27.02.1940
Sameinað þing: 3. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, fjárlög 1941

Brynjólfur Bjarnason:

Eins og kunnugt er. eiga samkvæmt þingsköpum að fara fram umræður í útvarpið í sambandi við fjárlögin, þar sem stjórnmál eru rædd almennt — hinar svokölluðu eldhúsumræður.

Á síðasta þingi tóku stjórnarflokkarnir upp á þeirri nýbreytni, að brjóta landslög og fella þessar umræður niður. Ég skal taka það fram, að þetta er ekki fyrsta lagabrotið, sem þjóðstjórnin hefir framið. Eitt atriðið á stefnuskrá hennar virðist vera að virða landslög að vettugi.

Svo mikils þótti við þurfa, að landslög voru brotin, til þess að landsmenn fengju ekki að heyra mál stjórnarandstæðinga. Samt hafði stjórnin um það bil fimmfaldan ræðutíma móts við stjórnarandstæðinga. Svona var kjarkurinn, þegar á hólminn kom, þegur þessir virðulegu herrar áttu að mæta hinum fyrirlitlegu landráðamönnum. Svona vel treysta þeir málstað sínum, og svona vel treystu þeir Finnagaldrinum.

Ég mun því nota þetta tækifæri til að tala nokkur orð um stjórnmálin almennt. Enda er ekki nokkur leið að tala um fjárlfrv. af viti, nema að rannsaka nokkuð hinn pólitíska aðdraganda þess.

Stjórnmálaástandið er nú gerbreytt síðan síðast fóru fram stjórnmálaumræður í útvarpið.

Nú er styrjöldin skollin á, sem lengi hefir vofað yfir. Og þjóðin er þegar farin að kenna á afleiðingum hennar, þó þetta sé aðeins byrjunin. óbærileg dýrtíð færist yfir landið. Yfir vofir, að atvinna stöðvist í fjölmörgum atvinnugreinum, t.d. að engin saltfisksvertíð verði í vetur. Landið og atvinnuvegir þess er svo háð umheiminum sem mest má vera. Hörmungar vofa yfir þjóðinni, ef aðflutningar teppast. Þegar styrjöldin hefst, er ástandið í viðskiptamálunum þannig, að í skjóli innflutnings- og gjaldeyrishaftanna hefir þróazt einokun, sem veldur því, að dýrtíðin er miklu meiri en ella hefði orðið. Sambandið og samtök heildsala skipta nú innflutningnum bróðurlega á milli sín, og nefnd, sem Bretar drottna yfir, ræður yfir öllum útflutningi.

Fyrst af öllu spyrja menu. Hvað hefir ríkisstj. gert til að undirbúa þjóðina undir að mæta erfiðleikum styrjaldarinnar: Á ég þar bæði við núverandi ríkisstjórn og fyrirrennara hennar.

Þingmenn Sósíalistafl. hafa margsinnis krafizt þess, að gerðar yrðu ráðstafanir til að búa landið undir styrjaldarástand. Á þinginu 1938 fluttum við till. um skipun nefndar, sent allir þingflokkar ættu fulltrúa í, til þess að hafa þessi mái með höndum ásamt ríkisstjórninni. Síðan höfum við flutt fjölmargar till. um ráðstafanir í atvinnumálum og fjármálum til að gera landið sem sjálfbirgast. við höfum sífellt hamrað á því, að allar opinberar aðgerðir yrði að miða við það, að styrjöld væri yfirvofandi. Hvað hefir svo ríkisstjórnin gert?

Hún hefir að vísu skipað eina nefnd, en ekki er kunnugt um afrek hennar. En ríkisstjórnin hefir margfaldað þá virðugleika, sem þjóðin verður að mæta af völdum styrjaldarinnar, og stofnað atvinnulífi þjóðarinnar í hina mestu hættu. Hún hefir komið gjaldeyrismálunum í öngþveiti og notið til þess góðrar aðstoðar Landsbankans og hlutafélagsins Kveldúlfs.

