01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

16. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Það kom þarna þm., sem ég hélt, að væri genginn út, og fagna ég yfir því. Þetta er að nokkru leyti rétt, sem hann sagði, en þó ekki að öllu leyti. Nál. greinir, að hverjum stað, sem till. hafi komið fram um, hafi n. reynt að gera úrlausn. Tók ég sem dæmi um úrlausn n. 2 till., en þær eru ekki teknar upp sérstaklega í brtt. hennar. Það er brtt. á þskj. 52, frá hv. þm. Árn., þar sem svo er ástatt um, að búið er að vissu leyti að fullnægja þeim óskum. En um till. á þskj. 27, frá hv þm. Dal., er það að segja, að það er rétt, að vegamálastjóri hefir enga skrifl. umsögn gefið um hana. Býst ég við, að hann hefði gert það, ef honum hefði þótt sérstök ástæða til. Ég hefi í dag, í sambandi við það, að hv. flm. þessarar till. átti tal við mig um hana, rætt þetta við vegamálastjóra.

Álit hans um þennan veg er í stuttu máli það, eins og um margar aðrar till., sem hér liggja fyrir, en n. hefir ekki tekið upp, að ekki sé að svo stöddu rík ástæða til að taka þennan veg í tölu þjóðvega. Þetta er innansveitarvegur, sem að vísu liggur til löggilts verzlunarstaðar, en þar er svo ástatt, eins og í svo mörgum öðrum stöðum á landinu, að skipað er upp vörum og afhent ull til töku þar. Telur vegamálastjóri, að þarna sé ekki verzlun árið um kring, heldur aðeins nokkrar vikur á ári hverju, og sé því ekki fært að skoða þetta sem kauptún. Vitanlega má um það deila í öllum héruðum frá sjónarmiði þeirra, sem þar eiga hlut að máli, hversu nauðsynlegt sé að fá þennan eða hinn veg, en ég held, að hv. þm. ætti að geta sætt sig við að bíða með þessa till., ekki aðeins til 3. umr., heldur eins og ég fer fram á, að hann og aðrir féllu frá þeim till., sem n. hefir ekki mælt með, og undir öllum kringumstæðum er það æskilegt, að ekki komi til atkv. við þessa umr. aðrar till. en þær, sem n. hefir tekið upp, því að hinar eru þannig vaxnar, að það þyrfti væntanlega að orða þær upp. Þess vegna vil ég vegna forseta ítreka það — þó að erfitt sé að tala við þá, sem eru ekki nærstaddir, um að taka till. sínar aftur — að nú verði gengið til atkv. um till. n., af formlegum ástæðum, en aðrar till. teknar aftur til 3. umr.