27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

Skúli Guðmundsson:

Á Alþingi 1938 voru samþ. l., sem heimiluðu stj. að takast á hendur f. h. ríkissjóðs ábyrgð á láni til hitaveitu Reykjavíkur, að upphæð 6.3 millj. kr., ef ég man rétt. 12. ágúst s. l. hefir svo stj. gefið út bráðabirgðalög um hitaveitu Reykjavíkur, þar sem m. a. er fram tekið, að stj. sé heimilt að ábyrgjast f. h. ríkissjóðs lán til bæjarstjórnar Reykjavíkur til þess að framkvæma lagningu hitaveitu, allt að 8½ millj. ísl. kr., eða jafngildi þeirrar upphæðar í erlendri mynt. M. ö. o., þar er um að ræða rúmlega 2 millj. kr. hækkun á þessari ábyrgðarupphæð frá því, sem samþ. var á þingi 1938.

Nú hefir þetta mál verið lagt fyrir þingið í frumvarpsformi, og hefir það nú hlotið afgreiðslu í Ed., og hefir þessi ábyrgðarupphæð nú enn verið hækkuð stórkostlega, þar sem hún er nú samkv. 8. gr. þessa frv. orðin 9 millj. danskra kr., eða jafngildi þeirrar upphæðar í annari mynt, en eins og menn vita, þá mun þessi upphæð eftir núverandi peningagengi nema 11¼ millj. ísl. kr. Er það hér um bil 80% hækkun á þeirri upphæð, sem Alþingi samþ. að ábyrgjast fyrir 1½ ári síðan.

Þó að hér sé um svona stórt mál að ræða, hefir ekki orðið ágreiningur um það á Alþingi. Allir gera sér vonir um, að hér sé um að ræða gott fyrirtæki, fyrst og fremst fyrir höfuðstað landsins, sem vert sé að styðja. En í sambandi við mál eins og þetta er ekki úr vegi að rifja upp, að nú að undanförnu hefir mikið verið rætt og ritað um þá miklu fólksfjölgun, sem orðið hefir í kaupstöðum landsins, sérstaklega í Reykjavík, á kostnað annara landshluta. Hafa margir á það bent með réttu, að þessi straumur. sem verið hefir úr dreifbýlinu til kaupstaðanna, er ekki hollur. Hefir verið mikið um þetta talað og gert margt til að reyna að stemma stigu fyrir þessum straum, en við verðum að gera okkur ljóst, að ráðstafanir af hálfu löggjafar- og fjárveitingavaldsins eins og þær, sem hér er um að ræða, verða auðvitað alltaf til þess að örva þennan straum til kaupstaðanna. Það er eðlilegt, að fólkið leiti þangað, sem lífsþægindin eru mest; það er mannlegt og eðlilegt. Því er það, að eitt það allra sjálfsagðasta, sem þarf að gera til þess að vinna gegn fólksstraumnum úr dreifbýlinu, er að reyna að skapa einnig þar góð lífsskilyrði og þægindi, sem eru eitthvað í líkingu við það, sem kaupstaðirnir hafa að bjóða. Ég hefi því leyft mér að bera fram lítilsháttar brtt. við þetta frv., á þskj. 611. Ég vil geta þess strax, að í till. er prentvilla. Þar stendur, að brtt. sé við 18. gr., en á að vera 8. gr. Vil ég biðja hv. þm. að leiðrétta þetta. Þessi brtt. mín er um það, að við ákvæðin um heimild til að ábyrgjast lán fyrir hitaveituna bætist, að hitaveitunni sé skylt að greiða ríkissjóði þóknun, sem nemur ½% af ábyrgðarupphæðinni á hverjum tíma, og skuli verja þeirri upphæð til rafvirkjana eða hitaveituframkvæmda annarstaðar á landinu.

Þetta er, að því er ég hygg, stærsta ábyrgðarheimild í einu lagi, sem ríkið hefir tekið á sig. Þegar það er athugað, held ég, að allir hljóti að verða sammála um, að þessi þóknun, sem hér er farið fram á, að hitaveitan greiði fyrir ábyrgð ríkisins, er lítilfjörleg samanborið við þau miklu fríðindi, sem bænum eru hér veitt umfram það, sem aðrir staðir hafa möguleika til að fá að svo stöddu.

Ég tel ekki nema sjálfsagt, ef þessi till. verður samþ. um þessa lítilfjörlegu þóknun, þá verði það fé notað til þess að greiða fyrir hliðstæðum framkvæmdum annarstaðar á landinu.

Ég get reyndar búizt við, að einhver hreyfi þeirri mótbáru, að hitaveitan geti ekki tekið á sig þessi útgjöld, hún muni ekki þola það. En ef þessi mótbára kynni að koma fram, vil ég benda á, að hún getur ekki staðizt. Því hefir verið haldið fram, og ég vona með réttu, að hér sé um mjög glæsilegt fyrirtæki að ræða. En ef það er byggt á svo veikri undirstöðu, að þetta gjald hafi nokkra raunverulega þýðingu fyrir fyrirtækið, þá tel ég, að ekki hafi verið og ekki sé verjandi fyrir Íslendinga að ráðast í þessar framkvæmdir og binda lánstraust bæjar og ríkis á þennan hátt, sem gert verður með samþykkt þessa frv. Slík mótbára getur því ekki staðizt með nokkru móti, að hér sé verið að íþyngja hitaveitunni svo mikið, að hún fái ekki undir risið. Ég hefði talið eðlilegast, að hv. þm. Reykv. hefðu að fyrra bragði borið fram till. um einhverja slíka lítilsháttar þóknun til ríkisins fyrir þá stórkostlegu hjálp, sem bænum er veitt með slíkri ábyrgð, þar sem vitað er, að ekki er hægt fyrir bæinn að hrinda þessu máli í framkvæmd án þess að fá þessa aðstoð ríkisins. En þar sem ekki hefir bólað á slíkri till. við 3. umr. málsins í síðari d., þá hefi ég orðið til þess að bera þessa brtt. fram og vona, að hv. þm. Reykv., ekki síður en aðrir hv. þdm., fallist á, að þessi till. sé sanngjörn, og samþ. hana.