28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (2067)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Flm. (Jón Pálmason):

Ég hefi nokkuð orðið þess var, að sumum hv. þm. þykir furðu djarft af mér að leggja þetta stórmál inn í þingið, án þess að hafa nokkuð rætt það við þá flokka. sem styðja hæstv. ríkisstj. Ég skal taka það strax fram, að ég er ekki fyllilega ánægður með þau vinnubrögð. sem helzt tíðkast hér á Alþ. um afgreiðslu stórmála, að þau séu geymd fram undir þinglokin, þar til búið er að semja um þau, og þau svo hespuð af í einni svipan. Þess vegna tel ég betra og í samræmi við það, sem eigi að vera, að mál, sem mönnum kemur saman um, að mikið sé undir komið, séu rædd ýtarlega og opinberlega hér á Alþ. og leitazt verði eftir, að hve miklu leyti samningar takast í nefndum milli þeirra flokka, sem hlut eiga að máli, um úrslit þeirra.

Eins og menn yfirleitt vita, þá hafa jafnan verið meiri eða minni umr. um það hér á Alþ., hver vera eigi afstaðan til ýmsra mála þess atvinnuvegar, sem um langa hríð hefir verið aðalatvinnuvegur þessarar þjóðar, sem sé landbúnaðurinn. Það er kunnugt, að landbúnaðurinn hefir a. m. k. fram undir síðastl. aldamót verið aðalatvinnuvegur okkar þjóðar og borið uppi menningu hennar fjárhagslega. En síðan um aldamót hefir þetta mikið breytzt, og orsakirnar til þeirrar breyt. eru margar. Það er kunnugt, að einkanlega síðastl. 10 ár hefir alltaf meira og meira færzt í það horf, að straumur fólksins hefir legið frá sveitunum til kaupstaðanna. Þessi flótti frá framleiðslunni stafar af því, að í kaupstöðunum eru meiri þægindi og meira aðlaðandi fyrir fólkið að ala þar aldur sinn en í sveitum landsins. Þetta er á ýmsan hátt í ósamræmi við það, sem þjóðarhagurinn krefst. Það eru áreiðanlega hagsmunir fyrir þjóðina, að okkar góða land sé notað sem bezt, og að vinnuaflið, sem til er í landinu, verði notað til að hagnýta þau landsgæði, sem þar er um að ræða. Ég hefi nokkuð minnzt á þetta, bæði í blöðum og á annan hátt. Ég tel, að á síðari árum hafi orðið hér á landi mikið ósamræmi milli framleiðslunnar og launakjaranna, og þetta ósamræmi hefir einkum orðið orsök þess, að meira og meira af hinu uppvaxandi fólki hefir horfið frá framleiðslu sveitanna og leitazt við að afla sér tækifæris innan launastéttanna og þess flokks verklýðsstéttarinnar, sem átti kost á að hafa stöðuga atvinnu. Ég skal ekki fara langt út í það, hvaða orsakir liggja til þessa ástands, sem við höfum haft fyrir augum undanfarin ár í mestum hluta þessa lands. Það kemur æ betur og betur í ljós, að landsfólkið, og einkum forráðamenn bænda á sviði þjóðmálanna, hafa yfirleitt nú opin augu fyrir því, hver þjóðarhætta stafar af þessu öfugstreymi, ef svona heldur áfram. Það hefir mikið verið um þetta rætt og gripið til ýmsra ráða landbúnaðinum til styrktar, svo sem styrkir til jarðræktar, húsbygginga o. s. frv., og síðast en ekki sízt hefir verið gripið til þess ráðs að setja þau l., sem þetta frv. fer fram á að fella niður, sem sé afurðasölulögin. Þau voru sett árið 1935, og að sjálfsögðu í þeim tilgangi að gera landbúnaðinum hægara fyrir heldur en verið hefir. En ég verð að segja það, að þó að tilgangurinn með þessum l. hafi sjálfsagt verið góður, og ekki annar en sá, að koma í veg fyrir, að fólksstraumurinn héldi áfram úr sveitunum til kaupstaðanna, þá hefir framkvæmd þeirra l. orðið á þann veg, að það má segja, að tilgangurinn hafi að mjög miklu leyti misheppnazt, og orsakirnar til þess, að svo fór, eru að minu áliti tvær. Í fyrsta lagi sú sérstaklega, að mjög illa var séð fyrir afurðasölunni innanlands. Það var mjög mikið aðstreymi af framleiðsluvörum bænda á markaðinn innanlands, og framkvæmdin var falin mönnum, sem mest höfðu talað, en mínna vit höfðu til að selja sínar afurðir. Þetta orsakaði það, að fyrsta árið, sem kjötlögin komu til framkvæmda og salan á kjöti var skipulögð, þá minnkaði sú afurðasala á innanlandsmarkaðinum um 40% samkv. upplýsingum frá skipulagsnefnd atvinnumála.