Árum saman hefir átt sér stað fullkomin glæframennska í rekstri útgerðarinnar. Meðan vel hefir gengið, hefir stórfé verið dregið burt úr atvinnurekstrinum og sóað eða flutt út úr landinu í stað þess að endurnýja framleiðslutækin. Skipin gengu svo úr sér — veiðitækin úreltust og hættu að vera samkeppnisfær. við þetta bætast svo stórtöp vegna spákaupmennsku, sem hefir verið gerð auðvelt með því að gefa spákaupmönnunum greiðan aðgang að veltufé þjóðarinnar. Geysiháar skuldir safnast fyrir og hvíla á atvinnutækjum, sem eru orðin lítils virði. Í stað þess að gera upp glæfrafyrirtækin, er sukkinu haldið við með því að ausa nýjum millj. af lánsfé úr bönkunum, án þess að tryggingar komi á móti. á þennan hátt hefir gjaldeyrisjöfnuður þjóðarinnar verið eyðilagður. Þá var gripið til gjaldeyris- og innflutningshaftanna. Þau hafa orðið til þess að gera ástandið enn verra, þar sem þau hafa skapað þá dýrtíð, sem hefir margfaldað örðugleika útgerðarinnar og alls atvinnurekstrar fyrir erlendan markað.

Fyrir alla þessa ráðsmennsku hefir þjóðinni orðið að blæða. Allar opinberar aðgerðir hafa verið miðaðar við að bjarga glæfrafyrirtækjunum, sem hafa gerzt hold af holdi Þjóðbankans.

Fyrir hlutafélagið Kveldúlf var íslenzka krónan lækkuð, fyrst um 18% og síðan um 11%. Fyrir hlutafélagið Kveldúlf hefir Þjóðin orðið að búa við þá dýrtíð, sem lækkun gengisins, bæði hins raunverulega og skráða gengis, hefir hafi í för með sér. Fyrir hlutafélagið Kveldúlf og aðra slíka fjárplógmenn var verkfallsrétturinn tekinn af verkalýðsfélögunum, — rétturinn til að verðleggja vinnuna og hafa samtök um að bæta kjörin, rétturinn, sem íslenzk verkalýðsfélag hafa aflað sér í áratugalangri baráttu. rétturinn, sem skilur frjálsa verkamenn frá þrælum. Öllu þessu voru íslenzkir verkamenn rændir á einni nóttu í sölum Alþingis í fyrra vetur. Svo endurtók sagan sig núna. Allt til þess að þóknast stjórn Landsbankans, Jensenssonum og öðrum ástkærustu viðskiptamönnum bankans. Um þetta sameinuðust þingmenn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., auk Bændafl. Þannig fæddist þjóðstjórnin.

En það hefir verið gert meira fyrir hlutafélagið Kveldúlf.

Eitt af Því allra nauðsynlegasta fyrir atvinnulíf Íslendinga er að fá auknar síldarverksmiðjur á heppilegum stöðum. Þetta vita allir landsmenn, og enginn dirfist í móti að mæla. En það eru til „Íslendingar“ sem hafa andstæða hagsmuni í þessu efni við alla aðra Íslendinga, eins og helzt sést á því, sem ég ætla nú að skýra frá í stuttu máli.

Siglufjarðarbær hefir litla síldarverksmiðju, sem afkastar 1000–1200 málum á sólarhring, en er svo úr sér gengin, að hún er ekki nothæf lengur. Nú tókst Siglufjarðarbæ að fá erlent lánstilboð um endurbyggingu verksmiðjunnar mg um að koma upp nýtízku verksmiðju með 5000 mála afköstum á sólarhring. Lóðin er einhver heppilegasta lóð fyrir síldarverksmiðju á öllu landinu. Lánið var mjög hagkvæmt, og engrar ríkisábyrgðar krafizt. Eftir var aðeins að fá leyfi atvinnumálaráðherra, Ólafs Thors. En hann neitaði um leyfið. Það væri freistandi að segja alla sögu þessa hneykslis, en til þess er enginn tími.

Það er ekki gott að segja, hvað Ólafur Thors hefir skaðað landið mikið með þessu gerræði sínu, en það verður varla of hátt áætlað. Í sæmilegu síldarári fara hundruð þúsundir mála forgörðum vegna verksmiðjuleysis og verðmæti, sem skiptir milljónum króna, hent í sjóinn. En nú eftir að styrjöldin er komin, er augljóst, að tjón það, sem þessi hæstv. endemis-atvinnumálaráðherra hefir bakað þjóðinni, er ennþá stórkostlegra. Síldarlýsi er nú ein allra verðmætasta vara, sem gengur á heimsmarkaðinum. Og úr því komið var í veg fyrir, að hægt væri að byggja þessa verksmiðju, áður en stríðið skall á, er öllum slíkum framkvæmdum vitanlega teflt í tvísýnu vægast sagt, og allar framkvæmdir margfalt dýrari.

