17.04.1940
Sameinað þing: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2596)

111. mál, athugun á fjárhag þjóðarinnar

*Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi ekki miklu að svara hv. þm. A: Húnv. í þessu efni. Hann sagði, að ég vissi ekkert um, hve ábyggileg skýrslusöfnun fjvn. hefði verið. Ég sagði ekki heldur beint, að skýrslurnar væru óábyggilegar, en sagði hinsvegar, að hv. fjvn. ætti að vera kunnugt um það, hversu ábyggilegar þær væru. Hitt er víst, að það kom a. m. k. fyrir í fyrra, að það munaði a. m. k. 1/3 með 3 menn., hvað skýrslurnar voru skakkar, og sumir menn voru alls ekki teknir með, og allt var gert af sama handahófinu.

Hv. flm. sagði, að ég vildi ekki fá upplýst, hvernig fjárhag þjóðarinnar væri komið, og vildi því koma í veg fyrir, að slíkar skýrslur væru birtar. Ég vil bara segja það, að eftir því, sem ég þekki til óvandvirkni hans í þessum málum, treysti ég því ekki, að neinar gagnlegar upplýsingar fengjust um þessi mál, þó að stofnað væri til n., þar sem þessi hv. þm. ætti sæti, — það yrði líklega svipuð útkoma og með endurskoðun landsreikninganna.

Þá sagði þessi hv. þm., að ég hugsaði eins og maður á gjaldþrotabarmi. Ég veit nú ekki, hvað hv. þm. hefir fyrir sér í þeim efnum, en hitt veit ég, að ef nokkur hugsar eins og maður, sem kominn er að gjaldþroti, þá er það einmitt þessi hv. þm., því að ég hefi aldrei heyrt nokkurn mann tala með eins mikilli lítilsvirðingu um fjármál þjóðarinnar eins og þennan hv. þm., því það verður að játa, að þrátt fyrir fjárhagserfiðleika þjóðarinnar hafa eignir hennar aldrei verið meiri en nú, Við skulum bara líta aftur til aldamóta og sjá, hverjar eignir þjóðarinnar voru þá, og bera þær saman við eignir hennar nú, og þrátt fyrir erfitt ástand nú verður að játa, að velmegun þjóðarinnar hefir aldrei verið meiri en einmitt nú. Ég hygg, ef við lítum nokkur ár aftur í tímann, að við vildum ekki skipta á þeim verðmætum og þeim skuldum, sem þá voru fyrir í landinu, og þeim verðmætum, sem nú eru fyrir, jafnvel þó skuldirnar séu miklar nú. Þess vegna er það, þegar menn eru alltaf að tala um, að þjóðin sé á barmi gjaldþrots, þá verður það til þess að draga úr bjartsýni þjóðarinnar og til þess að gera lítið úr þeim stórkostlegu verðmætum, sem þjóðin hefir eignazt, þrátt fyrir það, þó að hún hafi safnað skuldum. Ég sé þess vegna ekki, að það sé neinum manni til góðs að vera stöðugt að draga fram það svartasta í efnahag þjóðarinnar. Það er enginn vafi á því, að hún hefir rétt mikið úr kútnum frá því, sem áður var. Þess vegna segi ég það, að þeir einir stjórnmálamenn hugsa eins og gjaldþrotamenn, sem stöðugt eru að tala um, að gjaldþrot sé fyrir dyrum; ég sé ekki annað.