21.04.1939
Efri deild: 45. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

42. mál, útsvör

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég hefi ásamt hv. þm. Eyf. (BSt, EÁrna) borið fram brtt. við frv. Undir umr. hér í d. gerði ég fyrirspurn til hv. allshn., hvort hún hefði athugað þann lið lagagr., sem hér er lagt til að breyta, og vildi upplýsa um skilning sinn á útsvarsskyldu söltunarstöðva. Hv. 2. þm. S.-M. svaraði og taldi allshn. ekkert geta sagt um, hvaða skilning hún legði í málið. Hv. 2. landsk. spurði, hvort Siglufjarðarbær hefði notað sér ákvæði til að leggja á söltunarstöðvar á Siglufirði. Eftir því, sem ég hefi fengið upplýst síðan, eru tveir hæstaréttardómar fyrir því, að ekki sé hægt að innheimta útsvar af söltunarstöðvum eftir ákvæðinu, og þó að eitthvað kunni að hafa breytzt síðan, situr við hið sama í þessu atriði. Menn, sem reka aðalatvinnu sína á Siglufirði, hafa sumir tekið upp á því að eiga heima í litlum hreppum og hafa gjarnan samið við hreppsnefndir um að borga í útsvar tiltekna, heldur litla upphæð. Á Siglufirði eða í hverju bæjarfélagi sem væri yrði lagt á þá eins og aðra gjaldþegna. Stóratvinnurekandi, sem hefir mörg hundruð þúsunda í veltunni, mundi aldrei komast af með að greiða minna en 1–2 þús. kr., ef farið er eftir þeim álagningarstiga, sem nota þarf í bæjum.

Ég vildi láta fella þetta frv. eða vísa því til stj. En þeir, sem vildu láta það ganga fram, töldu það réttlætisskyldu, að menn þyrftu aðeins að borga heima í sveit sinni. Hinsvegar töldu þeir sjálfsagt, að Siglufjörður t. d. fengi fullkomna heimild til að leggja útsvar á „lausakaupmenn“. Ég minnti á, að þeir, sem sömdu frv., ganga beinlínis út frá því í grg., að: „að sjálfsögðu greiða og síldarverksmiðjur, fiskimjölsverksmiðjur, fiskverkunarstöðvar og söltunarstöðvar, sem eru einkaeign, útsvör í viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóði“. Brtt., sem við hv. þm. Eyf. berum nú fram, er til þess, að skýrt sé tekið fram, hverjir eigi að borga útsvar.

Ef gengið er inn á að lengja tíma skipa, sem leggja upp afla, úr 4 vikum í 3 mánuði, heimtar réttlætið það, að á móti komi þessi sjálfsagða breyting. Ég vonast til þess, að hún verði samþ., ekki sízt þar sem hún læknar líka augljósa veilu í lögunum.