Það er alkunnugt, hve miklir annmarkar reyndust vera á því að framkvæma mjólkursölulögin og hve mikla óánægju sú framkvæmd skapaði að ýmsu leyti. Þegar svo er komið, eins og nú standa sakir, að sífellt verður meiri og meiri verðhækkun á neyzluvörum yfirleitt í landinu, þá má innlenda varan ekki hækka jafnhliða hinni erlendu til þess að stefnan geti talizt heppileg frá alþjóðarsjónarmiði. Það er alls ekki heppilegt, að innlendar vörur hækki alveg í samræmi við þær aðfluttu, því að það getur leitt til þess, að sala þeirra minnki enn meira og þar af leiðandi verði enn meiri annmörkum bundið fyrir landsmenn að nota þær eins og nauðsyn ber til og þörfin krefst fyrir þjóðina í heild sinni.

Ég vil nú taka fram, hvernig er farið verðhækkun á helztu innfluttu matvörutegundum síðastl. ár. Helztu innfluttar neyzluvörur, svo sem kornvara og sykur, hafa hækkað síðastl. ár sem svarar 67% að meðaltali. Rúgmjöl, haframjöl, hveiti og sykur hafa hækkað um nálega 67% frá 1. febr. 1939 til 1. febr. 1940. En sú verðhækkun, sem orðið hefir á kjöti og mjólk, er miklu minni. Fryst kjöt hefir hækkað um 19%, saltkjöt um 18%, kjöt að meðaltali um 18,5%, og mjólk um 9,5%. Þrátt fyrir það, að verðhækkun á innlendum framleiðsluvörum hefir orðið miklu minni en á erlendum, eða að meðaltali 14% á móti 67%, þá bólar samt á almennri óánægju út af þeirri verðhækkun, sem er talin af ýmsum alls ekki eðlileg. Hluturinn er sá, að með þeirri stefnu, sem hér á landi hefir ríkt á undanförnum árum, og með þeim verðlagsmæli, sem hefir haldið verði á innanlandsvörum svo háu, að það sé hægt að nokkru leyti að bæta upp innflutningsverðið, þá hlýtur leiðin til þess að vera sú, að hækka smátt og smátt verð þessara vara nokkurnveginn í samræmi við það, sem aðfluttar vörur hækka. L. um gengisskráningu frá 4. apríl 1939 voru byggð á þeirri þjóðhagslegu forsendu, að með þeim ætti að halda niðri dýrtíðinni, kaupgjaldi og launum í landinu og einnig verði á vörum, svo að hægt yrði við það að ráða. Þessa stefnu álítum við alveg rétta, en frá henni hefir mikið verið vikið með þeirri breyt., sem gerð var á gengisl. eftir áramótin, og á þann hátt, sem að mínu áliti er alls ekki gott fordæmi fyrir fjármálastefnuna í landinu. Með þessari breyt. á gengisl. er ákveðið nú á næstunni að borga hækkað kaupgjald og hækkuð laun handa öllum launþegum ríkisins eftir vissri stighækkandi tölu, eftir því sem dýrtíðin fer vaxandi, en slíkt er eyðileggjandi fyrir framleiðsluna. Þess vegna er ekki óhætt að hækka innlendar vörur sem kauphækkuninni svarar og til að vega upp á móti henni, því að með slíkum ráðstöfunum væri verið að halda áfram á þeirri leið, að fólkið kepptist um að nota aðfluttar vörur eins og verið hefir, í stað þess að ég tel það skýlaust íslenzku þjóðinni mest í hag að nota sem mest innanlandsvörur og að okkar framleiðsluvörur verði notaðar sem mest í landinu sjálfu. Allir verða því að horfast í augu við það, að það veltur mjög mikið á því að gera þeim mönnum, sem á framleiðslunni lifa, kleift að hafa ekki verri aðstöðu heldur en þeir, sem á launum lifa.

