08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson:

Það var auðheyrt í málafærslu hv. síðasta ræðumanns, að þetta frv. stendur ekki sterkum fótum, sem hann ber fram, enda munu fá frv. hafa komið fram á Alþingi, er mætt hafa jafnalmennri mótstöðu og fyrirlitningu innan svo að segja hvaða stjórnmálaflokks sem er. Enda er það svo. þegar farið er að rekja sögu málsins, að þá kemur í ljós, að þetta frv. er eitt bezta dæmið um þá leiðu spillingu í pólitík hér á landi, sem látið var í veðri vaka, að ætti að uppræta við myndun þjóðstj., en hefir einmitt þrifizt vel í þeim herbúðum, þar sem einstakir ráðh., eins og t. d. þessi, sem ekki er kosinn með vilja síns flokks, og er auk þess ekki þm. nota stöðuna til þess að skara eld að sinni köku, og á ég þar þó einkum og sér í lagi við þennan ráðh. Þeir hafa setið áfram að þeim beinum, sem þeir höfðu fyrir, en reyna svo auk þess að festa sig í sessi, hvað sem líður hagsmunum fólksins, sem þeir eiga að vera fulltrúar fyrir.

L. um verkamannabústaði mættu í upphafi talsverðri andstöðu, einkum sjálfstæðismanna, en Alþfl. bar þau fram, og var ég aðalflm. og hefi jafnan haft manna mest með málið að gera. En þegar l. fengust samþ. með aðstoð Framsfl., var stofnað byggingarfélag hér í Reykjavík. Fyrstu meðlimir þess félags voru aðallega alþýðuflokksmenn. Síðar, er framkvæmdir félagsins tóku að verða vinsælar, þá tóku menn af öllum flokkum að ganga í félagið. Innan félagsins varð enginn reipdráttur um málin. Var byggt fyrir samtals 2 millj. króna, og hefir ekkert tapazt á rekstrinum. Hefir félagið og gætt þess eftir föngum, að menn stæðu í skilum, þó að hlífzt hafi verið við því í lengstu lög að ganga að mönnum. Árið 1938 er enn verið að reyna að fá fé til félagsins, því að fé hafði áður verið tekið nokkuð fyrir sig fram við byggingar á undanförnum árum. Höfðu verið tekin lán, aðallega hjá líftryggingarfélögunum, gegn lágum vöxtum. var gert ráð fyrir, að unnt myndi verða að hefja byggingar á ný þegar á þessu ári.

Hv. síðasti ræðumaður skýrði þannig frá þessu, að í sambandi við þjóðstjórnarmyndunina hefði verið ákveðið, hve miklu fé skyldi verja til bygginganna, og er ekki nema gott um það að segja út af fyrir sig.

Ég skal nú rekja gang málanna að því er snertir félag það, er ég hefi verið formaður fyrir. Það endurtekur umsókn sína um það leyti, sem Magnús Sigurðsson bankastjóri var farinn til útlanda, en fyrir hann hafði þá verið settur Stefán Jóh. Stefánsson, hv. síðasti ræðumaður, sem þá var orðinn ráðherra. Hann frestaði að skýra frá því, hvort félagið fengi byggingarlánið eða ekki. Hefði um það verið að ræða, að breyta þyrfti fyrirkomulagi félagsins, var nægur tími til, þegar vitað var að átti að byggja, að bera fram frumvarp þar um á þessu þingi. Það var ekki gert. Þessi hv. ræðumaður og örfáir aðrir menn, sem höfðu horn í síðu félagsstjórnarinnar, ákváðu að breyta um hana. Ef það tækist, átti allt að heita gott, ef ekki, átti það fyrirkomulag að dæmast ómögulegt, sem ekki hafði áður verið að fundið.

Í gildandi lögum um verkamannabústaði er svo um hnútana búið, að eftirlit er nægilegt. Ekkert samvinnufélag á landinu er háð slíku eftirliti sem þetta. Bæði er til þess ætlazt, að byggingarsjóðurinn hafi eftirlit í kaupstöðunum með byggingarfélögunum þar, og svo er um þetta aðalbyggingarfélag hér búið, að reikningarnir lágu allir fyrir byggingarsjóðsstjórn, auk þess sem sérstakur eftirlitsmaður, Bjarni Benediktsson prófessor, kynnti sér reikninga félagsins, sat aðalfund og aðgætti, hvort íbúðunum væri rétt úthlutað, en þar er farið eftir töluröð félagsmanna.

