11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Fjhn. hefir athugað þetta frv. og mælir með því, að það verði samþ.. en hún hefir þó ekki staðið einhuga með því. Frv. felur í sér þá breyt. frá því, sem verið hefir í l. að undanförnu, að hækkað verði innflutningsgjald af benzíni um einn eyri á hvern lítra, úr 8 aurum upp í 9 aura. Jafnframt er ákvæði um, að 1/5 hluti af benzínskattinum gangi til brúargerðar og skuli fyrst brúa Jökulsá á Fjöllum hjá Lambhöfða. Einn nm., hv. 1. þm. Rang., hefir skrifað undir ákvæðið um hækkun á benzínskatti með fyrirvara. Hinsvegar hygg ég, að hinir nm. sjái ekki ástæðu til að vera á móti þessari hækkun. N. leggur til, að gerð verði ein breyt. á frv., sem er í því fólgin, að orðin „hjá Lambhöfða“ í niðurlagi 3. gr. falli niður. Með þessu ákvæði í frv. er því slegið föstu, hvar brúin skuli vera byggð, en nefndarmönnum fannst óþarfi að staðbinda brúna á þennan hátt. En fyrir mitt leyti álít ég óhæft með öllu, ef brúin á Jökulsá yrði byggð á þessum stað. Með því yrðu Hólsfjöllin, efsta byggð á þessu landi og einhver sú sérkennilegasta, sett algerlega hjá og gæti ekki haft not af þessu mikla mannvirki. Byggð í Hólsfjöllum fer nú vaxandi, og brúin gæti orðið fólkinu til mikils gagns. Nú mun verða fært fram því til framdráttar, að brúin yrði sett svona sunnarlega, suður hjá Möðrudal, að hún yrði þá ódýrari. En ég álít sjálfsagt, að Alþ. bindi það ekki, hvar brúin verður sett, því að það eru áreiðanlega svo sterk rök fyrir því, að hún eigi að verða sett utar, beint á milli Mýatnssveitar og Hólsfjalla. En með þessari brtt. er ekki farið fram á að ákveða neitt um það, hvar brúin eigi að vera, heldur aðeins fer till. fram á það, að fella niður úr frv., að brúin verði staðbundin hjá Möðrudal.

N. var það að vísu kunnugt, að hér lá fyrir brtt. frá hv. 6. þm. Reykv. og hv. 7. landsk. þm. á þskj. 320, en það hefir orðið að samkomulag í n. að taka ekki afstöðu til þessarar brtt. fyrr en flm. hefðu mælt fyrir henni. En jafnframt vil ég fyrir hönd n. mælast til, að þeir taki hana aftur við þessa umr., svo n. geti fengið að athuga hana til 3. umr.