27.12.1939
Neðri deild: 94. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

97. mál, hitaveita Reykjavíkur

*Skúli Guðmundsson:

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að í næstsíðustu málsgr. 7. gr. frv. segir: „Komi til þess, að veðhafi eða nýr eigandi taki fyrirtækið í sínar hendur, geta þeir rekið það með sama rétti sem bæjarstjórnin hafði, og getur hvorki bæjarstjórnin né önnur stjórnarvöld torveldað reksturinn á nokkurn hátt, og má þá ekki heldur leggja á hann nokkurt afgjald eða skatta, hvorki beint né óbeint.“ Nú vona ég, að það komi aldrei til, að fyrirtækið lendi í vanskilum, en ég vil aðeins benda á þetta, að þar sem það er sérstaklega tekið fram, að ef veðhafi eða nýr eigandi taki við rekstri fyrirtækisins, þá megi ekki leggja á það nein gjöld, en ekkert tekið fram um það að öðru leyti, að ekki megi leggja gjöld á hitaveitu Reykjavíkur, þá tel ég, að þetta sé til þess að styrkja mína skoðun á því, að það sé ekkert því til fyrirstöðu, að Reykjavíkurbær sé krafinn um þetta smávægilega gjald.