Ég tel rétt að skýra nokkuð ástæðuna fyrir því, að síðasti ræðumaður vildi koma þessu félagi fyrir kattarnef. Það er ekki af öðru en litilmótlegri hefnigirni. Þegar skiptingin varð í Alþfl. síðastl. vetur, er kunnugt, að mikill hluti verkamanna hér í bænum snerist á móti meiri hl. sambandsstjórnarinnar, og þannig varð það einnig innan byggingarfélagsins. Þetta þurfti ekki að koma. neitt nálægt byggingarmálunum. Menn borga nokkurnveginn það sama til byggingarfélagsins, hvaða stjórnmálaskoðun sem þeir hafa. Fyrir mann með svipuðu hugarfari og síðasti ræðumaður var það fyrir neðan allar hellur, að láta viðgangast, að í félagi, sem stofnað var af Alþfl.-mönnum, væru langflestir á móti þeirri stjórnmálastefnu, sem hann hafði tekið. Móti því átti að koma, að ef þessir menn vildu ekki sætta sig við sjónarmið síðasta ræðumanns, þá átti að svipta þá þeim rétti, sem þeir voru búnir að vinna sér, á sama hátt og þessi hv. ræðum og hans flokksmenn hafa beitt þá atvinnukúgun.

Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, þegar þessi ógeðslegu brbl voru sett. Svo sýndi það sig, að það, sem með þeim átti að nást, náðist ekki, því lögfræðingsvitið hefir brugðizt, þegar þau voru samin. Vil ég skýra það nánar.

Sú breyting, sem gera átti á byggingarfélaginu, var: Að stjórn byggingarfélagsins sé skipuð 5 mönnum ( í stað 3 ), og skal formaður stjórnarinnar skipaður af þeim ráðherra, sem fer með félagsmál, en hina stjórnarnefndarmennina skal kjósa hlutbundinni kosningu af þeim félagsmönnum, sem fullnægja skilyrðum 4. tölul. þessarar greinar, — þ. e. a. s., af þeim félagsmönnum, sem ekki hafa hærri árstekjur en 4–5 þús. kr., eftir barnafjölda þeirra, en það eru þeir menn, sem geta eignazt verkamannabústaði.

Það er ljóst, enda ekki leynt með það farið af þeim, er að lögum þessum stóðu, að þau eru aðeins gerð til þess að koma mér úr stjórninni, en koma að manni af lögfræðingsskrifstofu ræðumanns. En svo þegar stjórnin er á ný kosin eftir hinum breyttu samþykktum félagsins, þá erti allir hinir sömu menn kosnir í stjórnina aftur. Og þar er það, sem fram kemur, að lögfræðingsvitið hefir brostið. Í l. er sem sé aðeins talað um kosningarrétt, en ekki minnzt á kjörgengi.

Þegar brbl. þessi komu út, hafði verið um þau ritað í Alþýðublaðinu og víðar, og var öllum ljóst, við hvað þau áttu. Nokkrar árásargreinar á félagið höfðu verið birtar í Alþýðublaðinu til að undirbúa komu l., þar á meðal sú slúðursaga, að kommúnistar hefðu haldið fund í fundarsal verkamannabústaðanna. En þetta er hreinasta skröksaga, enda hefir þessum sögum verið hrundið af dómstólunum og ummæli Alþýðublaðsins því dauð og ómerk og allar þær forsendur því úr sögunni. Hjá félagsmönnum mættu þessar aðfarir almennri mótstöðu, án tillits til stjórnmálaskoðana þeirra. Aðeins nokkrir menn, sem sérstaklega eru innundir hjá ræðumanni, eða njóta bitlinga hjá honum, munu hafa litið öðrum augum á þetta mál, án þess að farið skuli út í það. En ég veit, að sérstaklega meðal sjálfstæðismanna í byggingarfélaginu var almenn fyrirlitning á þessum lögum.

