11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

42. mál, húsaleiga

*Magnús Jónsson:

Þetta er ekki alveg ókunnur gestur, sem hér er á ferð. Hér í Reykjavík voru um áratug húsaleigul., og þessi l. eru nokkuð svipuð þeim. Ég verð að segja, að mig langar ekki mikið í þennan gest aftur, hann var ekki svo vinsæll eða gagnlegur. Þá var, eins og alltaf undir haftafargani, sagt, að ef l. væru afnumin, myndi komast óskaplegt rót á þjóðfélagið, menn myndu standa eftir á götunni húsnæðislausir í stórhópum, — og svo, þegar l. voru afnumin, gerðist bókstaflega ekkert. Ég veit að vísu, að það er að sumu leyti góður tilgangur með þessum 1., en samt tel ég ekki, að setja ætti þessi þvingunarl. fremur en önnur, fyrr en eitthvað það er komið í ljós, sem nauðsynlegt er að koma í veg fyrir. Og mér sýnist sem þessi 1. séu jafnvel talsvert víðtækari en gömlu l. Þessi l. eiga við hverskonar húsnæði, en gömlu l. voru þó aldrei nema um íbúðir, þau náðu ekki til húsnæðis fyrir skrifstofur og verzlun. Þar var aðeins ákveðið, að ekki mætti breyta íbúðarhúsnæði og gera það að öðru, sem var undanþegið l. Nú sýnist mér sem þetta eigi að ná til hvers kyns húsnæðis. Og þar sem gömlu l. unnu á móti sjálfum sér með því að hindra menn í því að reisa hús til íbúðar, með þeim höftum, sem voru á slíkum húsum, skilst mér, að þessi l. eigi alveg að koma í veg fyrir það, að nokkur hús verði reist, því að enginn er svo heimskur að leggja fé í það eina í þjóðfélaginu, sem ekki má taka þátt í þeim verðbreytingum, sem gerast. Og þó að nú sé ekki útlit þannig, að líklegt sé, að mikið verði reist af húsum, hvort sem er, þá koma þeir tímar, og ef til vill nokkuð fljótt, að húsagerð hlýtur að aukast, en þá er með l. séð fyrir því, að ekki verði bætt úr þeirri þörf, sem er á stöðugt auknu húsnæði. Það er talið, að 200 íbúðir þurfi að koma til árlega hér í bæ til þess að fullnægja eðlilegri aukningu húsnæðisþarfarinnar, og ég veit ekki, hvar á að hola þessu fólki niður, eftir að búið er að sjá svo vel fyrir því með l., að þessari þörf verði ekki fullnægt.

Með frv. er sá lofsverði tilgangur, að sjá um það, að húsaleiga hækki ekki. En hví á húsaleiga ekki að hækka eins og allt annað, ef verðgildi peninganna lækkar, ef menn fá almennt hærri laun fyrir vinnu sína o. s. frv.? Hví ætti húsnæðið eitt að vera undantekið? Ég sé ekki, að það geti talizt eðlileg ráðstöfun að þvinga húsaleiguna niður. Og þm. verða líka, að gera sér ljóst, að um leið og þeir eru að verja menn fyrir of hárri húsaleigu, eru þeir líka að verja þá fyrir því að geta nokkursstaðar fengið inni, því að þessi l. greiða alls ekki fyrir því.

Þetta voru aðeins almenn viðvörunarorð gagnvart l. þeim, sem hér eru á siglingu, en annars fer ég ekki fleiri almennum orðum um þetta.

