03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

47. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum o. fl.

*Emil Jónsson:

Ég vil þakka frsm. og landbn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Ennfremur vil ég vænta þess, að ef samþ. verður till. á þskj. 328, þá megi vænta þess, að um framkvæmd hennar verði haft samráð við Hafnarfjarðarkaupstað, því ég ætla, að ef fylgt væri þeirri ströngustu orðanna hljóðan, sem felst í till., þá mætti útfæra hana allharkalega. En ég vænti þess, að ekkert slíkt liggi hér á bak við. Mér er ekki kunnugt um, hvort samskonar fyrirmæli eru í hliðstæðum l. þessum, en ég hygg, að það muni vera fágætt, að tekinn sé af eigendum landa rétturinn til að ráða fyrirkomulagi ræktunarinnar á þeirra eigin löndum. En ég fyrir mitt leyti vil í trausti þess, að samkomulag náist við Búnaðarfélag Íslands, og í samræmi við það, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði hugsað sér að leita um þetta atriði til Búnaðarfélags Íslands, fallast á, að greiða þessari till. atkv. Auðvitað kemur það ekki til mála, að Búnaðarfélag Íslands hafi ætlað sér að hafa áhrif á það, hverjir fengju þessi lönd. Slíkt væri vissulega fjarstæða, en ég vil óska þess, vegna þess hve óskýrt orðalag till. er, að flm. taki það fram, að það væri ekkert slíkt, sem átt er við með þessari till. Ég skal játa, að mér finnst þetta dálítið óvenjulegt, að taka þennan rétt af eigendum lands og fá hann í hendur Búnaðarfélagi Íslands, en til þess að stofna málinu ekki í hættu, vil ég ekki setja mig upp á móti því, að þessi till. verði samþ.