Þá kom bréf frá hv. síðasta ræðumanni, ekki sem félagsmálaráðh., heldur sem formanni byggingarsjóðsstjórnarinnar í fjarveru Magnúsar Sigurðssonar. Það er dags. 6. júní, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það upp. Það er á þessa leið:

„Á fundi í gær samþykkti stjórn byggingarsjóðs verkamanna að svara lánbeiðnum byggingarfélags alþýðu í Reykjavík á þá leið, að félagið muni geta fengið umbeðið lán til byggingar verkamannabústaða í Reykjavík á þessu ári, allt að kr. 650000.00, að sjálfsögðu að því tilskildu, að félagið hlíti bráðabirgðalögum frá 27. f. m. um breyt. á lögum um verkamannabústaði, nr. 3 9. jan. 1935, og óskar stjórn byggingarsjóðsins, að félagið hafi fyrir 15. þ. m. kosið stjórn í samræmi við .fyrrgreind bráðabirgðalög, til þess að geta fengið lán úr sjóðnum. Þetta tilkynnist yður hér með.“

Það, sem því liggur fyrir, eru brbl. og þetta bréf frá stjórn byggingarsjóðs. Ég þykist vita. að lagasmiðurinn hafi búizt við, að ekki yrði nema um tvennt að ræða í þessu máli. Annaðhvort að menn beygðu sig undir hans vilja og stjórnmálalegu forsjá, eða þeir mundu ekkert fá af þessu láni. Ég vil geta þess, að mér var skýrt frá því af þm. stjórnarflokkanna, a. m. k. þm. úr Sjálfstfl. og Framsfl., að l. höfðu ekki á neinn hátt verið borin undir þá. Lögin voru því eingöngu borin fram af þessum hv. ráðh., án þess að þar stæði á bak við nokkur þingvilji. Er einkennilegt að koma með brbl. um ekki meira mál, meðan Alþingi er frestað. Þegar haldinn var almennur fundur um málið í félaginu, kom þar fram sterk andstaða við þessa íhlutun félagsmálaráðh., þar sem svo var frá félaginu gengið, að engin ástæða var til íhlutunar ríkisstj. frekar en um hvert annað samvinnufélag á landinu væri að ræða. Ef byrja ætti á sömu aðförum við þau eins og þetta félag, mundi fara svo, að ríkisstj. heimtaði að fá að skipa formenn allra samvinnufélaga úr sínum hópi, þar sem ræða má um bæði beinan og óbeinan stuðning, sem samvinnufélögin fá, en út í það skal ég ekki fara hér.

Jafnframt því, sem ákveðið var á fundi byggingarfélagsins að samþykkja almenn mótmæli gegn brbl., var ákveðið að breyta samþykktum félagsins til samræmis við þau, svo að félagið gæti haldið áfram að byggja fyrir menn, og þar með notfæra sér fengna reynslu félagsmanna. Stjórnarkosning fór því næst fram, og voru kosnir allir sömu mennirnir og áður, svo ekki var um að ræða, að skipting manna í stjórnmálaflokka réði þar nokkru um. Hér varð félagið þó raunverulega að brjóta sínar eigin samþykktir, því samkvæmt þeim er ekki hægt að breyta lögum félagsins nema á aðalfundi, en þar sem ekki var hægt að halda áfram starfsemi félagsins nema brbl. væri fylgt, var ályktað, að þar væri um óviðráðanlegar orsakir að ræða og breytingin skyldi því teljast lögleg, þótt hún væri gerð á almennum fundi. Breytingin varð því sú. að 5 manna stjórn skyldi verða í félaginu og formaður skipaður af félagsmálaráðh., en jafnframt því samþykkt mótmæli og skorað á þingið að fella brbl. Voru hinir 4 stjórnarnefndarmenn kosnir af hluttækum félagsmönnum eingöngu.