Hv. allshn. hefir séð nokkra galla á 1. gr. frv. og gert nokkrar undantekningar við hana. Það er eins og hæstv. félmrh. hafi ekki dottið í hug, að nauðsynlegt geti verið að hækka leigu vegna verðhækkunar á eldsneyti, aukins viðhaldskostnaðar, vaxta- og skattahækkunar o. s. frv. Ég tek hér dæmi, sem ég hefi áður nefnt í viðræðum við menn. Hugsum okkur menn, sem lifa beinlínis af því að leigja hús. Slíkt eru oft rosknir menn, sem lagt hafa fé sitt í húseignir í staðinn fyrir að koma því fyrir í banka, og það af mjög skynsamlegum ástæðum. Þeir vilja eiga eignir, sem ekki fylgjast með falli peninganna, en halda sér í samræmi við þær verðbreytingar, sem í landinu eiga sér stað. Þeir ætla að koma í veg fyrir það, að þeir standi uppi í ellinni með fallna og verðlitla peninga. Hvað eiga þessir menn nú að gera? Þetta eru einu mennirnir á landinu, sem ekki fá neinskonar dýrtíðaruppbót, og svo á að koma í veg fyrir, að leigan verði hækkuð. Mér finnst þetta ekki ná nokkurri átt. Ég veit ekki, hvað þessir menn hafa gert fyrir sér, ef þjóðfélagið á að refsa þeim fyrir það að hafa lagt eignir sínar í hús. Það má vel vera, að ekki sé nægilega tryggður réttur leigutaka, en séu þessi lög á annað borð sett, kemur það greinilega í ljós, hvað þau að sumu leyti koma ósanngjarnlega niður. Í 2. gr. er samhljóða ákvæði og í gömlu l., að ekki má segja mönnum upp nema vegna vanskila á leigunni eða ef leigutaki gerist samningsrofi. Mér finnst alveg óafsakanlegt, ef þetta ákvæði yrði haft í l.; samkvæmt því gæti maður, sem leigði íbúð, alls ekki losnað við leigjendur sína. Leigutaka væri nóg að borga sína leigu, standa við alla samninga, og þá væri honum heimilt að dvelja svo lengi í húsnæðinu sem honum þóknaðist. Leigusali gæti aldrei sagt honum að fara úr íbúðinni vegna framkomu hans. Maður, sem leigir húsnæði og vill hafa frið á sínu heimili, verður sjálfur að flytja úr húsinu. Ég veit ekki, hvort það væri talið til samningsrofa, ef menn væru með hávaða allar nætur, sem truflaði svefnfrið annara íbúa hússins. Ég býst við, að fólk kærði sig lítið um slíka leigjendur, en samkv. þessu frv. væru húseigendur bundnir í báða skó og mættu ekki segja upp húsnæðinu eingöngu af þessum sökum.

Ég held, að mikið mætti bæta úr þessu með því að gefa húsaleigun. úrskurðarvald í þessum efnum. Húseigendur gætu komið til hennar með umkvartanir sínar, og það yrði svo á hennar valdi, hvort hún tæki þær til greina eða ekki. En það er hart fyrir menn, ef þeir í fyrsta lagi mega ekki taka aukna húsaleigu, sem fylgir þá ekki lengur auknu verðlagi í landinu, og í öðru lagi eru þeir svo neyddir til að hafa áfram leigjendur, ef húsaleigan aðeins er greidd, hversu illa sem þeir að öðru leyti haga sér.

Ég sé, að hv. allshn. hefir einnig komið með brtt. um það, hvernig þessi n. skuli skipuð. Ég verð að játa, að ég legg ekki mikið upp úr því, þó að einn af fulltrúunum, sem eiga sæti í þessari n., sé frá Fasteignaeigendafélagi Reykjavíkur. Þó að hann eigi að gæta hagsmuna þeirra aðila, sem hann er fulltrúi fyrir, er þessu skorinn svo þröngur stakkur í l., að hann getur ekki komið fram réttmætum kröfum sínum. Þá skil ég ekki, hvers vegna er réttlátt að þetta nái aðeins til Reykjavíkur. Það segir einhverstaðar í grg., að húsaleiga muni vafalaust hækka, ef ekki verða gerðar einhverjar ráðstafanir til að hindra það. Hvers vegna má þá ekki framkvæma það eins utan Reykjavíkur? Svo er víst til ætlazt, að fasteignamatsnefndir framkvæmi húsaleigulögin utan Rvíkur, en hægt er að fara nærri um, hvernig sú framkvæmd muni verða. Það væri miklu nær að setja húsaleigunefndir í öllum stærri kaupstöðum, sem sæju um framkvæmd l. En hér er ekki um að ræða neitt einsdæmi. Það er ekki óvanalegt, að l., sem sett eru fyrir allt landið, séu aðeins framkvæmd í Rvík einni. En auðvitað mega aðrir staðir hrósa happi, ef þeir geta losað sig við húsaleigunefndir, þar sem má ganga út frá, að þær verði bara til ills. Enda er auðséð, að l. eru sett eingöngu til þess að láta menn brjóta þau, og þarf ekki annað en samkomulag milli aðila til þess. Maður, sem væri í vandræðum með að fá húsnæði, myndi gjarnan borga hærri leigu, og á þó ekki á hættu að vera kærður. Vitanlega er mjög auðvelt fyrir einstaklinga að koma sér saman um að brjóta þessi l. án þess að þurfa að gjalda fyrir það. Menn geta farið í kringum þau, ef menn vilja. En sem sagt, aðalatriðið eru þó sjálf 1., því hversu mikla löngun sem menn hafa til að hrjóta þau, verða þeir þó að fara eftir þeim vegna yfirvofandi ákæru um lögbrot. Eins og ég hefi sagt hér áður, verða þau til að draga úr vilja manna til að byggja sér hús, sérstaklega í Reykjavík.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Ég býst við, að búið sé að tryggja þessu frv. greiðan framgang nú, en þar sem það mun verða athugað á næstu árum, vildi ég láta þessi orð fylgja þessum l. úr garði.