29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Eiríkur Einarsson:

Mig furðar, að hv. n. skuli ekki hafa séð sér fært að mæla með brtt. mínni, af því að mér virðist hún svo sjálfsögð, og í samræmi við þá furðu mína er sú grein, sem hv. frsm. gerir fyrir því, því að í raun og veru gerði hann enga grein fyrir því, en sagði aðeins, að það væri eins gott, að hlutaðeigandi bankastjórn tæki þessar ákvarðanir. Mér finnst, þegar um svona stórvægileg mál er að ræða. að ákveða, hverjir skuli verða aðnjótandi þessara hlunninda, þá sé það meginatriðið í hvert skipti, að styrkurinn fari þangað, sem rafmagnið á mestan og beztan rétt á sér, — og hverjir eiga fremur að geta skorið úr um það en trúnaðarmenn ríkisins, sem bera sérstakt skyn á þessa hluti? Manni liggur nærri að láta sér detta í hug, að þessi andstaða hv. frsm. og n. geti stafað af því, að þeir vilji knýja það fram í viðkomandi bankastjórn, að þessi lán verði veitt án tillits til þess, hvort viðkomandi rafveita á fullkominn rétt á sér. Það er ekki hægt að ætlast til, að í bankastjórnum sé neinn maður, sem hefir sérþekkingu á slíkum málum, og virðist mér því nauðsynlegt, að þeir sérfræðingar, sem eru trúnaðarmenn ríkisins um þessi mál, segi álit sitt um þau. Við vitum líka. að í öðrum málefnum, sem eru styrkt af ríkisvaldinu og sérþekkingu þarf til, þar eru kunnáttumenn á því sviði kvaddir til ráða, t. d. í sambandi við styrk til nýbýla. Þar gerir nýbýlastjórn, sem er skipuð mönnum, sem hafa sérþekkingu á slíkum málum, till. og ákvarðanir. Við höfum þess líka dæmi, að brugðið hefir verið út af þessu um of, og hefir það stundum orðið dýrt spaug, að málin hafa ekki verið athuguð nóg á faglegan hátt. Þarf þar ekki annað að nefna sem dæmi en mjólkurbú Ölfusinga. Hefði n. sérfróðra manna fjallað um þau mál í staðinn fyrir að rasa eftir því, sem tilviljunin, atvikin og þrýstingurinn sagði til, þá hefði ekki farið þar sem fór. Mig furðar því á þessari einkennilegu neitun n. án þess að hafa fært fram nokkur rök fyrir að vilja ekki slá þennan varnagla, sem ég álit sjálfsagðan og nauðsynlegan, en vænti hinsvegar, að hv. d. sjái sér fært, þrátt fyrir þessa afstöðu n., að samþ. brtt. mína.