Þá er það, sem félagsmálaráðh. fer að fetta fingur út í: Að félagið ákveður, að þessar breytingar á samþykktunum, sem gerðar eru á ólöglegum tíma, skuli ekki gilda, ef ekki fáist lán til félagsins eða brbl. falli úr gildi, eða að samþykkt með þessum áorðnu breytingum nái ekki samþykki hlutaðeigandi aðila, sem er fyrst og fremst byggingarsjóður og síðan ráðuneytið. Á þessu byggir svo félagsmálaráðh. mótmæli sín, segir, að þarna sé verið að setja skilyrði. Hvernig á að hugsa sér, að félag, sem er hreint samvinnufélag, en neytt til þess að breyta samþykktum sínum, að það setji þá engin skilyrði til að fyrirbyggja, að það verði svikið af þeim aðilum, sem það á að fá lánið hjá? Og til hvers á að breyta samþykkt, ef það fær ekki lán, staðfesting samþykktanna fæst ekki. eða brbl. verða felld? Meðan þau eru aðeins brbl., eru þau á ábyrgð þess manns, sem gaf þau.

Þá var ákveðið, að stjórn félagsins skuli kjósa á þessum sama fundi. Var ekki nema tæpur mánuður frá því að stjórn hafði verið kosin á aðalfundi á venjulegan hátt. Einnig var samþ., að þar til ný stjórn væri kosin, skyldi gamla stjórnin fara með völd. Skilyrði byggingarsjóðs fyrir láninu voru þau, að stjórnin væri kosin fyrir 13. júní, en fundurinn var haldinn 13. júní, en boða verður fund með 2 daga fyrirvara, svo ekki var hægt samkvæmt samþykktunum að halda fund síðar. Enda varð ekkert til tíðinda á fundinum fyrr en búið er að samþykkja lagabreytinguna, að þá stendur upp Stefán Jóh. Stefánsson, sem mætti þarna sem heilög þrenning, sem félagsmálaráðh., formaður byggingarsjóðs og félagsmaður, og les upp bréf, sem hann hafði fram til þess tíma vandlega hulið. Bréfið var til byggingarfélags alþýðu, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp, — það er ekki langt :

„Ráðuneytið hefir í dag ritað cand. jur. Guðmundi I. Guðmundssyni bréf, svo hljóðandi: „Samkvæmt 2. gr. bráðabirgðalaga frá 27. maí s. l., um breyt. á lögum nr. 3 9. jan. 1935, eruð þér, herra lögfræðingur, skipaður til næstu 3 ára formaður þess byggingarfélags í Reykjavík, er rétt hefir til þess að fá lán úr byggingarsjóði verkamanna til byggingar verkamannabústaða í Reykjavík. Með því að byggingarfélag alþýðu í Reykjavík hefir beðið um lán úr byggingarsjóði verkamanna til byggingar verkamannabústaða hér í bænum á þessu ári og stjórn byggingarsjóðsins hefir tilkynnt þessu félagi, að það muni geta fengið umbeðið lán, að sjálfsögðu að því tilskildu, að félagið hlíti fyrirmælum bráðabirgðalaganna, þá ber yður að snúa yður til byggingarfélags alþýðu, og ef það félag breytir samþykktum sinum í samræmi við bráðabirgðalögin, þá takið þér þegar við formennsku í félaginu og annist um, að félagið kjósi 4 meðstjórnendur yðar í samræmi við gildandi ákvæði laga um verkamannabústaði.“ Þetta tilkynnist byggingarfélaginu hér með.“ Undirskriftirnar eru Stefán Jóh. Stefánsson og Gunnlaugur E. Briem.

Í stuttu máli: Það, sem í þessu bréfi stendur, er, að Guðm. I. Guðmundsson sé skipaður til 3 ára formaður í því félagi, sem hefir rétt til láns úr byggingarsjóði verkamanna. Stefán Jóh. Stefánsson stendur því næst upp og óskar, að Guðmundur I. Guðmundsson, sem kominn var á fundinn, taki þegar við stjórn fundarins og annist kosningu þeirra 4 manna, sem eftir sé að kjósa. Guðmundur þessi komst ekki á löglegan hátt inn á fundinn, þar sem dyravörður við aðaldyrnar neitaði honum um inngöngu, en vegna vinfengi við húsvörðinn í Iðnó komst hann inn um bakdyr á húsinu. Var nú borin upp sú fyrirspurn til félagsmálaráðh., hvort skoða bæri þetta bréf sem staðfestingu þess, að félagið hefði fullnægt skilyrðum byggingarsjóðs og ráðuneytisins til þess, að það fengi lánið, en ef svo var ekki, voru engin lög til fyrir því, að utanfélagsmaður hefði aðgang að fundinum, hvað þá gæti tekið við stjórn á félagi, sem ekki hefði hinn tilskilda rétt. Ef fara átti eftir almennum lögum, virtist það litlu máli skipta, hver hefði fundarstjórn á hendi við kosningu þá, sem eftir var. En þarna sást, hvers vegna félagsmálaráðh. hafði óskað eftir, að Guðm. I. Guðmundsson kæmi inn á fundinn og tæki við stjórn hans. Það var til þess að kveða upp úrskurð, sem fengi staðizt fyrir dómstólunum, en það er aðferð, sem þessir menn hafa oft notað, að kveða upp úrskurði í ýmsum tilfellum, sem þeir geta einhvern veginn varið lagalega séð.

