23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Jón Pálmason:

Það kann að vera, að ekki þýði mikið að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, því að það er þegar allmikið rætt í báðum d. og nú síðast í gær í Nd. En ég verð að segja það, að mig undrar á því, að fram skyldi koma till. um það að fella niður það hámark, sem þar var samþ. Því hefir verið slegið fram af nokkrum þm., og nú síðast af hv. 1. þm. Reykv., að því hefði verið slegið föstu með reglugerðinni, að verðlagsuppbótin til starfsmanna ríkisins skyldi lúta sömu lögum og verðlagsuppbót á annað kaup. Um þetta er það að segja, að þegar ákveðið var, að um það skyldi gefa út sérstaka reglugerð, var þar með ákveðið, að þetta skyldi ekki hlíta sömu lögum. Menn muna það ef til vill, að í sambandi við þessa brtt. flutti ég brtt. um 5000 króna hámark, en það var fellt með yfirgnæfandi meiri hl. Nú hefir verið reynt að koma inn í frv. nokkru hærra hámarki, fyrst 7800 krónum og svo 8000 krónum. Og ég verð að segja, að það er furðulegt að sjá það og vita til þess, að það skuli vera um það jafnmikið kapp og hér kemur fram, að koma því á, að það sé veitt dýrtíðaruppbót á laun allra opinberra starfsmanna, hvað há laun sem þeir hafa. Það eru engin takmörk fyrir því, hvað há laun menn megi hafa. Það eiga allir að fá uppbót samkv. till. Ed. Ég hefi leitt að því mjög sterkar líkur við meðferð málsins í Nd., að þetta hámark, sem hér er sett, muni ríkissjóðinn um ca. 175 þúsund krónur á þessu ári eftir horfunum, sem fyrir liggja. Á árinu 1941 stendur dæmið þannig, að á fjárlögum eru ekki ætlaðar nema 350000 kr. til þessarar verðlagsuppbótar, en þessi upphæð er ekki hærri en svo, að ef ekki verður horfið að því að nota niðurskurðarheimildina, þá hrekkur hún skammt. Á fjárlögum þessa árs er ekki ætlaður einn einasti eyrir til þessara útgjalda. Hv. 1. flm. þessarar brtt. hélt því fram, að það væru öfgar að fara fram á að setja þetta hámark, og að það væru öfgar að fara fram á, eins og samþ. var í Nd. í gær, að gefa stj. heimild til þess að lækka eða fella uppbótina niður. En án þess að fara langt út í að tala um það, hvort hér sé um öfgar að ræða, þá verð ég þó að telja, að þótt margar öfgar hafi átt sér stað á undanförnum árum í fjármálum þjóðarinnar, þá sé það þó tiltölulega fátt, sem komist í námunda við það, að heimtað er, að allir opinberir starfsmenn fái verðlagsuppbót af 7800 kr. launum. Að athuguðu núverandi ástandi og horfum tel ég það blátt áfram til óvirðingar fyrir Alþ. að skiljast svo við þetta mál að fella það, að haft sé hér nokkurt hámark í þessu efni.