22.04.1940
Neðri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

46. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Snemma á þessu þingi var borið fram af hálfu sjálfstæðismanna frv. um breyt. á gjaldeyrisverzlun. Í því frv. var farið fram á talsverðar breyt. á skipun gjaldeyrisnefndar frá því, sem verið hefir. Ennfremur kom fram till. um nýtt orðalag á þeim reglum, sem n. skuli starfa eftir.

Þetta mál hefir nú verið lengi í fjhn. Ed., og hefir verið mikið að því unnið. Málið hefir verið ágreiningsmál á milli stjórnarflokkanna, og gátu menn ekki orðið á eitt sáttir um að afgr. það eins og það lá fyrir. Nú liggur frv. fyrir Nd. eins og stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að afgr. það frá þessu þingi eftir ýtarlegar umr. sín á milli.

Eins og frv. liggur nú fyrir er gert ráð fyrir að skipa þriggja manna n., sem hafi það með höndum að skipta innflutningsleyfunum. N. skal þannig skipuð, að S.Í.S. tilnefnir einn mann, Verzlunarráðið einn og ríkisstj. einn. Þessi lausn er gerð með það fyrir augum, að aðalágreiningurinn hefir lengi verið um það, hvernig skuli skipta innflutningnum milli innflytjenda. Þykir sanngjarnt, að nýir aðilar komi þar til og reyni til þrautar, hvernig þeim tekst að skipta honum niður. Ég hefi litið svo á, að ekki sé hægt að fá mikla breyt. þar á, en ég hefi og Framsfl. gengið inn á það, sem hér er gert, til samkomulags, og það munu hinir einnig hafa gert. Þá hefir orðið samkomulag um að flytja í Sþ. þáltill. um að skipa þriggja manna n. til þess að rannsaka skipulag þessara mála, og starfi hún milli þinga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið.