29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (2614)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Emil Jónsson:

Mér þykir leitt, að hv. 1. flm. till. er ekki viðstaddur og getur því ekki lýst máli þessu eins og hann ætlaði. Hann hafði aflað sér ýmissa gagna, sem ég hefi ekki í höndum. En þar sem ég hefi verið með í þessu og tel mér málið nokkuð skylt, vil ég fara um það nokkrum orðum.

Ég þarf ekki að lýsa því, hversu mikill þáttur í öllu atvinnulífi þjóðarinnar, saltfisksverkunin er og hefir verið, því að nálega alstaðar við sjóinn hefir þetta um langt skeið verið aðalatvinnuvegur manna. Það er ekki langt síðan héðan voru fluttar út afurðir þessa atvinnuvegar fyrir 10–20 millj. króna, og sést bezt af því, hversu mikill þáttur þetta hefir verið í öllu atvinnulífi þjóðarinnar. Það ber einnig að athuga, að á þessum stöðum er þetta nær eini atvinnuvegurinn, sem konur og unglingar hafa getað stundað. Ég þekki þess mörg dæmi, að þegar fyrirvinnan hefir farið burt úr kaupstaðnum í atvinnuleit, hefir konan og stálpaðir unglingar getað aflað sér tekna við þessi störf, svo að fjölskyldufaðirinn hefir getað notað tekjur þær, er hann aflaði sér um sumarið, til að búa sig undir veturinn, í stað þess að hafa þær sem eyðslueyri handa heimilinu jafnóðum.

Önnur vinna í kaupstöðum og sjávarþorpum hefir verið lítil. Að vísu hefir á seinni árum komið upp nokkur iðnaður, en annars hefir helzt verið um að ræða vinnu við byggingar, og svo á síðustu tímum við landbúnað, þannig. að menn hafa fengizt við ræktun til þess að bæta hag sinn. Annars hefir ekki verið um aðra vinnu að ræða en störf við saltfisksverkun.

Á þessu hefir þó orðið nokkur breyting á síðari árum. Afli veiðiskipanna hefir minnkað mjög og söluörðugleikar auk þess dregið úr framleiðslustörfunum. Útvegsmenn hafa ekki verið eins fúsir til að reka þennan atvinnuveg og áður var. Af þessum orsökum hefir þjóðin verið að reyna að endurskapa að nokkru leyti atvinnuvegi sína. Víða um landið hafa t. d. risið upp frystihús, sem tekið hafa að sér að breyta verkunaraðferðunum úr saltfisksverkun í kældan og hraðfrystan fisk. En til þessarar verkunar hefir helzt verið veitt af vélbátum. Afli stærri skipa hefir varla farið í frystihúsin. Því hafa þeir bæir orðið harðast úti, þar sem togaraútgerð hefir verið mest stunduð. Þar hefir atvinnulífið dregizt saman, en í staðinn komið arðlitil atvinnubótavinna. Iðnaður hefir að vísu aukizt nokkuð í þorpum og kaupstöðum, en það hefir aðallega verið byggingariðnaður, sem alltaf er tímabundinn og ekki áreiðanlegur, svo að úr honum getur dregið jafnvel meira en öðrum iðngreinum eftir árferði. Þá hefir landbúnaður aukizt nokkuð, er kaupstaðabúar hafa tekið land til ræktunar til framfæris sér í atvinnuleysinu. Nú er svo komið í þessum bæjum, að keyrt hefir um þverbak, þar sem svo að segja enginn fiskur kemur á land, sem líkur eru til, að verkaður verði sem saltfiskur, á þeim stöðum, þar sem togaraútgerð hefir verið mest, en þeir eru Hafnarfjörður með sína 10 togara, Reykjavík með 20–30 togara og svo Patreksfjörður.

Ísfisksveiðar hafa verið allmikið reknar, og svo virðist ætla að verða framvegis, en útgerðarmenn gefa sér ekki tíma til að hugsa um saltfisksveiðar nema að litlu leyti. Hvað á þá það fólk að gera, sem beðið hefir eftir þessari atvinnu og byggt afkomu sína á henni? Það virðist ekki eiga annað framundan en dauðann, sérstaklega er byggingarvinna er því nær engin. Er ekki sýnilegt annað en að stjórnarvöldin verði að grípa hér til skjótra úrræða. Um landbúnaðinn er það að segja, að nú er búið að ganga svo frá honum, að ekki eru líkur til, að nokkur maður vilji leggja tómstundir sínar í að rækta land, þar sem fjórði hver mjólkurlítri er tekinn af slíkum mönnum og færður austur yfir fjall til manna, sem hafa þó að öllu leyti betri aðstöðu.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á þetta, þar sem engin von er til bjargar. Eins og útlitið er nú, eru engir möguleikar fyrir saltfisksveiðar og landvinnu í sambandi við þær, engir möguleikar fyrir byggingarvinnu, engir möguleikar fyrir verkamenn að stunda landbúnað í tómstundum sínum. Hvað á þá fólkið að gera? Það er ekkert framundan annað en atvinnubótavinna við einhverjar óarðbærar framkvæmdir, eins skemmtileg og hún er. Þess vegna er ekki furða, þó að bæði mér og öðrum hafi dottið í hug, hvort ekki væri arðvænlegra að reyna heldur að snúa sér að því, sem verið hefir okkar aðalatvinnuvegur að undanförnu. Ef til vill væri hægt með hjálp þess opinbera, ef ekki með öðru móti, að haga framleiðslustarfinu þannig, að fólkið geti fengið að vinna við saltfisksverkun, þó ekki væri í eins stórum stíl og áður. Þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning„ hvort nokkur sanngirni sé í því og hvort það muni vera fjárhagslega kleift fyrir útgerðarmenn að snúa sér að saltfisksveiðum dálítinn tíma, ef þeir telja meiri hagnaðarvon í ísfisksveiðum. Togaraflotinn hefir nú stundað ísfisksveiðar í 6–7 undanfarna mán. Hann hefir siglt með afla sinn til Englands og selt hann þar. Allir þeir, sem hafa stundað þessa veiði, hafa haft af henni nokkurn hagnað, og sumir allgóðan. En þessi sala er alltaf ákaflega óviss, og það geta engir sagt fyrirfram, hve mikið fæst fyrir aflann. Þó að heildarútkoman hafi enn verið sæmileg, er hverjum bátsfarmi siglt út í óvissuna, og margar ferðir hafa verið farnar til Englands, sem ekki hafa greitt að fullu tilkostnaðinn við að afla fiskjarins. Ég hefi reynt að gera mér grein fyrir því, hvort forsvaranlegt sé, bæði gagnvart þjóðarbúskapnum yfirleitt og útgerðarfyrirtækjunum sjálfum, að segja við þau: Nú skuluð þið fara á saltfisksveiðar í einn mánuð eða svo og hætta ísfisksveiðum á meðan. — Ég hefi ekki komizt að annari niðurstöðu en þeirri, að þetta sé fullkomlega forsvaranlegt. Ég hefi ekki getað fundið annað út, ef aflabrögðin yrðu svipuð og að undanförnu, en að með þessu mætti bjarga atvinnuleysinu að nokkru, ef ekki yrði reiknað gífurlegt verð fyrir þau kol og það salt, sem til þessara hluta þarf. Báðar þessar vörutegundir munu vera til í landinu„ a. m. k. sem þarf til að stunda saltfisksveiðar í einn mánuð. Söluverð afurðanna fyrir eins mánaðar afla ætla ég, að yrði engu mínna en meðalsala togaranna, sem selja fisk sinn til Englands. Þess vegna ætti það alls ekki að vera ókleift, hvorki fyrir togaraeigendur eða þjóðarbúskapinn, að gera þetta í einn mán. til að bæta úr atvinnuleysinu og til þess að þurfa ekki að láta verkafólkið vinna einhverja óarðbæra atvinnubótavinnu. Þá hlýtur sú spurning að vakna: Hvað getur Alþ. og ríkisstj. gert í þessum málum? Alþ. veitti þessum útgerðarfyrirtækjum landsins skattfrelsi fyrir 2 árum með hliðsjón af því, að hagur útgerðarinnar væri svo þröngur, að hann þyldi ekki skatta þá, sem ríkið og bæjarfélögin lögðu á útgerðina. Nú hefir að vísu komið fram till. um að afnema þetta skattfrelsi, og tel ég hana mjög athyglisverða. En í því formi, sem hún var lögð fyrir þingið, er hún gagnslaus á þessu ári til að bæta úr þeirri atvinnuleysishættu, sem nú vofir yfir og verður að koma í veg fyrir strax. Sú till., sem hv. 3. þm. Reykv. bar fram um að afnema skattfrelsi, hefir ekki þýðingu fyrr en á næsta ári og mun ekki bæta úr því neyðarástandi, sem nú er að skapast. Þess vegna verður að gera eitt af tvennu, sem kæmi að gagni fyrir fólkið, annaðhvort að skipin fari á saltfisksveiðar strax, eða leggja skatt á ísfisksútflutninginn, og gæti hann komið til afnota fyrir fólkið, sem biður atvinnulaust í landi eftir verkefni. Allir sjá, að úr þessu verður að bæta strax. Mér finnst ekki til of mikils mælzt, þó að Alþ., sem hefir veitt útgerðarmönnum þau fríðindi, sem felast í skattfrelsinu, verði því samþykkt, að útgerðin beini skipum sínum í þá átt, að vinnulaust fólk í landi hafi atvinnu af. Ef þessi leið reynist ófær, verður að fara hina. að láta atvinnulaust fólk njóta styrks frá þessum útgerðarmönnum.

Ég vænti þess, að hv. d. taki vel þessari till. og sjái, að eitthvað verður að gera til að koma í veg fyrir yfirvofandi atvinnuleysi. Ég hefi bent hér á tvær leiðir, annaðhvort að láta skipin fara strax á saltfisksveiðar eða leggja skatt á útgerðina til að bæta mönnum upp vinnutapið. Tel ég þá leið miklu heppilegri og eðlilegri, að láta fólkið vinna að framleiðslustarfinu, og mun halda mig við þá skoðun mína, þangað til útgerðarmenn hafa sýnt með rökum skaða sinn á því eða að hér væri um að ræða almennt tap fyrir þjóðarbúið. Atvinnutekjur verkafólks af saltfisksveiðum togaranna hafa numið á lítilli vertíð um 50000 kr. af hverjum togara í bæjum eins og Hafnarfirði, svo að sýnilegt er, hver áhrif það muni hafa á afkomu manna, ef þessi atvinna yrði með öllu. þurrkuð burt. Sérstaklega hefir þetta komið hart niður á verkafólki í Hafnarfirði, sem hefir haft saltfisksverkun sem höfuðatvinnugrein. Þess vegna er ég hræddur um, þó að það fengi einhverja atvinnubótavinnu í staðinn, sem gæti aldrei orðið annað en kák, að ekki myndi verða varið þeim upphæðum sem þyrfti til að bæta afkomu fólksins. Mér finnst því heppilegasta úrlausnin á þessu vandmáli felast í því, að þáltill. þessi verði samþ.