11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

67. mál, saltfisksveiðar togara

*Emil Jónsson:

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um sinn fyrirvara, þá langar mig til að undirstrika það, að það hefir aldrei verið mín meining, að neinum þvingunarráðstöfunum yrði beitt til þess að skipin færu á saltfisksveiðar. Það, sem fyrir okkur vakti, var það, að allt yrði gert, sem væri á valdi ríkisstj., til þess að þau tækju upp veiðarnar, að svo miklu leyti, sem það mætti teljast forsvaranlegt af hálfu allra aðila.

Ég get gjarnan þakkað hv. sjútvn. fyrir það, hvernig hún hefir í þetta tekið, þótt æskilegast hefði verið, að enginn fyrirvari hefði verið um þetta hafður. Ég vil einnig nota tækifærið til að þakka ríkisstj. fyrir það, sem hún hefir gert í málinu, því mér er það ljóst, að sá árangur. sem fengizt hefir, er að verulegu leyti henni að þakka, en árangurinn hefir orðið sá, að það hafa farið nokkur skip á veiðar.

Þá vil ég með örfáum orðum víkja að því, sem hæstv. atvmrh. sagði. Mér virtist hann draga í efa, að nokkur skylda hvíldi á útgerðarmönnunum um skattgreiðslu eða annað þess í stað til að draga úr atvinnuleysinu. Án þess að fara langt út í að ræða þetta mál skal ég geta þess, að í viðræðum um þetta, sem fóru fram milli bæjarstj. Hafnarfjarðar og útgerðarmanna þar, var aldrei dregið í efa, að útgerðarmenn ættu nokkrum skyldum að gegna í þessu efni. Og mér virtist þeir gera sér það ljóst, að ef þeir færu ekki á saltfisksveiðar, þá yrðu þeir að gjalda nokkra skatta til að standa straum af kostnaðinum við framfærsluna. Þessum atvinnufyrirtækjum hafa verið veittar skattaívilnanir og auk þess hafa bæjarstjórnunum verið gefnar heimildir til að undanþiggja þessi fyrirtæki útsvari. Það þarf þess vegna að koma yfirlýsing um það frá viðkomandi bæjarstjórnum, að þær muni ekki leggja útsvar á þessi fyrirtæki. Nú lét bæjarstjórn Hafnarfjarðar óspart í það skína, að ef ekki yrði farið á saltfisksveiðar þá yrði að leggja útsvar á þessi fyrirtæki.

Þetta mál þarf að sjálfsögðu nánari athugun. En ég geri ráð fyrir, að það heildarsjónarmið muni vera þar ríkjandi, að ef togararnir fari ekki á saltfisksveiðar, þá muni heimildin til útsvarseftirgjafar á þeim ekki verða notuð. Ég hefði heldur kosið, að hin leiðin yrði farin, bæði vegna þess, að það yrði halddrýgra fyrir verkafólkið, og eins af því, að ég teldi það neyðarúrræði að fara að leggja útsvör á skipin á því tímabili, sem talað var um, að þau ættu að vera skattfrjáls. En nauðsyn brýtur öll lög. Á einhverju verður fólkið að lifa. Og það er enginn, sem getur látið neitt af mörkum að ráði, nema þeir, sem hagnast á ísfisksútflutninginum. Það er þess vegna ekki rétt hjá hæstv. atvmrh., að það sé ekki nóg að samþ. þessa till. út af fyrir sig, heldur þurfi jafnframt að gera einhverjar ráðstafanir til að framkvæma þetta. Það er hægt að gera þær ráðstafanir samkv. gildandi l. með því að viðkomandi bæjarstjórnir noti ekki heimildina til útsvarseftirgjafar. Þegar málið var lagt fyrir útgerðarmenn í Hafnarfirði, var það gert á þessum grundvelli.

Þá skal ég að lokum víkja að því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að ríkisstj. myndi gera það sama, hvort sem þessi till. yrði samþ. eða ekki. Ég er undrandi yfir því, að hann skuli segja þetta, ekki af því, að ég viti ekki, að hann muni gera það, sem hægt er í þessu efni, en ég er undrandi yfir því, að hann skuli ekki telja sér styrk í því að hafa yfirlýstan vilja Alþ. um það, hvað skuli gert í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti lít svo á, að ef d. samþ. að vísa málinu til stj., þá væri það vegna þess, að hún teldi málið ekki þess vert að afgr. það á þinglegan hátt, heldur vildi skjóta sér undan allri ábyrgð. Ég fyrir mitt leyti tel því ekki vansalaust fyrir hv. d. að vísa málinu til ríkisstj., heldur vil ég láta afgr. það á þann þinglega hátt, Sem till. gerir ráð fyrir.