Að þessum fundi loknum er byggingarsjóði tilkynnt, að skilyrði brbl. séu uppfyllt og komin á á manna stjórn og að félagsmálaráðh. hafi tilkynnt, að búið sé að tilnefna formann fyrir félagið, og þar sem búið sé að breyta samþykktum þess hafi það rétt til að fá lán það, sem því hafi verið lofað með þessum skilyrðum.

Þá byrjar ballið aftur, og kemur þá bréf, undirskrifað af Stefáni Jóh. Stefánssyni, sem félagsmálaráðh. að þessu sinni. sem ég vil leyfa mér að lesa, þótt það taki nokkurn tíma. Það er dags. 15. júní og hljóðar svo:

„Ráðuneytið hefir móttekið bréf Byggingarfélags alþýðu, dags. 14. þ. m., ásamt viðauka við samþykktir félagsins, er samþykktur var á fundi þess 13. þ. m., og er farið fram á staðfestingu ráðuneytisins á því, að félagið fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir viðurkenningu byggingarfélaga samkvæmt lögum um verkamannabústaði.

Út af þessu skal eftirfarandi tekið fram: Með bréfi, dags. 13. þ. m., var Byggingarfélaginu tilkynnt, að ráðuneytið hefði skipað lögfræðing Guðmund I. Guðmundsson formann þess byggingarfélags í Reykjavík, er rétt hefði til að fá lán úr byggingarsjóði verkamanna. Jafnframt var tekið fram, að ef Byggingarfélag alþýðu breytti samþykktum sínum í samræmi við brbl. frá 27. maí þ. á tæki hinn stjórnskipaði formaður þegar við formennsku í félaginu og annaðist um, að félagið kysi 4 meðstjórnendur í samræmi við gildandi ákvæði laga um verkamannabústaði. Á téðum fundi Byggingarfélagsins var hinum stjórnskipaða formanni, eftir að samþykktar höfðu verið breytingar á samþykktunum, meinað að taka við formannsstörfum samkvæmt tilnefningu ráðuneytisins, og þar af leiðir að félagið hefir ekki fullnægt skilyrðum þeim um kosningu meðstjórnenda, sem ráðuneytið hefir sett, og verður ráðuneytið því að líta svo á, að stjórnarkosningin, er fram fór á téðum fundi, sé ólögmæt, enda er það brot á almennum reglum, þegar formaður er tilnefndur

Í félagi, að hann taki ekki strax við formennsku og stjórni kosningu meðstjórnenda sinna.

Þá telur ráðuneytið, að ákvæði 4. og 5. gr. í samþykktum þeim, er gerðar voru á fundinum, fái ekki staðizt. Byggingarfélagið verður, et það vill njóta hlunninda laga nr. 3/1933, um verkamannabústaði, að fullnægja að öllu leyti ákvæðum téðra laga og brbl. frá 27. maí s. l., og getur að sjálfsögðu ekki sett nein skilyrði í samþykktir sínar, sem ekki samrímast téðum lögum. Ráðuneytið verður því að telja téð ákvæði 4. og ö. gr. markleysu. Er því rétt að fella gr. þessar úr samþykktinni.

