11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

40. mál, alþýðutryggingar

*Magnús Jónsson:

Hv. frsm. staðfesti það, sem ég sagði, að brtt. mín og hv. þm. S.-Þ. skapaði enga hættu fyrir lífeyrissjóðinn, eða myndaði nokkra grundvallarreglu, þó að hún yrði samþ. Það, sem hann aðallega hafði á móti till., var það, að fleiri færu að sækja um þetta. Ja, það er nú svo, að það er aldrei hægt að komast fyrir það, að menn beri fram sanngjarnar kröfur. Annars vil ég segja hv. þm. það, að það eru fleiri stofnanir en bankarnir, sem hafa einkasjóði til þess að létta undir með starfsfólki sínu. Þannig hefir t. d. Eimskipafélag Íslands mikinn lífeyrissjóð fyrir starfsfólk sitt, en munurinn er sá, að félagið borgar öll iðgjöldin sjálft, starfsmennirnir fá trygginguna þannig ókeypis, en bankarnir greiða ekki nema nokkurn hluta á móti starfsmönnunum, eða svo, að starfsmennirnir greiða ekki nema 3%, en það er hið sama og embættismenn greiða í lífeyrissjóð sinn, og það þótti rétt að undanþiggja þá frá því að greiða í lífeyrissjóð alþýðutrygginganna.