þessi hv. þm. sér að enda ræðu sína, eftir að hafa gefið allar þessar upplýsingar, með því að segja, að það hafi verið hér á hæstv. Alþ. gætileg og réttlát fjármálastjórn milli héraða.

Ég álít það viðeigandi, .að hv. þm. sýni það gagnvart þessari þáltill., þar sem engin hrossakaup komust að á hæstv. Alþ. á því herrans ári 1936, þegar þessi till. var samþ., að farið verði einnig nú eftir málefnum, og samþ. því þáltill., sem fyrir liggur.