03.04.1939
Neðri deild: 32. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég kann illa við, að þetta frv. fari í gegnum d. án þess að minnzt sé á það. Hefir það fengið mjög einkennilega afgreiðslu. N., sem átti að hafa það til meðferðar, hefir ekki sagt eitt einasta orð viðvíkjandi því, og hv. þm. yfirleitt virðist engin þörf á að ræða það. Þó er með því vikið frá þeim reglum, sem annars hafa verið hafðar um útvarpsrekstur ríkisins. Fram að þessu hefir þótt viðeigandi, að þeir, sem hlusta á útvarpið og halda því uppi, réðu einhverju um stjórn þess. Hingað til hafa þrír menn af sjö, sem eru í útvarpsráði, verið kosnir af útvarpsnotendum. Þetta er ætlunin að fella burt, og tel ég það illa farið. Ég álít óréttmætt að svipta útvarpsnotendur þeim rétti, sem þeir hafa haft til þess að láta áhrifa sinna gæta í rekstri útvarpsins, með því að gera þetta algerlega að verkefni hinna pólitísku flokka í þinginu. Er hér stefnt að því að gera útvarpið enn miklu pólitískara en það hefir verið og útiloka að vissu leyti áhrif alþýðunnar í landinu frá rekstri þess. Það er vitanlegt, að menn skiptast oft á allt annan hátt í kosningum í útvarpsráð en pólitískum kosningum til Alþ. Og ég álít mjög illa farið, að hér skuli vera farið inn á þá braut, sem er að verða tíðara og tíðara, að minnka hin beinu áhrif kjósendanna í landinu — í þessu tilfelli útvarpsnotenda — og auka áhrif hinna pólitísku flokka eða — eins og það verður í framkvæmdinni — hinna einstöku klíkna, sem brjóta undir sig völdin innan þeirra.

Ennfremur vil ég í sambandi við grg. frv. mótmæla því, að nokkur sérstök ástæða sé til þess frá sjónarmiði sparseminnar að fækka mönnum í útvarpsráði. Þetta munar útvarpið hverfandi litlu. Kosningar í útvarpsráð geta orðið miklu ódýrari en þær voru síðast, því það ollu því ýms mistök, að þær urðu eins kostnaðarsamar og hér er greint. Og hvað launin snertir virðist mér þetta þing ekki vera að sjá svo mikið í slíkt. Það hefir ekki á öðrum sviðum þótt taka að spara, þegar skellt hefir verið á nýjum n., og það mun ekki vera að ræða um slíkt enn, ef flokkarnir hugsa til að bæta við tveimur ráðh. nú. Ég býst því við, að það, sem hér hefir verið sagt um sparnað í þessu sambandi, sé yfirvarp, til þess að reyna að hylja betur það, sem á að gera með þessu. sem sé að minnka áhrif útvarpsnotenda, en tryggja betur áhrif valdhafanna. Í sambandi við þetta sparnaðartal vil ég sérstaklega benda á, að íslenzku ríkisstj. ferst sízt að vera að spara við útvarpið og stofna því þannig í hættu, að dagskráin verði lélegri en ella, þar sem þetta er eitt af þeim fáu útvörpum. sem ekki þarf að borga mikið með. Þvert á móti mun það vera svo, að útvarpið hér ber sig nokkurn veginn og að frekar sé tekið fé frá því til ríkisins óbeint heldur en hitt.

Ég álít, að eigi Alþ. eingöngu að kjósa menn í útvarpsráð, beri frekar að fjölga þeim en fækka, þar sem með því ætti að vera tryggð meiri fjölbreytni í dagskránni. En ég býst við. að það mundi þýða lítið að koma með brtt. í þessa átt, vegna þess að það er nú einu sinni svo komið, að hér í þingsölunum gerist ekkert af því, sem ákveðið er, að fram skuli fara á Alþ. Þingið sjálft er ekki orðið nema einskonar ytra tákn fyrir það, sem ákveðnar klíkur koma sér saman um bak við tjöldin. Ég mun því ekki freista að bera fram brtt. um þetta, þar sem ákveðið mun vera — ekki af Alþ., heldur af hálfu einstakra manna — að þetta eigi fram að ganga. En ég vildi aðeins fylgja frv. úr garði með þessum orðum, til þess að það færi ekki umr.-laust gegnum þingið.