09.03.1939
Efri deild: 14. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

2. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Fjhn. hefir athugað frv. þetta og sömuleiðis samning, dags. 24. jan. þ. á., sem gerður hefir verið á milli Íslands og Danmerkur til þess að komast hjá tvísköttun með tekju- og eignarskatti, sem komið hefir fyrir síðastl. ár. Frv. er fram komið til þess að fullnægja þessum samningi, því að til þess að hann geti notið sín verða ákvæði skattalaga beggja landanna í þessu efni að vera í samræmi, og því verður að fella niður þau orð úr skattalögum okkar, sem talin eru upp í 1. gr. frv.

Það hefir oft komið illa á, að menn hafa verið skattlagðir í báðum löndunum, og því hefir þótt óumflýjanlegt að samræma skattalöggjöf beggja landanna, svo að slíkt komi ekki fyrir. Að ég hefi tekið þetta fram, er sökum þess, að mér virðist það ekki orðað nægilega ljóst í grg. frv., hver hinn raunverulegi tilgangur þess sé, en á því má enginn vafi vera.

Legg ég svo til fyrir hönd fjhn., að frv. verði samþykkt.