18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. frsm. minntist mín í sambandi við þetta mál, og minnti mig á, að bankarnir hefðu sínar tekjur af skuldum. „Veit ég það, Sveinki“. En það er sá munur á þeim tekjum og tekjuöflunarleið þessa frv., að öll lántökugjöld eru ákveðin fyrirfram. Svo er ekki í þessu frv., heldur er hér ætlazt til þess að leggja á ábyrgðargjald eftir á á þau lán, sem búið er að veita.

Þetta mál varðar ekki eingöngu ríkisvaldið. sem leyfir sér þetta, heldur líka hina, sem veitt hafa þessi lán ettir föstum útreikningi.

Auk ábyrgðargjalda og lántökugjalda hafa bankarnir vaxtatekjur. Þeir vextir eru á flestum lánum raunverulega. En þá gengur eitt yfir alla, sem samskonar lán hafa. En hér er því heldur ekki fullnægt, heldur á samkv. þessu frv. að leggja ábyrgðargjald á þá eina, sem hafa fengið ríkisábyrgð fyrir rafvirkjun; en hinum öllum á að sleppa. Ef ríkið ætlar að fara inn á þá braut, að selja sína ábyrgð, þá fæ ég ekki annað séð heldur en að það eigi að koma jafnt niður á öllum, sem njóta ábyrgðar ríkisins. Þetta eru auðvitað hugsanlegir tekjumöguleikar fyrir ríkið sjálft eða einhvern sjóð. En ef ríkið tekur ábyrgðargjald, þá á það að taka það af öllum, sem ábyrgð fá.

Ég hygg vafamál, hvort á að fara inn á þá braut, að taka ábyrgðargjald. En fari ríkið inn á þá braut, virðist eðlilegt, að bæjar- og sveitarfélög gerðu hið sama og tækju gjald fyrir sínar ábyrgðir, og þá fer nú allt þetta að hækka. Ég hygg betra fyrir bæjar- og sveitarfélög og fyrir ríkið líka, að taka ekki gjöld fyrir sínar ábyrgðir, þar sem íslenzkar ríkisábyrgðir eru nokkuð sérstaks eðlis.

Það hefir verið svo undanfarið og útlit fyrir, að svo muni verða, að erfitt verði að fá lán erlendis öðruvísi heldur en að veitt sé fyrir því ríkisábyrgð eða bankaábyrgð. Þessar ábyrgðir gera lánin ekki ódýrari en annars, því að spurningin er um það, hvort lánið fæst eða ekki. Það er svo, að flestir erlendir bankar og fjármálamenn segja, að þeir séu svo ókunnugir, að þeir geti ekki fylgzt með högum okkar ár frá ári, sem stafar m. a. af því, hvað við erum einangraðir, og þess vegna vilja þeir hafa bankaábyrgð eða ríkisábyrgð fyrir sínum lánum.

Við vitum, að sum af þeim fyrirtækjum, sem lán hafa fengið, stynja undir sinum lánum, og að bæta síðan nýjum skatti ofan á, sem ekki kæmi þó niður á alla, heldur aðeins á þá, sem fengið hafa lán til rafvirkjunar, það er nokkuð það sama og að leggja þetta gjald á ríkissjóð sjálfan, því að ef þessi bæjarfélög geta ekki staðið undir sínum lánum, eins og hlýtur að verða um sum þeirra, þá fellur það bara yfir á ríkissjóð. Okkur hv. þm. A.- Húnv. fannst nokkuð hart að gengið með þessu frv., að ríkisvaldið og Alþ. færi að leggja á skuldug fyrirtæki skatta, á þeim tíma, sem það sjálft treystir sér ekki til að leggja fram tillag í slíkan sjóð sem þennan. Ef ríkið treystir sér ekki til slíks, er hart að gengið að nota sér vald yfir öðrum, sem hafa treyst á það. Hv. frsm. sagðist líka fallast á það, að tillög úr ríkissjóði væru ákaflega óvissar tekjur fyrir svona sjóð, því að þeir, sem sæti eiga hér á þingi, væru til í það hvenær sem er að afnema allar slíkar tekjur. Og mér skildist á honum, að til þess að tryggja slíkt, yrði að afla tekna hjá þeim, sem væru svo að segja mállausir um það í þinginu, hvort ætti að greiða þessi gjöld eða ekki.

