17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

42. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Eyf., að ég álít, að þetta frv. eigi ekki að ná samþykki þingsins eins og stendur. Ég tel mikla nauðsyn á, að útsvarslögin verði endurskoðuð, og ég efa ekki, að við slíka endurskoðun myndi það koma í ljós, að fleira væri í þeim, sem þyrfti að breyta, en þetta, og mörgu meira að segja frekar.

Annars hygg ég, að það sé svo um flesta smærri báta, sem stunda veiðar fjarri heimili sínu um stundarsakir, og þeir séu yfirleitt ekki krafðir um útsvör á þeim stöðum, sem þeir stunda veiðar frá um stundarsakir. A. m. k. hefi ég aldrei rekizt á, að slík mál hafi komizt alla leið til ríkisskattanefndar. Ég hygg því, að þetta ákvæði snerti þá ekki svo mjög og sé því af þeim ástæðum óþarft að taka það út úr og breyta því nú á þessu þingi.

Ég vil eindregið taka undir það með hv. 1. þm. Eyf., að málinu verði vísað til stj., og samhliða verði samþ. till. til þál. um, að stj. láti endurskoða útsvarslöggjöfina í heild fyrir næsta þing.