23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

16. mál, vegalög

*Magnús Gíslason:

Ég greiddi atkv. með þessu frv. eins og það fór hér frá þessari hv. d. Og enda þótt ég telji, að hér sé mjög stórt spor stigið í þá átt að auka útgjöld ríkissjóðs við vegalagningar hér á landi, og kannske þannig, að ekki liggi alveg nauðsyn fyrir hendi um alla þessa vegi, þá taldi ég þó, að með þeim gr., sem bætt var við, 2. og 3. gr., um að 1/3 kostnaðar skyldi greiddur af héruðum, og með því bráðabirgðaákvæði, sem sett var í frv. um, að viðhald þeirra vega, er bættust við tölu þjóðvega eftir frv. þessu, skyldi árin 1940 og 1941 kostað af viðkomandi héruðum, mundi verða dregið mikið úr þeim útgjöldum, sem ríkið fengi af l. þessum á næstu árum, ef að l. yrði. Útgjöld ríkissjóðs vegna vega eru nú þegar það mikil, að ef haldið verður vegum við eins og verið hefir, þá get ég ekki skilið annað en að þau mundu verða yfir 1 millj. kr. með þeim aukna kostnaði, sem leiðir af hækkuðu kaupgjaldi og verðhækkun á benzíni. Þess vegna ætla ég, að það sé ógætilega farið fyrir hönd ríkissjóðs að taka á hann svo mikinn kostnað, án þess að eitthvað komi á móti frá þeim héruðum, sem hlut eiga að máli. Hefi ég því viljað sætta mig við, að frv. gangi fram með því móti, að það væri í því formi, sem það hafði, er það fór héðan frá hv. d.