15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

42. mál, húsaleiga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þegar samskonar brtt. var hér á ferðinni við þetta frv. eins og sú, sem felst í till. á þskj. 453, þá lét ég þau orð falla, að ég gæti að engu leyti mælt gegn því, að slík breyt. næði fram að ganga, en benti jafnframt á það, að störf húsaleigunefndar, sem skipuð var á síðasta ári, hefðu reynzt vel, en húsaleigunefnd er nú skipuð með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. eins og það lítur út, þegar það kemur aftur frá Nd. Af þessari ástæðu get ég fyrir mitt leyti vel við það unað, að sú breyt. verði á frv. gerð, sem gerð var í Nd. Ég vil þess vegna taka undir það með meiri hl. n., að ég tel óþarft að taka upp þessa breyt., sem fyrir liggur á þskj. 453, aftur. En út af orðum hv. 11. landsk. um það, að mikið væri undir því komið, að ekki skapaðist tortryggni í garð húsaleigunefndar, þá vil ég segja það, að ég held, að allir hafi verið ánægðir með hennar starf, jafnt húseigendur sem leigjendur. Það hefir enginn styrr staðið um þessa n., og ég tel ekki ástæðu til að ætla, að það verði framvegis frekar en hingað til.