Það er heldur ekki gott að reikna út, hvað sjómenn og útgerðarmenn tapa miklu. Það er sannanlegt, að á hverju síldarmáli hafa verksmiðjurnar grætt 4–5 kr. í skjóli þeirrar einokunar, sem ríkið og Ólafur Thors hafa á síldarbræðsluiðnaðinum. Hefði þessi einokun verið brotin á bak aftur af óháðri verksmiðju, myndi ekki hafa verið hægt að koma við þessari féflettingu á sjómönnum og útgerðarmönnum. Á þennan hátt hafa sjómenn og útgerðarmenn verið „snuðaðir“ um 3–4 millj. En að sama skapi sem fiskimenn tapa á þessu, græðir hæstv. ráðh., Ólafur Thors. Og hér höfum við skýringuna á þessari furðulegu framkomu.

En hinir ráðherrarnir hafa heldur ekki legið á liði sínu að búa þjóðina undir styrjöldina. Forsjál ríkisstjórn mundi hafa lagt kapp á að láta byggja sem mest af íbúðarhúsum, á meðan tími var, til þess að menn þyrftu ekki að standa uppi húsnæðislausir, þegar aðflutningar á byggingarefni tepptust eða verð þess margfaldast. En íslenzka ríkisstjórnin hefir farið öfuga leið. Hún hefir torveldað svo innflutning á byggingarefni og þar með byggingu íbúðarhúsa sem henni hefir frekast verið unnt. En frægust er þó ríkisstjórnin í þessum efnum fyrir aðgerðir félmrh. síns, Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Hann setti bráðabirgðalög, þar sem sjálfsákvörðunarrétturinn er tekinn af byggingarfélögum verkamanna, gersamlega að tilefnislausu, aðeins til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi, og gerði sig þar með sekan um stjórnarskrárbrot.

Afleiðingin af þessu tiltæki er m.a. sú, að fjöldi verkamanna, sem árum saman hafa greitt gjöld sín til Byggingarfélags alþýðu, missti nú rétt sinn til að fá húsnæði, sem þeim bar eftir réttri röð. Sá réttur fellur nú á aðra menn eftir vali St. Jóhanns, hæstv. félmrh. En öll þessi rekistefna og margföldu lögbrot drógu þarna dilk á eftir sér, að byggingar verkamannabústaða í Reykjavík drógust svo, að ekki var byrjað á þeim fyrr en í vetur. Á meðan hefir byggingarefni hækkað hóflaust í verði, og í staðinn fyrir að nota sumarblíðuna, er vinna hafin um það leyti, sem hörkufrost ganga í garð. Útkoman verður — óhæfilega dýrar byggingar og miklu minni byggingar en ella.

Hvar sem maður fer eða flækist, þá kemur það varla fyrir, að maður hitti mann, sem í fullri alvöru tekur upp vörn fyrir þetta athæfi hæstv. atvmrh. og hæstv. félmrh., sem hér hefir verið lýst. Og ég held, að það séu tiltölulega fáir alþm., sem treysta sér til að verja það eða vilja verja það. Samt standa þeir með þessum ráðh. sínum, þegar á hólminn kemur, og greiða t.d. flestir atkv. með bráðabirgðaltigum hæstv. félmrh. Svona miklar mannleysur sitja á Alþingi innan um hina. Þar á vissulega við hið fornkveðna:

Eru þar flestir aumingjar,

og illgjarnir þeir, sem betur mega.

En það eru ekki bara síldarverksmiðjur og húsabyggingar. sem hæstvirt ríkisstjórn hefir látið til sín taka á þennan hátt.

Yfirleitt virðist þessari hæstv. ríkisstjórn vera meinilla við, að gæði okkar auðuga lands séu hagnýtt. Um það má nefna fjölmörg önnur dæmi. Og þetta á sér orsakir eins og allt annað. Hin gjaldþrota klíka, sem hefir siglt fjármálalífi okkar í strand, er vitaskuld óhæf til að hafa forustu um nokkrar framfarir, og hún óttast allan atvinnurekstur, sem upp kynni að vaxa óháður henni — eins og heitan eldinn. Þá myndi spilaborgin hrynja. Á einræði í atvinnulífinu byggir hún pólitíska yfirdrottnun sína. Og fyrir ríkisstjórn, sem hefir hag af veikum verklýðssamtökum og rýrum kaupkjörum og byggir tilveru sína á verzlun með sál og sannfæringu, er atvinnuleysi beinlínis nauðsynlent.

En hér með er ekki allt talið í stríðsundirbúningi hæstv. ríkisstjórnar.

