03.01.1940
Efri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3580)

172. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Ég skal stytta mál mitt, þar sem mjög er liðið á nótt. Eins og sést í grg. till., var efni hennar borið fram í 2. gr. í frv. til l. um ýmsar ráðstafanir vegna núverandi styrjaldarástands, sem hér var á ferðinni fyrir nokkru. Menn þekkja það kannske undir öðru styttu nafni. Í meðferð þessa máls féll þessi 2. gr. út úr frv., en við flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, hv. 5. landsk. þm. og ég, viljum tæplega una því, að vilji Alþ. — a. m. k. þessarar hv. d. — komi ekki í ljós um þetta efni. Því að við lítum svo á, að með þeirri löggjöf, sem á seinni árum hefir verið sett um atvinnu við siglingar, hafi íslenzkri útgerð, bæði til fiskiveiða og útgerðar flutningaskipa, verið bundinn of hár baggi, og þyngri baggi heldur en tíðkast meðal ýmissa nágrannaþjóða okkar, sem þó eru taldar standa okkur jafnfætis í siglingamálum. Með þessu vil ég þó ekki segja, að minn vilji sé, að dregið verði úr öryggi um stjórn íslenzkra skipa. En það er vitað, að a. m. k. sumstaðar myndi vera hægt að fækka skipstjórnarmönnum án þess að svo væri. Ég vil taka sérstaklega fram, að það, sem olli því, að ég vildi ekki una við þau úrslit, sem urðu um þessa 2. gr. „höggormsins“, var alveg sérstaklega með tilliti til íslenzkra veiðiskipa. Má miklu fremur una við ákvæði laganna að því er farþega- og flutningaskip snertir. Eins og allir vita, hefir útgerðinni verið breytt á síðari árum, þannig að veiðibátar hafa yfirleitt verið stækkaðir, og er því krafizt, að á þeim séu lærðir og dýrir skipstjórnarmenn og vélamenn. Þetta hefir bakað útgerðinni mikil útgjöld og áreiðanlega í mörgum tilfellum óþörf. Ég játa að vísu, að fullrar varúðar þarf að gæta í þessum efnum, en hitt er jafnvíst, að með löggjöf síðustu ára hefir verið gengið of langt í kröfunum á hendur útgerðinni. — Ég gæti farið lengra út í þetta mál og komið með álit kunnugra manna, sem þessum málum eru t. d. a. m. k. eins kunnugir og hv. 2. landsk. þm., og mundi það styðja það, sem ég hefi sagt. En vegna tímasparnaðar ætla ég að sleppa því.