01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

16. mál, vegalög

*Þorsteinn Briem:

Það er aðeins aths. Hv. frsm. hefir nú viðurkennt það, sem ég benti á í upphafi máls míns, að ekki sé alveg rétt frá skýrt í nál., og ætla ég, þrátt fyrir orð hv. frsm., að þessi ónákvæmni sé vegna þess, að brtt. mín hafi ekki komið til athugunar í n.

Hv. frsm. ber vegamálastjóra fyrir því, að þetta sé innansveitarvegur. Ég vil enn benda á að svo er ekki að öllu leyti, með því að það er alltítt, að menn fari á bílum til Salthólmavíkur til þess að fá flutning á sjó yfir Gilsfjörð. Ennfremur vill hv. frsm. gera lítið úr því, að þarna sé verzlunarstaður, heldur sé aðeins tekið þarna á móti ull á vorin og búð opin stöku sinnum. En þarna er sláturhús og verzlun opin, ekki eingöngu um sumartímann, heldur einnig vikulega yfir veturinn, einu sinni a. m. k. og stundum tvisvar í viku. Þetta er að vísu ekki kauptún, heldur er þar annar háttur, sem er ekki lakari, en hann er sá, að jörðinni hefir verið skipt milli margra ábúenda, og þar er a. m. k. einn iðnaðarmaður. Held ég því, að þarna sé heppilegt fyrirkomulag, þar sem öllum er tryggður aðgangur að jarðnæði.