Lögin um gengisskráningu, sem sett voru í vor og hneppa verklýðssamtökin í lagaviðjar, svo þau geta ekki hækkað kaup sitt eða gert nýjan kaupsamning, þó dýrtíðin aukist fram úr hófi — eru vissulega ekki ónýtur stríðsundirbúningur fyrir yfirstéttina. Með þeim er öllum byrðum styrjaldarinnar velt yfir á verkalýðinn, meðan stríðsgróðamennirnir raka saman fé.

Á þinginu 1938 voru sett lög um skatt- og útsvarsfrelsi fyrir stórútgerðarmenn í 5 ár, eða til ársins 1943. Sannarlega voru þessi lög sett á réttum tíma fyrir þá, sem hlut áttu að máli. Nú er komið „blessað stríðið“, sem færir þessum minnum óvæntan stórgróða, og meðan þeir raka saman gróðanum, eru þeir skattfrjálsir, en aðrir landsmenn, er búa við þröngan kost, dýrtíð og atvinnuleysi og allskonar örðugleika. verða að bera allar skattabyrðarnar.

En til þess að hægt sé að sleppa stríðsgróðamönnunum við skatta, til þess að hægt sé að halda uppi ríkislögreglu, nýjum bitlingum og öðrum nýjum útgjöldum „vegna stríðsins“, þarf að fá nýja tekjustofna handa ríkissjóði. Með nýju tollskránni hafa tollarnir hækkað um millj. En þó hafa tollar á nauðsynjavörum hækkað mest. Þetta kallar ríkisstjórnin baráttuna á móti dýrtíðinni.

Hér hefir verið drepið á annan þátt í stríðsundirbúningi stjórnarinnar. Það, sem einkennir fyrri þáttinn, er, að allt er látið reka á reiðanum. Síðari þátturinn er aftur á móti gerður af hinni mestu forsjálni. har er þess vandlega gætt að búa svo í haginn, að þegar styrjöldin skelli yfir, verði allur þorri landsfólksins að búa við sult og seyru, meðan örfáir menn geti auðgazt í friði, án þess að þurfa að óttast kaupkröfur eða skattgreiðslur.

Þá eru það fjárlögin, sem nú gilda. Það þótti helzt ráð við atvinnuleysinu að skera stórum niður framlög til verklegra framkvæmda. Framlög til fiskimálanefndar og til bátasmíða innanlands voru felld niður. Framlög til landhelgisgæzlu og strandferða skorin niður. Framlög til byggingar- og landnámssjóðs minnkuð um heiming. verkamannabústaðir verða engir byggðir. Brúargerðir og hafnarmannvirki að mestu lögð niður. Framlag til ræktunarsjóðs af útflutningsgjaldi skal falla niður samkvæmt sérstöku lagaákvæði. Framlag til verkfærakaupasjóðs að miklu leyti fellt niður. Styrkur til áburðarkaupa skal falla niður, þar sem gert er ráð fyrir, að bændur fái sama og engan erlendan áburð.

Og ekki batnar þegar litið er á það fjárlagafrumvarp, sem hér liggur fyrir. Þar eru framlög til verklegra framkvæmda og landbúnaðar enn skorin niður um meira en 1 millj. króna. Útgjöld til þjóðvega um rúm 150 þúsund, til Hafnargerða um 120 þúsund, til verkamannabústaða um 130 búsund, til nýbýla- og samvinnubyggða um 105 þús., til byggingar- og landnámssjóðs og byggingarstyrkur til bænda um samtals 100 þús., styrkveitingar til jarðabóta lækka um 380 þús., kostnaður við mæði- og garnaveiki lækkaður um 190 þús. kr.

Og svo eru þessir herrar alltaf að klifa á því að bæta úr atvinnuleysinu með því að flytja fólk upp í sveit. Samtímis gera þeir ráðstafanir til þess að gera ólífvænlegt í sveitunum. Þetta er met í hræsni. Og svo kalla þeir þetta sparnað. Flestir hrekklausir menn, sem taka mark á sparnaðarruglinu, halda, að í því felist sami skilningur og öll alþjóð leggur í það, að draga beri úr óþarfa eyðslu til þess að tryggja afkomu almennings í landinu. Í þeim skilningi er sparnaðurinn vissulega lofsverður. En þegar til kastanna kemur, þá er það alis ekki meiningin, heldur er verið að spara atvinnuvegi landsins, til þess að braskararnir og bitlingamennirnir geti haft meira fé til umráða, til útgjalda, sem þeim finnast enn nauðsynlegri, eins og ég skal strax sýna fram á. Þetta er svo sem álíka og ef bóndinn tæki upp á því að spara bústofn sinn með því að skera niður ærnar og kýrnar, til þess að afla sér veizlufanga handa hinum virðulegu forustumönnum flokks síns, þegar þeir halda yfirreið um sveitina.

