18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Forseti (JörB):

Ég hefi þráfaldlega ítrekað við n., að þær skiluðu áliti um mál, er vísað er til þeirra, og látið í ljós, að það væri þingsins að segja til um það, hvernig afgreiðslu málin skyldu fá. Það á ekki að geta verið á valdi n. að eyða málum með því að láta þau ekki koma aftur fyrir þd.

Viðvíkjandi máli því, er hv. 2. þm. Árn. gat um, er það að segja, að ég hefi einnig rætt við hv. n. um að fá skjóta afgreiðslu á málinu. Eins og hann tók fram, virtist ekki vera ágreiningur um málið innan n. Ég veit enga ástæðu, hví málið hefir ekki verið afgr., og mun ég því, áður en langir tímar líða, taka málið á dagskrá, ef n. fæst ekki til að afgreiða það.

Viðvíkjandi tilmælum hv. 5. þm. Reykv. vil ég endurtaka það, að ætlazt er til, að hv. þd. úrskurði um afgreiðslu mála, en ekki n., nema þegar svo stendur á, að komið er að þinglokum og ekki vinnst tími til afgreiðslu þeirra, en um hvorugt þessara mála er því til að dreifa.