30.03.1939
Neðri deild: 30. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

42. mál, útsvör

*Sigurður E. Hlíðar:

Ég get fellt mig við breyt. hv. allshn. á þskj. 68. Tel ég hana mjög til bóta, enda eru færð sterk rök fyrir réttmæti hennar. En ég sé ekki ástæðu til, að brtt. á þskj. 105 eða l07 nái fram að ganga. Hv. 7. landsk. vildi gera sláandi samanburð máli sínu til stuðnings með því að taka dæmi af Akureyri. Sennilega þekkir hv. þm. vel til atvinnurekstrar manna þar, t. d. í sambandi við síldveiðar á Siglufirði. Menn af Akureyri hafa margir gert út frá Siglufirði, og mun hv. þm. eiga við það. Ég held þó, að hér gæti nokkurs misskilnings, eða a. m. k. er lítil sanngirni fyrir þessum kröfum, ef styðja á þær með slíkum dæmum. Hv. þm. ætti að vera ljóst, hví menn af Akureyri reka alloft atvinnu á Siglufirði. Það er vegna þess aðstöðumunar, sem búið er að skapa milli þessara bæja. Áður fyrr var farið með síldina alla leið til Akureyrar, en nú þykir þetta of löng leið, þegar salta á t. d. lítinn slatta, en setja hitt í bræðslu á öðrum stað. Menn kjósa því að leggja upp á Siglufirði, en þangað er styttra, hvort sem leggja skal síld til söltunar eða í bræðslu. Það er rétt, að á Akureyri eru til nokkrir menn, sem reka slíka atvinnu á Siglufirði 2½–3 mánuði af árinu, og má segja, að sumir þeirra hafi hávaðann af tekjum sínum þennan tíma ársins. En þeir eru þó heimilisfastir á Akureyri, og ef atvinnureksturinn er mikill, þá hafa þeir þar skrifstofuhald allan tímann utan þessara fáu mánaða. auk þess verða þeir að láta vinna á Akureyri mörg störf til undirbúnings atvinnurekstri sínum á Siglufirði.

Það er líka vitanlegt, að Siglufjörður fer engan veginn varhluta af þeim tekjum, sem síldarútvegurinn gefur, þó að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Eins og tekið er fram í áliti n., eru sterk rök fyrir því, að Siglufjörður fái sitt engu að síður. Hann hefir ekki aðeins ríkisverksmiðjurnar, sem borga vel fyrir þau hlunnindi, sem þær njóta, heldur hefir bærinn hag af viðskiptum við allan þann sæg, sem þar er á sumrin, og vitað er, að aðkomnir útgerðarmenn verða að kaupa dýrum dómum söltunarstöðvar, bryggjupláss og allt, sem til atvinnurekstrarins þarf, og verða þannig bænum beint og óbeint til mikils tekjuauka. Það væri því engin sanngirni að raska ákvæðum gildandi laga um útsvarsskyldu þeirra manna.