Tilgangurinn með því frv., sem hér er flutt, er þrennskonar. Í fyrsta lagi sá, eins og tekið er fram í grg. frv., að jafna hlutföllin milli framleiðslu og launakjara, svo að framleiðslustörfin yrðu aðgengilegri, en það lítur út fyrir, að með því yrðu horfurnar meira örvandi fyrir sveitamennina en nú er til þess að framleiða. Menn geta séð í hendi sér, að styrkir og opinberar fjárveitingar til vegabóta, hafnargerða og allskonar jarðabóta krefjast að nokkru leyti fjárframlaga á móti, og þá hljóta menn að sjá, að það fólk, sem vinnur hjá hinu opinbera, getur yfirleitt fengið hærra kaup en nokkra leið er fyrir bændur landsins að borga. Þetta hefir leitt til þess, að í sveitum landsins má svo heita, að á stórum svæðum sé nú eintómur einyrkjabúskapur. Afleiðingin af því er sú, að mjög mikið af engjalöndum er árlega ónotað, sem um margar aldir hefir verið slegið og notað til þess að framleiða. Þetta er svo alvarlegt atriði, að ég tel, að það sé, ekki sízt eins og nú standa sakir, þegar stríðið er í nágrannalöndum okkar og verðið hækkar á aðfluttum vörum, og sá voði fer sívaxandi, að aðflutningar og siglingar til okkar lands teppist, þá sé okkur brýn nauðsyn að taka til athugunar að nota framleiðsluskilyrði okkar lands sem allra bezt og stuðla að framleiðslu þeirra lífsgæða, sem hægt er að framleiða hér og þjóðin getur yfirleitt notað.

Í öðru lagi er tilgangur þessa frv. sá, eins og ég hefi nokkuð vikið að, að fólkið í kaupstöðunum noti miklu meira af þeim framleiðsluvörum, sem hér um ,ræðir, en það hefir gert hingað til. Ég held, að ef þessir hlutir verða teknir réttum tökum, yrði auðveit að koma þessu til leiðar.

Í þriðja lagi er tilgangurinn sá með þessu frv., að koma því til leiðar, að minna þurfi að flytja inn af þeim neyzluvörum, sem mest hafa verið notaðar á undanförnum árum og margir telja mesta þörf á að nota í okkar landi. Á síðasta ári mun innflutningur á kornvörum, kaffi og sykri, sem sé þeim innfluttum vörum, sem aðallega eru notaðar til fæðu, hafa numið rúmlega 7 millj. kr., og á næsta ári mun verða flutt inn fyrir svipað að magni til, og það er alveg víst, að miklu hærri fjárupphæð þarf til þess að borga það.

Viðvíkjandi því, að hve miklu leyti það verkaði í þá átt að draga úr innflutningi, ef þetta frv. yrði að l., er að vísu ekki hægt að fullyrða neitt fyrirfram, en það er víst, að ef jafnað yrði á þennan hátt á milli framleiðenda og neytenda eins og frv. gerir ráð fyrir. myndi það verka þann veg, að spara innflutning og þar af leiðandi erlendan gjaldeyri, sem nú er mjög þýðingarmikið atriði, eins og öllum hv. þm. er kunnugt.

