12.03.1940
Efri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

42. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég hafði kvatt mér hljóðs. áður en umr. var frestað síðast, og hugsaði mér að svara hv. 1. þm. Reykv. (MJ) nokkrum orðum, en mál mitt þarf ekki að verða langt. Það kom í ljós, þegar hann stóð upp, að hér á Alþingi eru til menn, sem eru andvígir því, að sett séu lög til að hindra takmarkalausa hækkun húsaleigu. Hann kom fram sem fulltrúi þeirra húseigenda, er fyrst og fremst vilja hafa það fyrir atvinnu að eiga hús til að leigja þau. Það mun koma í ljós við atkvgr., hvort þessi hv. þm. talar aðeins fyrir munn nokkurra af kjósendum sínum hér í bæ eða fyrir hönd alls Sjálfstfl. Þm. leit á málið bæði frá siðferðislegu og þjóðfélagslegu sjónarmiði. Hann hélt fram þeirri siðferðislegu skoðun, að ekki væri nema sjálfsagt og rétt, að menn fengju aðstöðu til að ná stríðsgróða af því að leigja út húsnæði, rétt eins og menn ná stríðsgróða í öðrum atvinnugreinum, að því ætti að stuðla, fremur en að fyrirbyggja það. Um þetta þýðir ekki að ræða við hann. Hann um það, ef hann hefir þessa siðferðislegu skoðun. Aðalatriðið er aftur á móti þjóðfélagslega hliðin. Hann vildi koma hér fram sem fulltrúi „liberalismans“ og Lagði út af því, að hér ættu ekki að vera nein höft á viðskiptum, hvorki þessum né öðrum. Hæstv. félmrh. (StJSt) orðaði þetta svo, að þm. væri fulltrúi hins skefjalausa „liberalisma“. Þetta er ekki rétt. Hv. þm. var með því, að kaup væri bundið með lögum og þannig, að það yrði eins lágt og hann treysti sér frekast til að komast. Hann er ekki fremur fulltrúi „skefjalauss liberalisma“ en fulltrúar yfirstéttar eru vanir að vera nú á tímum. Menn greinast ekki í flokka eftir afstöðu sinni til „liberalismans“, heldur afstöðu sinni til stétta þjóðfélagsins. „Hinn skefjalausi liberalismi“ stjórnar ekki framar skoðunum yfirstéttarfulltrúanna, heldur hin skefjalausa stéttarpólitík þeirra. Hin þjóðfélagslega hlið málsins er í rauninni sú, að nú er talið hagkvæmast fyrir þá, sem lifa af því að leigja húsnæði, að engar hömlur séu á leiguhækkunum, en hömlur á sumu öðru, einkum kaupgjaldi, m. ö. o., að leigan geti hækkað upp úr öllu valdi á verðbólgutímum, sem nú er búizt við. Þetta er skiljanleg gróðalöngun. En skammsýni er þar með. Hv. þm. (MJ) gerði ráð fyrir, að af auknum gróða húseigenda leiddi auknar húsbyggingar, aukna atvinnu, aukið og bætt húsnæði. Sei, sei, sei. Það er samt hætt við, að áhrifin yrðu önnur. Hús mundu öll stórhækka í verði. En þegar verðlag færi að komast í samt lag aftur og í kreppu þeirri, sem hlýtur að koma eftir stríðið, mundi öllum þorra húseigenda verða því erfiðara að þola verðfallið sem verðhækkunin hefði orðið meiri. Er það þá virkilega rétt séð af hv. þm. sem fulltrúa húseigenda að vilja engar hömlur, engin húsaleigulög? Borgar það sig nema fyrir ríkustu húseigendurna og skefjalausa kapítalistiska braskara? Og í öðru lagi: Mundi verðhækkunin leiða til þess, að mikið yrði byggt? Gæfi hún almenningi atvinnu og húsnæði? Nei, það yrði ekki afleiðingin. Af þeirri gífurlegu kauplækkun, sem stafar af lögfestingu kaups langt fyrir neðan eðlilega kauphæð, miðaða við dýrtíð, leiðir stöðugt minnkandi kaupgetu meðal almennings. Það þýðir það, að fjöldi af íbúum Reykjavíkur getur ekki greitt fyrir húsnæði, — þeim verður það algerlega ómögulegt. Er svo undir slíkum kringumstæðum álitlegt, að flutt sé inn mikið af byggingarefni og byggð stór leiguhús? Það verður áreiðanlega alls ekki gert, hvort sem húsaleigan verður látin vera frjáls eða bundin með lögum. Það verður lítið eða ekkert byggt, meðan það ástand helzt, sem nú er og skapazt hefir af styrjöldinni. Þess vegna er það ekki annað en blekking, þegar þessi hv. þm. segir, að það eitt nægi, að hafa húsaleiguna frjálsa, til að tryggja, að áframhaldandi verði byggt bæði hér í Reykjavík og annarstaðar á landinu. Til þess þurfti annað að gera. Það þurfti að búa sig undir ástandið, sem nú er að skapast, meðal annars með því, að ríkisvaldið sæi um, að byggt hefði verið eins mikið og mögulegt var áður en styrjöldin hófst, og að gerð hefði verið alvara úr því að rannsaka, hve mikið er hægt að byggja úr íslenzku efni. Þetta er vandamál, sem skilyrðislaust er nauðsynlegt, að tekið sé af stjórnarvöldunum til rækilegrar yfirvegunar, nefnil. hvað hægt sé að gera til þess, að allur sá fjöldi, sem kemur til með að skorta húsnæði, af því að ekkert verður byggt, geti fengið þak yfir höfuðið.