Ég hygg, að þegar við treystum okkur til þess að stofna slíkan rafveitulánasjóð, sem ég tel. að væri æskilegt, eigi við að gera fyrstu till. til ríkissjóðs um framkvæmdirnar og ekki hefja þá starfsemi fyrr en ríkið treystir sér til að leggja eitthvað fram. Síðan komi það svo til álita, hvernig með öðrum hætti eigi að afla slíkum sjóði tekna. Og þá ætla ég, að sjálfsagt væri að gefa slíkum sjóði heimild til þess að taka lán, því að þau fyrirtæki, sem sá sjóður þyrfti að lána til, eru mjög dýr. Og sjóður, sem fær hreinar tekjur, sem enga vexti þarf að borga af, getur verið góður lántakandi og fær um að lækka vexti á lánum, sem hann sjálfur tæki.

Ég held því fram, að það sé ekki heppilegt að taka upp þann sið, að selja ábyrgðir ríkisins. Hitt þætti mér eðlilegt, að sérstakt gjald væri lagt á ódýrt rafmagn, þegar rafveitur eru þannig stæðar, að þær eru færar um að selja sitt rafmagn ódýrt, og sé hægt að segja, að þar sé um tekjuöflun að ræða. Það ætti ekki að vera tekjuöflun af skuldum þeirra, heldur væri farið eftir því, hversu þeim tekst að selja 5dýrt rafmagn til sinna neytenda. Ef lögð væru á þær gjöld eftir þeim reglum, væri það í samræmi við skoðun okkar hv. þm. A.- Húnv.

Af þessum ástæðum treystum við hv. þm. A.-Húnv. okkur ekki til að fylgja þessu frv. Frekar en að bera fram brtt. við frv. kusum við, að hæstv. ríkisstj. hefði málið lengur til athugunar. Það stendur svo á, að ekki er líklegt, að í stærri rafveitur verði lagt nú um skeið, og gerði því lítið til, þó að stj. hefði þetta mál til athugunar eitt ár, svo að hægt væri að gera frv. um þetta betur úr garði heldur en það frv., sem hér liggur fyrir.

Okkar till. er því sú, og beinum við henni til hæstv. forseta, að þessu máli verði vísað til ríkisstj.

Ég hefi heyrt í sambandi við þetta frv., nú eins og oft áður, að ákaflega mikið er talað um dreifbýlið og rétt þess til lífsþæginda. Og maður heyrir úti um landið, að vaktar hafa verið ýmsar tálvonir um það, að rafmagni sé eins hægt að veita um dreifbýlið eins og um þéttbýlið; og að það væri fyrir ranglæti stjórnendanna, ef það væri ekki hægt að veita því jafnt til allra landsmanna.

En eðli rafmagnsins er svo, að þéttbýlið og dreifbýlið standa ekki jafnfætis gagnvart því að nota sér það. Það er sama, hvaða sjóður er stofnaður, þá standa þessir landshlutar aldrei jafnfætis í þessu efni. Og að hægt sé að veita rafmagninu um sveitirnar til þess að stöðva fólksstrauminn til kaupstaðanna, eru tálvonir, sem ekki er rétt að vera að ala á hjá fólki.

Fyrir stríð kostaði háspennulína 4 þús. kr. á hvern km., og allir, sem þekkja til í strjálbýli sveitanna, ættu því að geta séð, að af þessum sökum er ekki hægt að leggja þar slíkar rafleiðslur. Í strjálbýlinu hjá okkur verða að vera litlar stöðvar fyrir 2-3 bæi, því að sveitirnar eiga helzt kost á því að fá rafmagn á þann hátt.

Ég vil svo aðeins minna á það, að ef þau bæjar- og sveitarfélög, sem borga nú allt að 7% fyrir sín lán, eiga að leggja á sig 1/2% í viðbót, þá er það ekki réttlátur skattur. Þar er munurinn gerður allt of mikill á þeim, sem þegar hafa komið upp hjá sér rafstöðvum, og hinum, sem eftir eru og eiga aðeins að borga 3%. Það mætti vera jafnara milli þeirra, sem búnir eru að virkja, og hinna, sem eftir eiga.

Það eru mörg atriði í sambandi við þetta mál, sem heimta, að málið sé rækilega undirbúið af stj.

Ég og hv. þm. A.- Húnv. fylgjum eindregið hugmyndinni að koma upp rafveitulánasjóði. Við þykjumst vita, að fyrir utan það, að hann verði notaður fyrir einstök sveitabýli, þá muni hann aðallega verða notaður fyrir þéttbýlið.

Það er mikil ástæða til að koma upp slíkum sjóði og afla honum tekna með sanngjörnum hætti og ríkisframlagi, og ég hygg, að það sé ekki of miklum tíma eytt, þó stj. hafi eitt ár til athugunar.