22.04.1940
Sameinað þing: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2525)

110. mál, hlutafjáreignir í Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Ég hefi leyft mér að hreyfa þessu máli enn að nýju, og í þetta sinn á þann hátt að bera fram þáltill. á þskj. 399. Flestöllum hv. þm. er málið kunnugt, því að ég hefi tvisvar flutt frv. um leiðir til þess að leiðrétta það, sem mér og mörgum öðrum þykir ábótavant við þessa hlutafjáreign, sem um ræðir. Hún hefir orðið til fyrir atvik, sem ekki þarf að rifja upp fyrir þm. og ég veit, að þeir viðurkenna skyldu þjóðarinnar til að bæta úr. Það skal ég játa, að þótt ég þykist hafa komið auga á leiðir til þess, getur vel verið, að aðrir geti fundið þær heppilegri en ég hefi getað bent á. Því ber ég fram þessa till. um, að Alþingi feli ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, hversu mikið af fé því, sem inni stóð í Íslandsbanka í sparisjóði og á innlánsskírteinum, hafi verið gert að hlutafé í Útvegsbanka Íslands, og hvort kleift sé að bæta aðstöðu þeirra hlutabréfaeigenda, sem hafa af þessum ástæðum eignazt hluti í þeim banka. Niðurstaða rannsóknarinnar verði síðan lögð fyrir næsta þing.

Það er kunnugt, að þetta fólk, sem á hlutaféð og átti sparifjáreignirnar á sínum tíma, hefir þess engin not. Útvegsbankinn tekur ekki hlutabréf þessi gild sem trygging fyrir lánum. Fé þetta er því algerlega bundið, ef ekki tapað. Margt af þessu fólki voru smá-sparifjáreigendur, og nú er það flest orðið aldurhnigið og má sannarlega illa við því að missa þannig í raun og veru eign sína, einkum á tímum eins og nú eru. Það hefir sparað þetta til þess að gripa til, þegar sjúkdómar eða elli þrengdu að. Annars eru í grg. till. færð að þessu rök, og önnur ýtarlegri má sjá í umr. fyrri þinga um málið og í Alþt. 1934, á þskj. 289. Það er ekki fullreynt, hvort hægt væri að fara lagaleiðina til að rétta að einhverju leyti hluta þessa fólks. Ég efast um, að það sé hægt. Til þess nægir ekki ætíð hinn siðferðislegi réttur. En sá réttur er hér óvenju sterkur. Þetta er fólk, sem á neyðartímum stofnunarinnar lagði fúslega fram fé sitt til að koma fótum undir nýja bankastofnun og hlóð þannig um leið undir þá, sem sýndu mínni þegnskap og drógu fé sitt allt út úr bankanum. Greiðsluskyldan á þessu fé hvílir á þjóðinni allri. — Ég get látið útrætt um málið, nema annað tilefni gefist, og vona, að hv. þm. geti fallizt á að fela hæstv. ríkisstjórn þá rannsókn og íhugun, sem hér er farið fram á.