Þá er það annað atriði, hvað nauðsynlegt er að gera til þess að tryggja hagsmuni húseigenda, fyrst og fremst hinna smærri húseigenda, sem í raun og veru þurfa þess með. Það er fjöldinn allur af fátækum mönnum í Reykjavík, sem eiga einhverjar húseignir, sem þeir hafa lagt allt sitt í að eignast, og falla niður í örbirgð, ef þeir missa þær, og verða enn ein byrðin á fátækraframfærinu. Til þess að þessir menn missi ekki þessar húseignir sínar, verður eitthvað að gera, en það er hætta, sem yfir vofir, vegna þess hve margir koma til með að geta ekki greitt húsaleigu vegna styrjaldarástandsins. Það er þetta vandamál, sem ég hefi reynt að ráða bót á með frv. því, sem ég hefi flutt hér í hv. d. um húsnæði. Sama er að segja um þær brtt., sem ég hefi lagt fram við þetta frv., sem eru sama efnis og aðalatriði húsnæðisfrv. þess, er ég ber fram. Ef hv. þm. er það áhugamál, að eitthvað verði gert til þess að tryggja hagsmuni húseigenda, þá geta þeir stuðlað að því með því að samþ., að þessar till. nái fram að ganga.

Hv. félmrh. þarf ég ekki að svara. En ræða hans var svo skemmtileg, að ég get ekki stillt mig um að minnast aðeins lítillega á hana. Hann sagði, að það kæmi ekki málinu við, hvort meiri hluti alþýðusambandsstj. væri skipaður húseigendum eða leigjendum, leigusölum eða leigutökum. Þetta skipti engu máli vegna þess, að alþýðusambandsstjórnin myndi undir öllum kringumstæðum velja leigutaka í n. Það er einkennileg röksemdafærsla þetta. Það mætti spyrja hæstv. félmrh., hvort ekki væri eins einfalt að láta fasteignaeigendafélagið útnefna fulltrúa fyrir leigutaka úr þeirra hóp. Það er eiginlega alveg sama, hvort fasteignaeigendafélagið fjallar um þetta mál eða alþýðusambandsstjórnin, eftir hans röksemdafærslu gegn því, sem ég sagði, að það væri ekki réttur aðili, vegna þess að það væri pólitískur flokkur. Hann sagði, að Alþýðusambandið myndi áreiðanlega gæta hagsmuna leigutakanna og því hefði ég rangt fyrir mér. Hafa menn heyrt aðra eins röksemdafærslu: Alþýðusambandið gætir hagsmuna leigjendanna, vegna þess að það gætir áreiðanlega hagsmuna leigjendanna? Hæstv. félmrh. gæti eins vel sagt: „Ég er ekki lélegur ráðh., vegna þess að ég er áreiðanlega góður ráðh.“ Það er ömurlegt að þurfa að hlusta á annað eins bull hér hv. d. og sennilega ekki rétt að eyða tíma þingsins í að endurtaka það, en mér fannst það svo skemmtilegt, að ég gat ekki stillt mig um að minnast á það.