01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Þetta frv. hefir nú legið alllengi fyrir landbn. En n. hefir orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. Hinsvegar eru dálítið skiptar skoðanir í n. um einstök atriði þess. En frv. þetta, sem hér liggur fyrir, er breyt. á l. um eignarnámsheimild á nokkrum löndum, bæði í Hafnarfirði, Garðahreppi og Krísuvík í Grindavíkurhreppi. Það er borið fram af hv. flm. vegna þess, að hann lítur þannig á, að það hafi ekki verið nógu skýrt ákveðið um það í l. frá 1936, á hvern hátt Hafnarfjarðarkaupstaður skyldi fá Krísuvík og Nýjabæ til umráða. Hæstv. landbrh. telur, að l. veiti ekki heimild til þess að afhenda eða selja Hafnarfjarðarbæ þessar eignir, heldur einungis til að leigja þær. En hv. flm. ber fram þetta frv. til þess að fá skýrt úr því skorið, að þessi lönd þarna með gögnum og gæðum, sem þeim fylgja, sem eru í fyrsta lagi mikill jarðhiti, skuli seld Hafnarfjarðarbæ samkv. mati, sem fram hefir farið.

Ég hygg, að enginn ágreiningur sé um það í landbn., að Hafnarfjarðarkaupstaður eigi að fá það land, sem þarna er um að ræða. En hinsvegar líta sumir hv. nm. svo á, að það orki meira tvímælis, hvort rétt sé, að Hafnarfjarðarkaupstaður fái allan þann jarðhita, sem þarna kann að vera til staðar. Og þeir nm., sem svo líta á málið, álíta, að það sé nægilegt fyrir Hafnarfjörð að fá þann jarðhita, sem hann hefir þörf fyrir til sinnar starfrækslu, en að ríkið eigi að eiga þennan jarðhita að öðru leyti. Þó hefir ekki enn verið borin fram brtt. um þetta atriði, en það kann að verða gert við 3. umr. málsins. Hinsvegar leggur n. til, að við þessa umr. verði frv. samþ. óbreytt.