15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

8. mál, jarðhiti

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég get verið sammála samnefndarmanni mínum, hv. 11. landsk., um það, að í jarðhitanum muni vera fólgnir margir og lítt rannsakaðir möguleikar og að um notkun hans verði síðar að setja mjög ýtarlega löggjöf. Vel geta komið í ljós verðmæt jarðefni í sambandi við jarðhitann, og lít ég svo á, að frv. taki einnig til þeirra, þó að síðar kunni að þurfa að bæta einhverju við af þessum ástæðum. En ekki get ég fallizt á það með honum, að frv. sé svo ófullkomið, að það eigi ekki að ganga fram í þeim búningi, sem það hefir fengið. Þegar nýmæli eru lögleidd, má alltaf gera ráð fyrir, að þau standi til bóta með reynslu, sem fæst á þeim í framkvæmdinni smátt og smátt. Það er nú í 3. eða 4. sinn sem málið er flutt á Alþingi, og alltaf hefir það verið rætt nokkuð, þó að það hafi ekki komizt eins langt og það er komið að þessu sinni. Frv. hefir tekið nokkrum breyt. í meðferðinni. Ég ætla raunar, að þær séu frekar til hins lakara, en þær sýna þó, að menn með mismunandi sjónarmið eru búnir að grannskoða frv. og leggja sitt til málanna, þar sem þeir hafa fundið eitthvað, sem þeim þótti athugavert. Ég tel, að felld hafi verið niður ýmis gagnleg ákvæði. Og brtt. hv. 11. landsk. tel ég til spillis á sama hátt. Mér finnst það ósamrýmanlegt, að tala um, að frv. sé áfátt og að mikið vanti í það, en leggja það eitt til, sem dregur úr frv. og gerir það, a. m. k. frá mínu sjónarmiði, sýnu ófullkomnara en er. Brtt. er, eins og hv. þdm. er kunnugt, um að veita forkaupsrétt að jarðhita þeim aðilum, sem löggjafinn hefir ekki viljað veita forkaupsrétt að jarðeignum. Ég skil ekki, hvers vegna nú á að brjóta löghelgaða venju um forkaupsrétt almennt og smeygja þessu inn í frv. Mér þætti miklu nær sanni, að einhverjir af þeim, sem hafa forkaupsrétt á jörðum, hefðu hann ekki á jarðhita. Hv. 11. landsk. studdi brtt. sína við það, að í 4. gr. er svo fyrir mælt, að meðeigandi að jarðhita geti eignazt einskonar forkaupsrétt, ef hann vill hagnýta sinn hluta af orkunni, en hinn ekki. Skal hann þá annaðhvort fá orkuna keypta eða tekna á leigu eftir mati, þó þannig, að sá, sem orkuna lætur, hafi eftir nægilegt til bús- og heimilisþarfa. Þetta er nauðsynlegt til þess, að meðeigandi geti ekki hindrað hagnýting jarðhita. Ákvæðið er bundið sínum sérstaka tilgangi og getur aldrei gefið neitt almennt fordæmi fyrir brtt. eins og þeirri á þskj. 422. Hv. þm. benti á vatnalögin, og mér skildist hann setja þessa löggjöf jafnhliða þeim. Má vera, að það sé fyllilega réttmætt. Ég veit, að þau lög fengu mikinn undirbúning. Það var meira að segja send nefnd til annara landa til athugana og rannsókna. Ég vil ekki beinlínis leggja til, að það verði gert nú. Það er nokkuð löng leið til að sækja reynslu um hagnýting jarðhita og löggjöf um hana, og að sama skapi hæpið, hversu sú langsótta löggjöf hentaði íslenzkum háttum. Ef við erum sammála um að setja löggjöf um þessi efni, verðum við að setja hana saman með allri okkar skammsýni og vankunnáttu og bæta um hana á síðan, jafnóðum og föng eru á. Hv. þm. tók það fram, að hér eru mikil verðmæti í húfi. Það er einmitt knýjandi ástæða til að geyma ekki að setja lögin, þangað til allt er orðið margfalt erfiðara viðureignar. — Ég er á móti brtt. á þskj. 422 og mæli eindregið með því, að frv. verði samþ. óbreytt.