Ég vil vara ykkur við því, hlustendur góðir, að taka nokkurt mark á því, þó Framsfl. og alþfl. séu að mögla eitthvað út af þessu frv. Það er nákvæmlega í sama anda og núgildandi fjárlög, sem eru þeirra verk, haldið áfram á sömu braut, eins og ég hefi synt fram á. Og þið getið verið alveg vissir um, að þetta fellur allt í ljúfa löð. Takið bara eftir. Fjárl. verða samþ. með fullu samþykki allra þjóðstjórnarflokkanna, enda þótt hlutunum verði kannske eitthvað „möndlað“ öðruvísi til en frv. gerir ráð fyrir.

Hvað á svo að gera við það, sem sparast? Jú, það fer í ráðherrana, sem nú eru 5, og aukinn stjórnarkostnað að öðru leyti. Það fer í konunginn, sem fær 15 þúsund króna launahækkun, karltetrið. hað fer í aukinn kostnað við sendiherrann í Kaupmannahöfn. Það fer í aukna vexti og afborganir, sem er ein afleiðingin af gengislækkuninni. Og það fer í ríkislögregluna, því samkvæmt lögum, sem Hermann Jónasson lét samþykkja á síðasta þingi, er hægt að leggja í ótakmarkaðan kostnað til aukningar lögreglunni sem hann sjálfur fær jafnframt einræðisvald yfir.

Ekki má gleyma því, að rithöfundastyrkurinn er, samkv. frv., tekinn af þrem mestu rithöfundum landsins, þeim Halldóri Kiljan Laxness, herbergi Þórðarsyni og Jóhannesi úr Kötlum. Þetta kemur til af því, að það er ekki hægt að gera hvorttveggja, að vera miklu rithöfundur og andans maður og hafa sálufélag við þjóðstjórnarflokkana. Hinum rithöfundunum er ósköp kurteislega gefið til kynna, að eftirleiðis verði rithöfundastyrkurinn því skilyrði bundinn, að menn gerist leiguritarar afturhaldsins, eftirleiði, verði litið á rithöfundastyrkinn sem mútur. Hér er það andi Péturs Þríhross, sem sveimar yfir vötnunum. Hér er hið menningarlega afturhald í algleymingi.

Eftir er að nefna afkáralegasta þáttinn, hinn svo kallaða Finnagaldur þjóðstjórnaríhaldsins, sem hófst með yfirlýsingu þeirra á Alþingi um vanþóknun á Sósíalistafl. fyrir afstöðu hans til Finnlands! — Þið megið nú nærri geta, hlustendur góðir. hvort okkur, hm. Sósíalistafl., finnst ekki vansæmd fyrir þjóðina að fulltrúum þjóðstjórnaríhaldsins á Alþingi. En svo aumir erum við ekki að fara að gera okkur að athlægi með að lýsa þessum tilfinningum okkar í sérstöku þingskjali. En það bjálfalegasta við þennan skrípaleik er þó hitt, að Sósíalistafl. hafði enga afstöðu tekin til styrjaldarinnar í Finnlandi, og voru því öll þessi fíflalæti eintóm vindhögg. En hver einasti Íslendingur veit, til hvers refirnir eru skurnir. Hér er í fyrsta lagi verið að gera tilraunir til að skapa átyllu til ofsókna gegn Sósíalistafl., og í öðru lagi eru þessir herrar að reyna að gera sér mat úr raunum finnsku þjóðarinnar til að breiða yfir óþokkaverk sín gegn íslenzku þjóðinni. — það er Íslendingum til mikils sóma, að þessar afkáralegu múgæsingnr hafa lítinn árangur borið.

Að síðustu vil ég drepa á nokkrar af helztu till. Sósíalistafl. til að afstýra hinu óþolandi atvinnuleysi og bæta úr bráðri neyð þjóðarinnar á þessum erfiðleika- og hættutímum. Ég hefi ekki tíma til að dvelja við till. flokksins áður en styrjöldin hófst. Ég vil aðeins hvetja menn til að kynna sér þessar till., og mun þá engum dyljast, að ef sú stefna, er í þeim felst, hefði verið tekin upp í tíma, væri öðruvísi umhorfs á Íslandi nú og landið betur búið undir styrjöldina. Nú leggur flokkurinn áherzlu á, að allar ráðstafanir í atvinnumálum verði miðaðar við að gera landið sem sjálfbirgast, að atvinnubótavinna verði aukin mjög og varið svo sem kostur er til að undirbúa aukna framleiðslu.

