22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Herra forseti! Ég vil aðeins vekja athygli hv. d. á því, að ef till. undir tölul. 1 yrði samþ., þá er vafasamt um örlög frv., því að þá yrði það að fara í Sþ. Það virðist vera allrótgróinn ágreiningur milli d. um þetta mál. Ágreiningurinn liggur í því, eins og menn munu hafa veitt athygli, hvort telja beri þetta uppbætur eða nauðþurftarstyrk. Ed. virðist vera nokkuð eindregin í því að framfylgja þeim grundvelli, sem frv. var upphaflega lagt fram á.

Um síðari till. hefi ég það að segja, að ég er meðmæltur því, að hún verði samþ. Ég tel, að þeir hv. þm., sem yrðu að láta sér lynda, að þeir yrðu undir í þessu máli, fengju nokkra réttingu sinna mála með því að fela ríkisstj., ef nauðsyn krefðist þess, að draga úr dýrtíðaruppbótinni, ef það reyndist ógerlegt fyrir ríkissjóð að standa undir þeim byrðum, ásamt öðrum byrðum, sem á honum hvíla. Ég tel, að ef sú till. verður samþ., þá beri að skilja hana þannig, að ríkisstj. hafi heimild til að lækka mismunandi mikið dýrtíðaruppbótina og breyta henni meir í það horf, að gera hana að nauðsynlegri hjálp frekar en uppbót á laun manna, eins og frv. upphaflega fór fram á og það nú stefnir að. Það væri fullkomlega réttlátt, ef það væri talið ríkisvaldinu um megn að greiða alla dýrtíðaruppbótina.

Ég mæli því með, að till. undir 2. tölul. verði samþ.