28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

18. mál, vegalög

Steingrímur Steinþórsson:

Ég sé, að hv. samþm. minn, sem er fyrri flm. þessa frv., hv. 1. þm. Skagf., er ekki viðstaddur nú, og vil ég því aðeins fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Ég get sagt svipað og hv. þm. Borgf., er hann mælti fyrir sínu frv. Þetta frv. hefir verið flutt á undanförnum þingum af okkur þm. Skagf., og ég tel rétt og sjálfsagt að flytja þessar brtt. einnig nú á þessu þingi.

Hér eru þrjár brtt., sem liggja fyrir viðvíkjandi vegum í Skagafirði. Í fyrsta lagi, að Sauðárkróksvegur, sem nú er þjóðvegur frá Sauðárkróki að Varmahlíð, verði lengdur sem þjóðvegur frá Varmahlíð að Goðdölum, því að það er algerlega óviðráðanlegt að halda honum við sem sýsluvegi, og er hin mesta nauðsyn á, að hann verði tekinn í tölu þjóðvega.

Önnur brtt. er um það, að Þverárfjallsvegur. frá Sauðárkróki um Skagaheiði, Laxárdal ytri og Þverárfjall að Skagastrandarvegi, verði gerður að þjóðvegi. Ýmsir hlutar af þessum vegi eru taldir til fjallvega, en þar er orðið bílfært að mestu leyti, og er þar vist mikil umferð, og má því telja rétt og sjálfsagt, að hann verði gerður að þjóðvegi.

Þriðja brtt. okkar þm. Skagf. er, að Hólavegur, frá Hofsósvegi að Hólum í Hjaltadal, verði tekinn í tölu þjóðvega. Ég hygg, að Hólaskóli sé eini skólinn í sveit, sem ekki hefir þjóðveg heim í hlað, eða svo að segja, og veit ég ekki, hvers Hólar í Hjaltadal eiga að gjalda, að vera þannig settir skör lægra en bændaskólinn á Hvanneyri og héraðsskólar, þar sem vitað er. að auk þess, sem þar er allstór bændaskóli, eru Hólar í Hjaltadal einn af þeim stöðum landsins, sem er mest sóttur af ferðamönnum að sumri til. Það er einkum vegna þess, hve slæmt vegasambandið er, að miklu dýrara og erfiðara er fyrir ferðamenn að komast þangað en ella myndi verða. Ég tel þetta hið mesta réttlætis- og sanngirnismál, einkum þar sem hér er aðeins um mjög stuttan kafla að ræða, sem ekki er þjóðvegur, og má telja sjálfsagt að leggja þjóðveg alla leið heim að Hólum. Það eru aðeins 12 km. af þeim vegi, sem er ruddur sumarvegur og ekki bílfær nema þann tíma árs, sem ekki er snjór á jörð. Af því, sem nú var sagt, leiðir, að nauðsyn ber til að fá góðan, bílfæran akveg heim að Hólum, og rétt, að þegar á þessu þingi verði ákveðið að veita fé til að leggja slíkan veg þangað heim.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vil leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til samgmn.