Ennfremur tilkynnist félaginu, að ráðuneytið hefir í dag falið hinum stjórnskipaða formanni þess að boða til fundar á ný í félaginu til þess að kjósa 4 menn í stjórn þess. ásamt honum, svo að félagið geti hafið byggingu verkamannabústaða hér í bænum sem allra fyrst.“

Undirskrifað: Stefán Jóh. Stefánsson og Gunnl. E. Briem.

Þessu bréfi var síðan svarað af hálfu stjórnar byggingarfélagsins á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér höfum móttekið bréf félagsmálaráðuneytisins, dags. 15. þ. m., þar sem sú skoðun er látin í ljós, að stjórnarkosning sú, er fram fór í félagi voru hinn 13. þ. m., hafi verið ólögmæt, af þeirri ástæðu að því er virðist, að kosningunni hafi eigi verið stjórnað af hr. Guðmundi I. Guðmundssyni, sem skipaður hafi verið formaður þess byggingarfélags í Reykjavík, er rétt hefir til að fá lán úr byggingarsjóði verkamanna.

Út af þessari athugasemd ráðuneytisins viljum vér leyfa oss að taka þetta fram:

Á fyrrnefndum fundi í félagi voru voru samþykktar lagabreytingar, er miðuðu að því að færa lögin til samræmis við hin nýsettu bráðabirgðalög um verkamannabústaði frá 27. maí s. l. Samkvæmt 2. gr. hinna nýju samþykkta skyldu 5 menn skipa stjórn félagsins, formaður skipaður af þeim ráðherra, sem fer með félagsmál, en hina stjórnarmennina skal kjósa hlutbundinni kosningu af þeim félagsmönnum, sem fullnægja 1. lið laga nr. 3 9. jan. 1935, um verkamannabústaði. Samkv. 5. gr. samþykktanna skal stjórnin kosin í fyrsta sinn á fundi þeim, sem samþ. lagabreytinguna. Samkv. l. sjálfum var þannig tvímælalaust skylt að láta stjórnarkosningu fara fram á fundinum 13. þ. m. Hinsvegar er það augljóst mál, að enda þótt herra Guðmundur I. Guðmundsson væri mættur á fundi þessum, gat hann þó eigi tekið við formannsstörfum í félaginu, þar sem félag vort uppfyllti eigi skilyrði fyrir áframhaldandi lánveitingum úr byggingarsjóði fyrr en fengin var staðfesting stjórnar byggingarsjóðs á lagabreytingum, en Guðmundur hinsvegar skipaður formaður þess félags, sem rétt hefði til að fá lán úr sjóðnum. Við þetta bætist það, að samkv. sömu gr. (5. gr.) hinna nýju samþykkta á fyrri stjórn félagsins að gegna störfum þangað til staðfesting er fengin á samþykktum. Það hefði því verið tvímælalaust lagabrot, ef Guðmundur hefði þegar á þessum fundi verið látinn taka við formannsstörfum og sjá um stjórnarkosningu. Gerum vér ráð fyrir, að ráðuneytið hljóti, við nánari athug- un, að sjá, að þessi skoðun vor er alveg vafalaust rétt.

Í fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins er vikið að því, að 4. og 5. gr. í hinum nýju samþykktum fái ekki staðizt, að því er virðist af því, að þær samrímist eigi bráðabirgðal. Þessa skoðun ráðuneytisins getum vér með engu móti fallizt á. Bráðabirgðal. frá 27. maí ná einvörðungu til þeirra byggingarfélaga, sem lánsfjár eiga að njóta. Af því leiðir það, að svo framarlega sem oss væri synjað um staðfestingu á samþykktunum eða vér af öðrum ástæðum værum sviptir rétti til lána, erum vér algerlega sjálfráðir um, hvernig vér högum samþykktum vorum, innan þeirra takmarka, sem hin eldri l. setja. Sama gildir og að sjálfsögðu, ef bráðabirgðal. féllu niður. Ef annað af þessu tvennu því ætti sér stað, hlýtur oss að vera heimilt að láta fyrrnefnda breytingu á samþykktum vorum falla úr gildi. Meðan hinsvegar bráðabirgðal. standa í gildi og ef vér fáum rétt til að lána, eru samþykktir vorar, með þeim breytingum, sem á voru gerðar á fundinum 13. júní s. l., í fullu samræmi við ákvæði bráðabirgðalaganna. Vér væntum, að ráðuneytið muni einnig við nánari athugun hljóta að fallast á þessa skoðun vora.“

