28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2071)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Haraldur Guðmundsson:

Ég vil taka undir það með hæstv. forsrh., að það er sjálfsagt, að menn eigi þess kost að kynna sér þessar sakir út í yztu æsar. Hingað til hafa menn engan kost átt þess, að kynnast þessum málum, og jafnvel eftir ræðu hæstv. ráðh. er því ekki svarað nema að mjög litlu leyti, sem ég vildi fá upplýsingar um.

Ég kemst ekki hjá að víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum í ræðu hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði, að bændur hefðu sætt sig vel við, þó að vörur þeirra hefðu ekki verið hækkaðar, þegar stríðið byrjaði. En verðið á vörum þeirra var bundið með l., eins og húsaleigan og kaupgjaldið, svo að það var engin göfugmennska af þeim, þó að þeir hlýddu þeim l., sem þá giltu um meginþorra landsmanna.

Hæstv. ráðh. sagði, að sama verð hefði verið á saltkjöti í Noregi og hefði verið ákveðið á kjöti hér. (Forsrh.: Í haust.) Það veit ég vel, en það náði ekki því verði, sem nú er hér á nýju kjöti samkv. ákvörðunum kjötverðlagsnefndar, en ég veit ekki annað en að verðið í Englandi sé lægra. Hann segir, að fá megi hærra verð í Svíþjóð en hér fáist. Ég vil ekki vefengja hans orð, en ég veit, að það er aðeins takmarkaður skammtur, sem hægt er að selja þangað. En jafnvel þó að þetta væri rétt, þá get ég ekki verið honum sammála um, að rétt sé að gera þessa verðhækkun, í fyrsta lagi vegna þess, að síðan l. um skipulag á kjötsölunni gengu í gildi, hefir verið verðjöfnun á kjöti innanlands, og landsmenn hafa verið látnir borga hærra verð en hægt var að fá annarstaðar og það notað til þess að bæta upp verð á því kjöti, sem út hefir verið flutt. Hæstv. ráðh. sagði, að ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir, að bændur seldur kjötið úr landi til þess að njóta þessa hærra verðs, nema banna þeim það með valdboði. Þetta virtist mér, að hann teldi svo mikla firru, að fjarstæða væri að láta sér detta það í hug. En ég veit ekki betur en að með gengislögunum sé bundið kaup verkamanna og sjómanna, og ég veit ekki til, að það hafi hneykslað hæstv. ráðh., þó að það hafi verið gert, enda þótt kol og margskonar matvara hafi hækkað um 70–80%. Það, sem ég meina með þessu, er það, að mér virðist vera ískyggilega nálægt því, að sumir menn áliti, að það megi valdbjóða sumum stéttum þjóðfélagsins, en aftur á móti sé ósanngjarnt að gera það við aðrar stéttir.

Ég get svo látið þetta nægja. Ætlun mín var ekki að taka upp almennar umr. um þessi mál, heldur aðeins að beina fyrirspurn til hæstv. forsrh. Ég er honum sammála, að þörf sé á að taka á þessum málum með stillingu, en þá er þörf á, að fyrir liggi sem nákvæmastar upplýsingar um verðlag á kjöti hér og erlendis.