09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Sigurður Kristjánsson:

Ég skal ekki misnota þann tíma, sem hæstv. forseti veitir mér til andsvara, með því að fara að ræða um mismuninn á því, hvernig eigendur einstakra útgerðarfyrirtækja annarsvegar og samvinnufyrirtækja hinsvegar standa að vígi gagnvart skuldaskilunum. Ég skal aðeins segja hæstv. ráðh. það, að mér er kunnugt um, að mikill fjöldi þeirra manna, sem stofnað hafa til útgerðarsamvinnufélaga á ýmsum stöðum, hafa tryggt sér með því atvinnu og talsverða fjárvon, en látið sáralítið af mörkum. En það er aðeins eitt atriði, sem ég vil ekki láta fara óátalið framhjá mér. Mér þykir leiðinlegt, ef hæstv. atvmrh. skilur ekki mismuninn á því, að taka á Alþingi mál til þeirrar meðferðar, sem höfð er við setning sérstakra laga — meðferðar í þrem umræðum og nefnd í hvorri deild — eða hinn, að smeygja málinu inn við 3. umr. fjárlaga í þinglok, — svo seint, að allir eru orðnir leiðir og lúnir á deilum um minni háttar atriði fjárl. og láta atriði sem þetta fara framhjá sér, þó að þeim hefði endranær verið það mjög móti skapi. Það er ekki til betri felustaður fyrir óvinsælt mál en að smeygja því inn í fjárlagafrv. við 3. umr. Það held ég hæstv. ráðh. hljóti að fallast á, og eins hitt, að þetta mál sé nógu þýðingarmikið til að setja um það sérstök lög.

Ég biðst engrar afsökunar fyrir að hafa dregið fleiri atriði inn í umr. en ráðh. þótti þörf á. Þau eiga hér við. Og það verður ekki hrakið, að það er óforsvaranleg afgreiðsla á slíkum málum að gefa þinginu ekki tækifæri til að gagnrýna þau á nokkurn hátt, heldur koma inn með þau við síðustu umr. fjárlaganna.