22.04.1940
Efri deild: 44. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég flutti brtt. við þetta frv., þegar það var á ferðinni hér í þessari hv. d., sem fór í líka átt og breyt. Nd. á frv. En þá stóð ég nú einn uppi með þá brtt. hér í d. Nú hefir farið svo, að meiri hl. hv. Nd. hefir fallizt á mína skoðun. Enda er það nú svo, eins og ástandið er nú, að þá virðist það ennþá meiri fjarstæða að fara að setja l. um verðlagsuppbót, sem ná til svo hárra tekna eins og þar er gert ráð fyrir, þ. e. a. s. tekna, sem eru hvað háar sem vera skal.

Það hefir réttilega komið fram gagnrýni á þetta ákvæði, eins og það kemur frá hv. Nd. Og ég held, að það væri nú rétt að breyta því. En hinsvegar álít ég ekki ná nokkurri átt, sem kemur fram í rökstuðningi hv. fjhn., að það eigi að fella þetta ákvæði niður vegna þess, að það þarf að vera öðruvísi. Heldur þarf að laga það. Og þegar ég flutti till. mína hér, þegar frv. var hér áður til umr., var þetta allt öðruvísi. Þar var það ekki 8 þús. kr. tekjur, sem um var talað, heldur 8 þús. kr. laun. Og í öðru lagi var þá gert ráð fyrir, að það mætti aldrei greiða hærri verðlagsuppbót heldur en svo, að launin yrðu samtals 8 þús. kr. Og þannig held ég, að eigi að ganga frá því. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. til þess að færa þetta í sama horf eins og ég ætlaðist til upprunalega. Og í því formi er ekki hægt að segja neitt við frv. hvað þetta atriði snertir frá sjónarmiði þeirrar gagnrýni, sem kom fram frá hv. fjhn. Ég er ekki búinn að skrifa brtt. ennþá, en vildi biðja hæstv. forseta að hinkra aðeins við, þar til ég er búinn að skrifa hana.