Í byrjun styrjaldarinnar tóku þjóðstjórnarflokkarnir upp það kjörorð, að eitt skyldi yfir alla ganga. Nú ætti það að vera öllum Íslendingum ljóst, að í þeirra munni var kjörorð þetta argasta hræsni, því öll þeirra verk sanna hið gagnstæða, allar þeirra ráðstafanir miða að því að velta byrðum styrjaldarinnar yfir á almenning, en hlífa þeim ríku og gefa þeim ótakmarkað olbogarúm til að raka saman stórgróða. Eini flokkurinn, sem af fullum heilindum fylgir kjörorðinu, að eitt sé látið yfir alla ganga, er Sósíalistafl. hess vegna krefst Sósíalistafl. þess, að verkakaup hækki með vaxandi dýrtíð og verklýðsfélögin fái aftur algerlega frjálsar hendur til að bæta kjör sín. Þingmenn flokksins flytja frv. um þetta efni til breytingar á gengisskráningarlögunum, sama frv. og þeir fluttu á síðasta þingi. Í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir, að ellistyrkur, örorkustyrkur og aðrar tryggingarbætur hækki að sama skapi og framfærslukostnaður hækkar.

Þar sem gera má ráð fyrir miklum húsnæðisvandræðum, meðan styrjöldin stendur yfir, leggur flokkurinn til, að greiða verði tafarlausar ráðstafanir í húsnæðis- og byggingarmálum. til að tryggja nægilegt húsnæði, til að nýta á hagkvæman hátt það, sem fyrir er, og ákveða sanngjarna leigu.

Flokkurinn mun bera fram till. um, að ráðstafanir verði gerðar til að bæta að fullu upp það atvinnutap, sem af því hlýzt, ef engin saltfisksvertíð verður hér í ár, og fjárins verði aflað t.d. með sérstökum skatti af stríðsgróða. Þá mun flokkurinn leggja fram till. um ráðstafanir til að auka skipakostinn. Hann mun flytja till. um að nema burtu þrælahaldið úr framfærslulögunum, sem sett voru á síðasta þingi, og hann flytur till. um hækkun framfærslueyris í samræmi við dýrtíðina. Þá leggja þm. flokksins fram frv. til að tryggja öryggi sjómanna, sem sigla um hættusvæðin. Ennfremur till. um að sjómenn og fiskimenn fái fulla uppbót vegna verðhækkunar á síld og síldarafurðum. Það var hindrað, að sú till. fengi að koma til atkv. á síðasta þingi. Loks leggur flokkurinn til. að gerðar verið á fjárlögunum gagngerðar breytingar til sparnaðar á öllum óþarfaútgjöldum, bitilngum, aukalaunum, hálaunum o.s.frv., en framlög til verklegra framkvæmda og almenningsþarfa ekki lækkuð, heldur stórhækkuð, eins og brún nauðsyn krefur.

Sósíalistafl. er sannfærður unt, að ekki er hægt að hverfa inn á þessa braut til almenningsheilla, nema þessi stjórn, sem nú situr að völdum, verði látin víkja. Hann telur hinsvegar meiri þörf á því en nokkru sinni áður, að öll samtök fólksins, allur almenningur og allar stofnanir þjóðarinnar taki höndum saman til að afstýra örðugleikunum. Hann skorar því á öll heilbrigð öfl með íslenzku þjóðinni, hvar í flokki, sem þau standa, að sameinast um að koma þessari stjórn frá, og greiða götu fyrir myndun ríkisstjórnar, sent þjóðin getur treyst til að ráða fram úr mest aðkallandi nauðsynjamálum hennar, þegar svo mikið liggur við. Á slíkum tímum telur flokkurinn, að óhjákvæmilegt sé, að sem nánust samvinna sé milli ríkisstjórnarinnar, bæjarstjórna og annara stjórnarvalda og allra verklýðsfélaga, samvinnufélaga og alþýðusamtaka landsins.

Það getur orðið löng og erfið barátta framundan. En við munum halda merkinu hátt og láta aldrei kjörorðið niður falla: Íslenzk alþýða til sjávar og sveita! Tökum höndum saman, þar til fullur sigur er unninn.