27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

98. mál, verkamannabústaðir

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Ég vil leyfa mér að rifja hér upp og minna á, að stefna Alþfl. hefir ætið verið sú, að aðeins eitt byggingarfélag skyldi vera starfandi á hverjum stað, en stefna sjálfstæðismanna, að þau mættu vera svo mörg sem vera skyldi. Hv. 3. þm. Reykv. vildi gefa í skyn, að flokkurinn hefði vikið frá þessari stefnu sinni. Í lögum um verkamannabústaði stendur, að byggingarsjóður veiti aðeins lán til eins félags, og er þetta einmitt enn frekar undirstrikað og áréttað í brtt. okkar, með því að þar er alls ekki gert ráð fyrir, að fleiri en eitt félag, er til greina komi, séu á staðnum. Ef félag það, sem hv. þm. ber fyrir brjósti, fellur ekki undir ákvæði laganna, má hann sjálfum sér einum um kenna.