Ég skal svo ekki fara nánar út í þetta, nema tilefni gefist til. En viðvíkjandi því, hvernig stjórn þessara mála yrði hagað, þá hefi ég þar mjög ákveðna skoðun, sem ég hefi áður lýst hér á hv. Alþ. og víðar, að bændur sjálfir og þeirra félagsskapur eigi að ráða yfir þeim vörum, sem þeir framleiða. Og ég álit, að það sé Búnaðarfélag Íslands og búnaðarþing, sem eigi að fara með þessi mál undir yfirstjórn landbrh.

En hvað sölu mjólkur snertir, sérstaklega í stærri bæjum, þá tel ég það sjálfsagt, að hún sé í höndum þeirra mjólkurbúa, sem ná yfir stærst svæði og hafa verið rekin sem samvinnufélög og því hafa mest skilyrði og mesta hvöt til þess að haga þeirri framkvæmd á þann hátt, sem heppilegastur er.

Um annað meginatriði þessa máls, sem er á hvern hátt eigi að taka þetta fé, sem hér er farið fram á, að notað verði til verðuppbótar á kjöti og mjólk, er það að segja, að hv. þm. mun vel kunnugt, að um það atriði hefir verið allmikill ágreiningur, og ég tel og hefi haldið fram áður, að það hafi verið á undanförnum árum af hv-. Alþ. gengið allt of langt í því að gera fjárkröfur á hendur ríkisvaldsins, og miklu lengra en nokkurt vit hefir verið í eða í samræmi við getu og undirstöðu fjármálanna í landinu, sem er framleiðslan. Þegar svo er komið sem komið er, að ríkið, bæjarfélög, peningastofnanir og þau félög, sem halda uppi siglingum, þurfa að eyða í launagreiðslur sem nemur 15 –16 millj. kr., þá er það auðsætt, að ekki er unnt, eftir því útliti, sem nú er fyrir okkar framleiðslu, að standa undir þeim fjárkröfum. Það hefir virzt svo hér á undanförnum þingum, að talað væri fyrir daufum eyrum, þegar rætt hefir verið um að færa niður slíkar fjárkröfur, sem á herðar ríkisins hafa verið lagðar, en þær hafa verið auknar ár frá ári, og enn situr við það sama. Og í sambandi við gengisl. hefir komið fram, að það mun vera meiningin að hækka öll laun og kaup í landinu í samræmi við það, sem dýrtíðin vex. En ég tel, að ef þessari stefnu á að halda áfram, sé ekkert annað framundan en gjaldþrot. En til þess að fresta því gjaldþroti verður fyrst og fremst að reyna að bjarga við framleiðslunni með því að örva hana, og gæti hún þá ef til vill staðið lengur en ella. Við verðum að koma heilbrigðu skipulagi á þessi mál og breyta til á þann veg, að réttur verði hlutur framleiðslunnar á kostnað þeirrar stefnu, sem ríkt hefir í landinu, að fjölga opinberum starfsmönnum ríkisins og hækka laun þeirra. án þess að tekið hafi verið tillit til þess, hvort framleiðslan væri fær um að standa undir slíkri launagreiðslu eða ekki.

Verði sú stefna enn ráðandi, sem ríkt hefir hér á Alþ., að ekkert fáist dregið úr þessum útgjöldum í launagreiðslur, til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem hér er farið fram á í þessu frv-., þá er hér önnur leið, sem ég vil líka benda á, og hún er að draga úr einhverjum þeim opinberu framkvæmdum, sem hafa verið styrktar eða reknar að undanförnu, og ég tel, að á meðan á stríðinu stendur sé það miklu skynsamlegri leið heldur en að láta allt ganga eins og það hefir gengið með framleiðsluna til sveitanna. því hvernig það hefir gengið, er meginorsök þess atvinnuleysis, sem verið hefir í landinu, og það má segja, að það sé á hangandi hári, hvernig veltur á hverju ári um atvinnuframkvæmdir til sjávarins, sem allt líf kaupstaðafólksins er komið undir.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um málið að sinni, en ég vil fara fram á, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og til landbn.