27.03.1940
Efri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (2385)

82. mál, skipulagssjóður

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta frv. er mjög einfalt og óbrotið, og þarf ég litlu að bæta við það, sem hv. 2. landsk. sagði um það.

Með þessu frv. er gerð tilraun til að afla bæjar- og sveitarfélögum nauðsynlegra tekna til að framkvæma skipulag, sem oft hefir verið dýrt, ef þurft hefir að kaupa upp hús eða önnur mannvirki eða þá lóðir til þess að koma skipulaginu í framkvæmd. Sérstaklega verður þetta kostnaðarmikið, þegar þarf að koma á skipulagningu í stórum þorpum, sem hafa kannske í áratugi verið að byggjast upp skipulagslítið eða skipulagslaust, og þarf svo ef til vill að rýma burt heilum hverfum til þess að koma á nauðsynlegri skipulagningu.

Eins og grg. ber með sér, er frv. samið að tilhlutun skipulagsnefndar og bæjarráðs Reykjavíkur, og hafa þeir samið frv. Gunnlaugur Briem stjórnarráðsfulltrúi og Ólafur Lárusson prófessor, í nánu samstarfi við þessar tvær n.

Efni frv. hirði ég ekki að rekja nákvæmlega að þessu sinni. Í 4. og 3. gr. frv. er bent á þær leiðir, sem bæjar- og sveitarfélögum mættu verða til tekna til þess að standa straum af kostnaði við skipulagsbreytingu innan sinna vébanda, en þar er um að ræða tekjur af öllum fasteignum, sem bæjar- eða sveitarfélag hefir eignazt vegna hins fyrirhugaða skipulags, og ennfremur hluta af þeirri verðhækkun, sem fram kemur á fasteignum einstaklinga við það, að skipulagsbreyt. er framkvæmd. Annars er hér aðeins um heimildarákvæði að ræða í frv. til samþykktar fyrir bæjar- og sveitarfélög.

Ég vil leyfa mér að benda á það fskj., sem fylgir þessu frv., í sambandi við orð hv. 2. landsk., þar sem hann sagði, að allshn. mundi ef til vill athuga frv. milli umr. og koma með brtt., ef henni þætti ástæða til, en í fskj. nefnir skipulagsnefnd tvö atriði, sem til greina gæti komið að breyta í frv. annað snertir lengd þess tíma, sem greiða á verðhækkunarskaft, en hitt atriðið er um það, hvort fara beri inn á þá braut, að heimila bæjar- og sveitarstjórnum að greiða þær eignir, sem teknar eru eignarnámi, að einhverju leyti í skuldabréfum. Það er bent á það í þessu fskj., að kannske sé vafasamt, að heimilt sé að láta slíkar greiðslur fram fara í skuldabréfum, þar sem það kynni að brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, þar sem segir, að fullar bætur skuli koma fyrir, ef eign er tekin í almenningsþarfir. En ég vil þó biðja n. að athuga sérstaklega annað atriði, sem er um það, hvort ástæða sé til að hafa greiðslutímann lengri á verðhækkunarskattinum.

Að öðru leyti vil ég vænta þess, að þetta frv. fái að sigla hraðbyri í gengum þessa d., þar sem ég geri ráð fyrir, að það muni í höfuðatriðunum ekki vera ágreiningsmál, en hinsvegar brýn þörf að fá slík fyrirmæli, sem geta hjálpað bæjar- og sveitarfélögum til að framkvæma hjá sér nauðsynlegar skipulagsbreytingar.