Það næsta, sem gerist í málinu, er það, að til stjórnar Byggingarfélagsins kemur svolátandi bréf frá Guðm. I. Guðmundssyni 15. þ. m.:

„Félmrn. hefir falið mér að láta fara fram kosningu á fjórum mönnum í stj. Byggingarfélags alþýðu, með því að stjórnarkosning sú, sem fram fór á fundi félagsins þann 13. þ. m., geti ekki talizt 1ögmæt. Til þess að ég geti látið þessa kosningu fara fram og tekið að öðru leyti við stj. félagsins er mér nauðsynlegt að fá nú þegar afhenta meðlimaskrá Byggingarfélags alþýðu, ásamt bókum og skjölum félagsins. Vænti ég, að þér sem fyrrverandi formaður félagsins sjáið yður fært að afhenda mér þessi gögn eigi síðar en á hádegi næstkomandi þriðjudag. Sérstaklega vænti ég þess, að þér tefjið ekki fyrir því, að hægt verði að hefja byggingu nýrra verkamannahústaða hér í bænum, með því að halda fast við neitun yðar s. l. föstudag um að afhenda mér umbeðin skjöl. Verði ekki komið svar við þessari málaleitun minni innan fyrrgreinds tíma, neyðist ég til að líta þannig á, að þér haldið fast við neitun yðar.

Með von um, að þér sýnið fullan skilning á því, að þetta mál verður að ná fram að ganga án frekari tafar.“

Fyrirspurninni var ekki svarað af ráðuneytinu, þannig að það fékkst því ekki staðfest, að hinar nýju samþykktir félagsins væru í samræmi við bráðabirgðal. til þess að G. I. G. gæti tekið þátt í stj. félagsins. Síðan er stj. byggingarsjóðs skrifað af hálfu Byggingarfélags alþýðu og það ámálgað við stj., að hún standi við þau loforð, sem búið var að gefa. Eftir mikinn áróður –og ég veit ekki hve mikinn af hálfu hæstv. félmrh. — kemur loks bréf til Byggingarfélags alþýðu, þar sem segir, að lán fáist ekki vegna ákvæða bráðabirgðal. sem félmrh. setti og líka voru sett til þess, að Guðm. I. Guðmundsson gæti orðið formaður í félagi, sem hann var ekki meðlimur í.

Á meðan hæstv. félmrh. var þm. stóð hann að því, að það væri einn félagsskapur, sem hefði þetta með höndum, og sá, sem starfað hefir að því frá því fyrsta. En nú, þegar á 7. hundrað manns er í félaginu, leggur hann móti þeim og segir, að það séu allt kommúnistar og sá flokkur manna eigi ekki neinn rétt á sér í þjóðfélaginu, nema þeir gangi undir handleiðslu félmrh., Stefáns Jóh. Stefánssonar.

Það er rétt að geta þess, að það var farið laumulega hér um bæinn og smalað mönnum í ákveðnum flokki eða flokksbroti til þess að vera efstu menn á lista. Það tókst með naumindum að fá nógu marga menn með þeim tekjum, að þeir gætu byggt verkamannabústaði. Með þessum mönnum er svo félagsskapurinn stofnaður.

Nú stóð í blöðunum, að byggðar yrðu íbúðir fyrir 70 fjölskyldur.

Þarna er hin ópólitíska (!) hlið þessa félagsskapar, sem hæstv. félmrh. reynir að ná undir sig. Byggingarfélag alþýðu hefir farið í mál við byggingarsjóð út af þessum ráðstöfunum félmrh. en byggingarsjóður hefir lofað þessu nýja sprengifélagi, með ákvæðum hæstv. félmrh., að fá þetta lán.

Ég þykist nú hafa sýnt fram á, að öll þessi starfsemi hæstv. félmrh. hefir ekki gengið út á annað en að eyðileggja þann byggingarfélagsskap, sem hér var í bæ og hefir fengið meðlimum sínum betri og ódýrari íbúðir en áður hefir þekkzt, og til þess svo að stofna annan félagsskap í hans stað, undir hans eigin handleiðslu, þar sem hann einn getur stjórnað og skipað fyrir. Það mætti þá geta þess, hvað mikið gagn geti orðið að þessum ráðstöfunum. Hæstv. félmrh. tók það sérstaklega fram, að byggingarnar væru fluttar úr kvos eða lægð og fluttar á fagran og góðan stað.

