11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

79. mál, mæðuveikin

Bernharð Stefánsson:

Ég vildi aðeins beina

því til landbn., hvort hún vildi ekki fyrir 3. umr. taka 2. gr. þessa frv. til athugunar. Það er auðvitað alveg réttmætt þar, sem einhver önnur skæð fjárpest en mæðiveikin gerir mikinn skaða á fé bænda, að fella þá niður þetta 10 aura gjald. En í frv. eins og það liggur fyrir er aðeins talað um að heimila slíkt þar, sem garnaveikin hefir valdið tjóni. Ég vildi nú mælast til þess, að n. tæki það til athugunar, hvort ekki væri réttara að orða þetta svo, að heimilt væri að fella niður 10 aura gjaldið þar, sem garnaveikin eða einhver önnur skæð fjárpest hefði valdið tjóni. Þetta er náttúrlega ekki stórvægilegt atriði, það skal ég játa, en mér virðist það nú ekki heldur vera stórvægilegt atriði, að þessu 10 aura gjaldi verði haldið áfram í l., því að það eru nú víst ekki orðnar margar sýslur landsins, sem greiða það. Ég veit ekki nákvæmlega sem stendur, hve miklar tekjur eru af þessu 10 aura gjaldi, en ég hefi samt grun um, að það sé nú ekki orðin ýkjastór upphæð, og ekki líkur til þess að svo verði.