28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2168)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Eiríkur Einarsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að ræða þetta mál, en það, sem gefur mér tilefni til að rísa úr sæti mínu, er aths., sem ég vildi gera við 2. brtt. á þskj. 217. Ég get ekki verið samþykkur till. hv. fjhn. um það, að fela rekstur þessa væntanlega sjóðs Búnaðarbanka Íslands. Ég held, að hv. n. fari heldur flausturslega að ráði sínu, þegar hún vill ákveða málið þannig. að Búnaðarbanki Íslands hafi einn öll ráð með lán úr raforkuveitusjóði. Mér þykir sennilegt, að hvaða bankastjórn sem væri yrði ekki hrifin af því að eiga að hafa ein slíkt vald með höndum. Þarna er um nokkuð stórt mál að ræða, og má búast við, að það verði keppni á milli landshluta um að verða þessara hlunninda aðnjótandi, og það er mikil ábyrgð að fela einni bankastjórn, sem ekki er hægt að gera ráð fyrir, að sérfróðir menn um þessi mál skipi. Tel ég þetta því flausturslegt ákvæði, sem bankinn myndi ekki verða þakkiátur fyrir. Vil ég því gera það að till. minni, að þetta atriði verði í nokkrar skorður bundið, og vil bera fram skrifl. brtt. í samræmi við það, sem ég hefi nú sagt, og skjóta inn í 2. gr., þar sem nú stendur „Búnaðarbanki Íslands hefir á hendi ákvarðanir um lán úr rafveitulánasjóði“: að fengnum tillögum trúnaðarmanna ríkisstj. um raforkumál, o. s. frv-. eins og í gr. stendur. Ég get ómögulega dulið, að mér finnst það vera nokkur trygging í þessu, að Búnaðarbankinn leiti slíkra till. og fylgi þeim. Þá verður e.t.v. spurt, hverjir séu trúnaðarmenn ríkisstj. um raforkumál. Þá er því til að svara, að það eru til lagaákvæði um slíka trúnaðarmenn. Ég veit ekki betur en að samkv. vatnal. sé vegamálastjóri það, og í öðru lagi má skv. l. frá 1932 setja til þess verkfræðinga að vera trúnaðarmenn ríkisstj.

Ég skil ekki, þegar um slíka lagasetningu sem þessa er að ræða, hvernig fer, ef ekki eru sett ákvæði um það, hvernig fé skuli veitt, þegar farið verður að keppa um lán úr þessum sjóði.

Ég vil svo hér með leyfa mér að leggja þessa skrifl. brtt. fyrir hæstv. forseta, svo hún geti komið til atkvgr.

Þótt frv. sé á þann hátt, að menn hafi ekki séð sér fært að ákveða úr ríkissjóði meira en 50 þús. kr. tillag árlega, þá er það ekki af því, að menn sjái ekki, að æskilegra hefði verið að ákveða til hans hærra fjárframlag úr ríkissjóði, þar sem sjá þarf fyrir þörfum margra héraða, heldur af því, að ekki virðist gerlegt að krefjast meira af ríkissjóði, og svo bætist nokkuð fé við með þeirri brtt., sem hér liggur fyrir. En því betur þarf þá á fénu að halda og því fleiri verða til þess að keppa um það. því fremur á sérfræðingaaðstoð einnig rétt á sér, þegar til ákvarðana kemur um veitingu lána.

Þá vil ég taka það fram, að hér liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Borgf. um að nema burtu 10 ára takmarkið, og úr því að brtt. er fram komin, þá verð ég að segja, að ég á erfitt með annað en að greiða henni atkv. Það er engum tímatakmörkum bundið hvað snertir gjaldskyldu rafveitnanna, og sé ég því ekki, að réttmætt sé að takmarka gjaldskyldu ríkissjóðs við 10 ár, þótt tímatakmarkið sé sett í frv. af skiljanlegum ástæðum, þar sem það sýndist aðgengilegra fyrir ríkissjóð. Ég tel það því freistingu að vera einnig með þessari brtt.