En ég vil þá fyrst og fremst taka það fram í sambandi við hinn nýja stað, að lóðin, sem bærinn lofaði gamla byggingarfélaginu, er miklu ódýrari. Gamla byggingarfélagið er búið að læra margt af reynslunni, sem hinir nýju menn hafa ekki haft vit á að hagnýta sér, eða fyrirlíta. Til dæmis skiptingin á milli tveggja og þriggja herbergja íbúða. Sú skipting er í allt öðrum hlutföllum en áður hefir gerzt, þannig að tveggja herbergja íbúðir hafa ekki allar gengið út hjá þessu nýja félagi, þótt þriggja herbergja íbúðir hafi gengið út, vegna þess að tveggja herbergja íbúðir eru tiltölulega dýrari, t. d. inngangur o. fl.

Svo er dráttur ráðh. á þessum málum, sem hefir bakað Reykvíkingum mikið tjón, því Byggingarfélag alþýðu var þegar búið að gera ráðstafanir um efniskaup; það myndi hafa komið í ágúst. En mér er sagt, að það efni, sem nýja byggingarfélagið hefir útvegað, sé útvegað á mjög klaufalegan hátt, og hefir það verið útvegað af mönnum, sem sjaldan eða aldrei hafa fengizt við það áður. Sem dæmi má nefna, að áður kostaði sementstunnan kr. 8.00, en nú kr. 17.90. Járnið kostaði áður kr. 0.28 og nú 0.62, og timbrið eftir því.

Þá geta menn nokkurn veginn farið að reikna út, hvaða fólk það sé, sem geti búið í þessum verkamannabústöðum. Það verða víst ekki menn, sem hafa á milli 4 og á 5 þús. kr. tekjur. Það eru ekki verkamenn hér í bæ. Það er líka farið ákaflega dult með þær áætlanir, sem um þetta eru gerðar. Og það er óhætt að fullyrða, að kostnaðurinn fyrir þessa menn við byggingarnar verður mun meiri en áætlað er. Ég hugsa líka, að það hafi vakað aðallega fyrir þeim húsameisturum. sem séð hafa um byggingarnar, að láta þær líta vel út, heldur en að fólkið, sem fær þær, komist að góðum kjörum. En þetta er samkv. þeirri stefnu, að hagur fólksins er fyrirlitinn, en hugsað um, að hæstv. félmrh. hafi eitthvað til að ráðskast með og flagga með.

Ég ætla svo ekki að fara miklu fleiri orðum um þetta mál. En viðvíkjandi því, sem síðasti ræðumaður talaði um, að það hefði sýnt sig, að eftirlits hefði verið þörf, vegna þess að byggingarfélagið á Akureyri hefði ekki haldið fundi þá vita allir menn, að l. voru ekki sett vegna Akureyrar, heldur vegna byggingarfélagsins í Reykjavík. Hinsvegar er það vitað, að hæstv. félmrh. sem slíkum var heimill aðgangur að byggingarsjóðnum til þess að hafa eftirlit með honum. Ég hygg, að ekki muni hægt fyrir nokkurn þm., sem les í gegn plöggin í þessu máli og kynnir sér allan aðdraganda, að dæma þetta mál nema á einn veg: að það sé ósæmilegt að bera slíkt frv. fram, og að hæstv. félmrh. hafi setzt í ríkisstj. til þess að hnekkja starfsemi ákveðins félagsskapar, sem byggir íbúðir fyrir verkamenn hér í bæ. Hann sviptir hundruð manns því leyfi, sem þeir höfðu fengið til að byggja, en kemur svo á stað byggingum, sem eru ákaflega ópraktískar og dýrar.

Þetta frv. mun ganga til fjhn. Ég skal ekki segja um það, hvort það nær framgangi á Alþingi eða ekki. Ég mun greiða atkvæði á móti því. Og ég væri ekki hræddur við allsherjar atkvgr. um málið.